Friday, 27 April 2012

Prjónadagbók helgina 27.-29 apríl

Mig hefur lengi langað til að prjóna mér peysuna Þoku í dökkum lit og núna ætla ég að láta verða af því. Þessa peysu hannaði ég úr einbandi og einföldum plötulopa en að þessu sinni ætla ég að prjóna  hana úr tvöföldum plötulopa. Ég er búin að velja mér kolsvartan lit sem aðallit og svo ætla ég að hafa munstrið ljóst og blátt. Um helgina ætla ég svo að skrá í dagbókina tvisvar á dag og setja inn mynd af því hvar ég er stödd í prjónaskapnum.
27. apríl
Ég fitjaði á peysunni í morgun. Að þessu sinni byrjaði ég á bolnum þótt svo að venjulega byrji ég á ermunum. Ég rétt náði að prjóna stroffið og örlítið af slétta kaflanum áður en ég þurfti að fara í vinnuna. 


Seinni partinn hafði ég ýmsum hnöppum að hneppa og komst því ekki í að prjóna en stefni á að sitja við í kvöld og reyna að komsta sem lengst áfram með bolinn.

28. apríl
Í gærkvöldi sat ég og horfði á sjónvarpið og að sjálfsögðu var ég með prjónana á meðan. Ég sat við fram eftir kvöldi og þegar ég fór að sofa átti ég aðeins 11 cm eftir af bolnum. Eins og venjulega fór ég á fætur um hálf átta eins og ég geri flesta daga um helgar. Morgunstundirnar eru mínar uppáhalds stundir. Þá sest ég gjarnan niður og íhuga hvernig gærdagurinn hafi verið og hvað nýr dagur muni bera í skauti sér. Á þessum morgunstundum mínum er ég vön að prjóna og í morgun lauk ég þessum sentimetrum sem eftir voru af bolnum. Nú fyrst fer prjónaskapurinn að vera spennandi því nú tekur munstrið loksins við. 


Á meðan ég sat í sófanum mínum og prjónaði þessa síðustu sentímetra af bolnum hugleiddi ég aldur fólks og hvað hugtakið aldur er afstætt. Í dag eru nákvæmlega þrjátíu og sex ár frá því eldri dóttir mín fæddist. Ég sjálf var barnung þótt ég teldi það ekki þá, aðeins átján ára. Mamma mín var einnig átján ára þegar ég fæddist þannig að hún var þrjátíu og sex ára þegar hún varð amma. Henni fannst hún ung amma, það fannst mér ekki enda óttalegur krakki og leit aldur allt öðrum augum en ég geri í dag. Núna þegar ég hugsa um dóttur mína og aldur hennar sé ég þetta allt í öðru ljósi. 


Jæja, allt þokast þetta nú áfram. Í dag hef ég náð að sitja svolítið við þannig að ermarnar eru langt komnar. Munstrið tekur lengri tíma en slétta prjónið þannig að seinlegasti hluti ermanna er búinn. Sjálfsagt klára ég svo ermarnar í kvöld þegar ég sest niður aftur og vonandi eitthvað meira.

Eins og sést á myndinni valdi ég að hafa ljósgráan lit sem aðal munsturlitinn. Ég tel að sá litur komi betur út en alveg hvítur þar sem hann verður ekki jafn glannalegur með svona kolsvörtum lit. Það er þó auðvitað smekksatriði og sem betur fer er smekkur manna misjafn. Fyrir nokkrum árum hefði ég sjálfsagt valið mér hærusvartan lit í peysuna sem aðallit og hvítan og skærbláan í mustrið. En tímarnir breytast og mennirnir með.

29.apríl 
Gærdagurinn reyndist drýgri í prjónaskapnum en ég hafði gert ráð fyrir. Mestu munaði að ég sat nokkuð mikið við sjónvarpið í gærkvöldi og var að sjáfsögðu með prjónana. Núna er ég því orðin spennt að klára. Ef allt gengur að óskum ætti það að takast í dag. 

