Sunday, 2 June 2013

Heklað eftir táknum á rússneskri síðu

Stundum finnur maður fjársjóði á netinu. Stundum eru það flottar flíkur sem gaman er að skoða myndir af, leiðbeiningar og kennsla í prjóni eða hekli og stundum eru það munstur á einhverjum síðum sem fanga hugann. Eitt af þeim munstrum sem ég hef rekist á mátti sjá á síðu Prjónakistunnar í gær. Þar var mynd af gráum kraga sem einhver hafði gert. Á síðunni sem hann var á var síðan slóðin að upprunalegu myndinni, forláta stuttbuxum sem ég gæti reyndar ekki hugsað mér að ganga í. 

Þegar ég sé svona flott munstur langar mig alltaf að prófa. Og stundum er ég heppnari en í annan tíma. Það átti við að þessu sinni því á þessari rússnesku síðu var munstrið teiknað upp. Ég þurfti því alls ekki að rýna í hekluðu flíkina til að gera eins.Jæja, en seinni partinn í gær var svo kominn tími til að prufa munstrið. Tákning eru jú alþjóðleg svo það skipti engu þótt ég skildi ekki hvað stóð við hlið þeirra. Úff, sem betur fer því ekki skildi ég eitt einasta orð af því sem þar stóð. Fyrst byrjaði ég á að hekla prufu fram og til baka. Það gekk ágætlega en svo ákvað ég að skella mér í að hekla kraga og sjá hvernig það gengi að tengja saman í hring án þess að það sæist.

Ég fitjaði frekar laust upp margfeldi af tölunni 10. Útkoman varð 70 loftlykkjur. Stærðina ákvað ég út frá því hvað kæmist með góðu móti yfir höfuðið á mér. Svo heklaði ég fyrstu umferðina. Hún var einföld stuðlar, loftlykkjur og fastapinnar.
Þá var komið að næstu umferð. Þar þurfti að gera stuðla sem voru svolítið upphleyptir. Því miður veit ég ekkert hvað þeir kallast því þrátt fyrir að ég hafi heklað einhver reiðinnar býsn á árum áður lærði ég táknin öll eftir sænskum blöðum og lagði mig aldrei fram við að læra þau á íslensku. Það kemur í bakið á mér í dag. En hvað um það. Ég gerði þessa stuðla með því að stinga heklunálinni undir stuðulinn miðjan eins og sést á myndinni og upp hinum megin við hann í stað þess að stinga ofan á hann eins og venja er. Táknið fyrir svona stuðul er stuðlatáknið með lykkjunni sem er opið til vinstri.
Þegar fyrstu tvær umferðirnar voru búnar var komið að bobblum, ekki þessu hefðbundnu þó. Táknið sýnir þrjú strik sem koma saman að ofan og neðan og mynda einhvers konar lauf. Bobblurnar eru gerðar með því að slá bandi upp á heklunálina eins og maður sé að fara að gera stuðul. Svo stingur maður nálinni í fastapinnan og sækir bandið, en í stað þess að klára að hekla stuðulinn slær maður aftur uppá nálina og sækir bandið aftur og svo enn einu sinni. Þar með var maður kominn með fullt af böndum á nálina. Svo sló ég upp á nálina einu sinni enn og dró það í gegnum allar lykkjurnar og lokaði svo öllu saman með loftlykkju.
Næsta umferð var alveg eins nema nú voru bobblurnar ekki gerðar inn í neinn fastapinna heldur um loflykkjubandið.
Og líka næstu tvær þar á eftir.

Þegar þessar umferðir voru búnar byrjaði munstrið í rauninni upp á nýtt en færist þó aðeins til og bobblurnar klufu stuðlana í miðju.
Svo smám saman fæðist þetta líka fína munstur. Nú var þetta orðið spennandi svo ég hélt áfram. Áður en við var litið hafði ég heklað úr tveimur garndokkum og sá fram á að ég yrði að ná mér í eina enn til að geta gert kragann nógu háan. Heklið er alltaf garnfrekt en á móti kemur að flíkur úr því eru hlýjar og góðar. Allt hafði gengið upp, munstrið var fallegt og samskeytin sáust ekki sem er nokkuð nauðsynegt þegar heklað er í hring.

                                                                          
Og hér er svo afrakstur gærdagsins.

 Og ekki er rangan neitt ljót heldur.


Vonandi getur einhver haft ánægju af þessum hugleiðingum mínum og jafnvel nýtt sér upplýsingarnar sem ég hef sett í þennan pistil. Endilega sýnið mér að þið hafið lesið þetta og hvað ykkur finnst um þetta munstur með því að skrifa komment hér fyrir neðan eða undir færsluna um þetta á síðu Prjónakistunnar en slóðin er hér .
4 comments:

  1. Þetta er meiriháttar flott á örugglega eftir að nýta mér þetta :) Takk fyrir

    ReplyDelete
  2. Þetta er mjög fallegt og ég er næstum viss um að ég á eftir að prófa þetta. Kærar þakkir.

    ReplyDelete


Það er alltaf gaman að lesa athugasemdir ykkar við færslurnar mínar svo endilega skrifið smá skilaboð til mín.