Um hádegi lauk ég loksins við að prjóna peysuna. Þá var ég búin að eyða tæplega 15 klukkustundum í vinnuna við hana og var ekki búin að fullu þar sem frágangur var allur eftir. Ég var að hugsa um á meðan ég prjónaði í morgun hvert tímakaup þeirra kvenna væri sem seldu peysur og sá það sem ég vissi auðvitað að þær væru ekki öfundsverðar af því kaupi. Eftir hádegi tók frágangurinn við. Fyrst gekk eg frá endum og lykkjaði undir höndum. Mér finnst skipta afskaplega miklu máli að vanda sig við þetta. Lélegur frágangur getur nefnilega eyðilagt annars ágæta flík. Þegar ég lykkja sama hef ég hjálparbandið kyrrt í þar til ég er búin. Þá fyrst dreg ég það burt.


Síðan saumaði ég tvo þétta sauma sitt hvorum megin í brugðnu lykkjurnar framan á peysunni. Böndin í munstrinu á bolnum þarf auðvitað ekki að ganga frá þar sem saumavélin sér um að festa þau eins og öll önnur bönd í munstrinu. Eina sem þarf að hugsa um er að passa að þau komi út á milli lykkjanna tveggja og leggja þau til hliðar á meðan að verið er að sauma.
Og þá var ekkert annað eftir en að klippa peysuna í sundur, hekla kantinn og þvo hana. Ég heklaði með svörtu og ákvað að hafa ekki neinn lit til viðbótar í kantinum. 


  

Og svo er bara að koma peysunni í þvottavélina. Það er ótrúlegur munur síðan ég uppgötvaði að það væri hægt að treysta þvottavélinni fyrir því sem annars hafði alltaf verið þvegið í höndunum. Á morgun verð ég vonandi með tilbúna mynd af peysunni til að setja hér inn.

Og svona lítur svo peysan út fullbúin. Ég setti á hana þrjár tölur efst og er ekki viss um að setja fleiri. Þetta eru rosalega flottar tölur úr kindavölum sem ég keypti á Sunnlenska sveitamarkaðinum sem var haldinn við Jötunvélar á Selfossi í fyrra. Vonandi verða svona tölur til sölu á markaðinum í ár en hann verður um næstu helgi.

Uppskriftina að þessari peysu er hægt að kaupa hjá mér á 500 krónur með því að senda mér póst á prjonauppskriftir@gmail.com   

Silfurfit, hekluð fit og húsgangsfit

Mörg orð hafa í gegnum tíðina verið notuð um uppfit. Algengustu orðin eru trúlega hundafit, silfurfit, skólafit, húsgangsfit og hekluð fit þótt mörg önnur orð (og þá oft staðbundin) hafi einnig verið til. Í dag, eftir að prjónaáhugi jókst til muna og prjónaheimurinn stækkaði með netinu, hafa ennþá fleiri orð bæst við eða heyrast að minnsta kosti oftar s.s. búðarfit, skrautfit og prjónuð fit.
Nú þegar svo algengt er að konur og einnig karlar prjóni er ekki úr vegi að rifja upp nokkur orð sem notuð eru um uppfit. Já og auðvitað er ekki úr vegi að tala um uppfitin sjálf þar sem það eru ekki allir sem kunna þau öll.

Orðið fit og uppfit eru annars eitt það fyrsta sem kemur í hugann þegar talað er um prjón, a.m.k. hjá mjög mörgum. Því orðið fit er notað um það að fitja upp og það er jú það fyrsta sem gera þarf þegar við prjónum. 

Einnig tala sumir um fit sem brugðna hlutann á sokkum og vettlingum. Annars var ég vön því að ömmur mínar og fleiri konur sem prjónuðu mikið þegar ég var lítil kölluð þann kafla brugðningu eða snúning. í dag tala líklega flestir um stroff þegar þessi hluti er nefndur.


Margs konar fit er til og misjafnt er hvað hver og ein manneskja notar. Sumir nota ýmsar gerðir, allt eftir því hvað verið er að prjóna hverju sinni en aðrir fitja alltaf upp á sama hátt. Algengasta fitin í dag er trúlega húsgangsfit þar sem það er almennt kennt í skólum. En það þykir þó ekki endilega alltaf vera besta teguning af uppfiti þar sem það er einfalt og ekki slitsterkt. Silfurfitin þykir henta betur þegar reynir á slit á köntum/jöðrum. Þá er einnig algengt að notuð sé hekluð fit . Sú gerð er sérstaklega hentug þegar taka á upp lykkjur seinna og prjóna t.d. blúndukant eða einfaldlega af því að ekki hefur verið ákveðið hver síddin á flíkinni á að vera og við viljum prjóna í hina áttina seinna.  

Ef þú kannt einhver skemmtileg prjónaorð eða veist um einhver orð (gömul eða ný) yfir prjón eða áhöld til prjóna sem gaman væri að skoða þá endilega skráðu orðið hér í komment.

Tuesday, 24 April 2012

Little Miss Sunshine

Fyrir nokkru síðan prjónaði ég stelpukjól. Það er svo sem ekki í frásögu færandi nema fyrir það að ég hef ekki gert mikið af því að prjóna kjóla frá því stelpurnar mínar voru litlar, og það er sko langt síðan það var.

Kjólinn prjónaði ég úr alveg frábæru garni frá Garnbúð Gauju. Garnið kallast Thema Nuova og er ullargarn sem má þvo í þvottavél. Garnið er bæði mjúkt og prjónast ákaflega vel. Áferðin er falleg og verður jafnvel ennþá fallegri þegar búið er að þvo það.

Ég ákvað að hafa kjólinn litríkan og glaðlegan enda tel ég að litlar stelpur eigi að ganga í glaðlegum fötum. Ég valdi mér því sólgulan,  skærbleikan og hvítan lit. Svo ákvað ég að blanda saman gataprjóni og tvíbandaprjóni en nota jafnframt slétt prjón og garða svona í bland.

Ég var nokkuð ánægð með útkomuna þegar ég var búin að prjóna kjólinn og flýtti mér að þvo hann enda gat ég vart beðið með að máta hann og sjá hvort hann færi vel. Lítill nágranni minn var síðan fenginn til að máta fyrir mig kjólinn. Hann reyndist heldur stór á hana enda trítlan litla smágerð. En ég var ánægð með útkomuna og sú litla var einnig ánægð í kjólnum.
Eins og allar uppskriftir þurfti þessi að fá nafn. Meðan ég prjónaði kjólinn setti ég reyndar vinnuheiti á uppskriftina eins og ég geri alltaf þegar ég bý til uppskriftir. Mér finnst nefnilega skemmtilegra að vera með uppskrift í höndunum sem heitir eitthvað, jafnvel þótt ég breyti nafninu seinna. Nafnið sem ég valdi sem vinnuheiti var Little Miss Sunshine. Það er tilkomið vegna þess að persóna í bókasyrpu sem var vinsæl hjá krökkunum mínu var með þessu nafni og hún var gul á lit eins og einn aðallitur kjólsins. Á meðan ég prjónaði kjólinn datt mér svo oft þessi sniðuga stelpa í hug. 

Nú er uppskriftin að þessum kjól tilbúin og ég hef valið henni nafnið Sólbjört. Þeir sem vilja geta fengið uppskriftina keypta. Ef þú vilt eignast hana þarftu að hafa samband við mig á prjonauppskriftir@gmail.com

Saturday, 21 April 2012

Kul - söluuppskrift

Í gær skrifaði kona á facebooksíðu Prjónakistunnar að uppskriftin að Kul væri klárlega uppáhalsdmunstrið hennar og hún væri búin að prjóna þrjár í ólíkum litum.

Fyrsta söluuppskriftin sem ég gerði var að peysunni Kul. Hún er án efa vinsælasta uppskriftin sem ég hef gert þótt margar hafi notið vinsælda. Peysuna prjónaði ég upphaflega úr einbandi og plötulopa en útfærði hana seinna fyrir tvöfaldan plötulopa og þannig er hún núna. Peysan er prjónuð á prjóna nr. 5,5 nema kantarnir neðan á peysunni og framan á ermunum, þá prjóna ég á fínni prjóna til að þeir verði ekki of víðir.

Munstrið í Kul er fljótprjónað þótt það sé frekar mikið og engir langir endar myndast.  Í gráum og svörtum litum kemur litaröðunin sérlega vel út en mörgum finnst þó auðvelt að velja nýja liti í hana. Sjálf hef ég séð mjög margar útgáfur af henni sem mér hafa þótt flottar.

Uppskriftin er í mörgum stærðum: S, M, L, XL og XXL. Þær eru að sjálfsögðu allar með á blaðinu. Peysan er aðsniðin og fellur því fallega að líkamanum.

Einu sinni fékk ég senda mynd af útfærslu af peysunni frá konu í Borgarfirðinum sem hefur prjónað fjölmargar peysur eftir munstinu. Þar var hún prjónuð ljós með dökkum kraga. Neðan á peysuna hafði verið sett bændamarkaðsstroff sem breytti mjög svip peysunnar.