Tuesday 31 December 2013

Síðasta prjónavika ársins 2013

Dagarnir milli jóla og nýárs eru ávallt dásamlegur tími á mínu heimili. Við slökum öll á og njótum þess að vera saman. Við nýtum líka tímann til að sinna áhugamálunum okkar sem eru fjölmörg. Eitt þeirra er bókalestur og því er ávallt kærkomið að fá bækur í jólagjöf sem hægt er að lesa áður en kennsla hefst á ný eftir áramót.

Þetta árið fékk ég tvær bækur, Megas og nýju bókina um íslensku þjóðbúningana. Báðar eru sérlega skemmtilegar. Ég hef lengi verið mikill aðdáandi Megasar þótt ég sé ekki beint hrifin af söngnum hans þá finnst mér ljóðin hans sérlega skemmtileg. Ég gerði mér samt ekki grein fyrir því fyrr en ég fékk þessa bók hversu mikið hann hefði í raun samið. Hin bókin er ekki síður frábær þar sem ég hef verið að sauma mér upphlut og um leið að fræðast sem mest um gamlar hefðir í gerð búninganna.

En ég lá ekki eingöngu í leti og las, ég prjónaði líka. Meðan ég sat og prjónaði fór ég að velta því fyrir mér hversu margar flíkur ég hefði prjónað á árinu. Satt best að segja voru þær ansi marga. Reyndar, þótt skömm sé frá að segja man ég ekki alveg hvað ég hef prjónað. 

Þar sem ég sat og íhugaði þetta sá ég að ekki mætti líða annað ár sem ég héldi ekki utan um prjónaskapinn. Ég er því að velta því fyrir mér að blogga vikulega um það sem er á prjónunum þá vikuna.


Þessa síðustu viku ársins lauk ég við sokka sem ég fitjaði upp á þann 22. des. Þar sem ég notaði ekki neina uppskrift heldur skellti bara einhverju verð ég að segja að ég er bara nokkuð sátt við útkomuna.


Þegar ég hafði lokið við sokkana byrjaði ég að prjóna sjóvettlinga á mág minn. Hann reyndar stundar ekki sjóinn heldur vildi fá slíka vettlinga til að nota í fjallaferðum. Eins og hefð er með sjóvettlinga eru þessir með tveimur þumlum og vel þæfðir.  


Svo þegar sjóvettlingunum lauk fór ég að nýta upp lopa sem ég á allt of mikið af. Ég fitjaði upp á tvíbandavettlingum og greip þá tvo liti sem hendi voru næstir, hærusvart og rústrautt (myndin sýnir ekki alveg réttan lit).  Ég var ekki alveg örugg á hvernig útkoman yrði en ákvað að láta bara slag standa. Þetta eru þykkir og góðir vettlingar sem eru virkilega heppilegir í vetrarkuldanum. Ég hafði ekki munstur í þumlinum en til að hann yrði jafn hlýr og belgurinn prjónaði ég hann með einlitu tvíbandaprjóni.


Þegar rauða og hærusvarta parið var komið í þvottvélina var enn langt í áramótin. Ég fitjaði því upp á karlmannsvettlingum. Ég ákvað að hafa þá ekki mjög áberandi þótt þeir væru símustraðir. Ég valdi því sama grunnlitinn og í hinum sem ég var að ljúka við og hafði svo grænan munsturlit. Ég ákvað að prjóna nýtt munstur og fann mér einfaldan munsturbekk sem hentaði í vettlingaprjón. Útkoman var ágæt.


Daginn fyrir gamlársdag fitjaði ég svo upp á þessum þrílitu vettlingum. Kannski klára ég þá áður en nýtt ár gengur í garð. Við sjáum til með það. Ennþá eru þumlarnir eftir. En þetta er sama munstrið og í þeim sem ég gerði síðast, þessum með græna munstrinu. Mér finnst munstrið bjóða upp á endalausa möguleika og ég á örugglega eftir að nota það oft. Svei mér ef ég skrái ekki uppskriftina á blað til seinni tíma nota.

Ef þú lesandi góður vilt gleðja mig skrifar þú komment hér fyrir neðan. Og, endilega skildu eftir nafnið þitt með færslunni þinni ef það birtist ekki sjálfkrafa.

Thursday 26 December 2013

Afgangsgarnið

Eins og gengur og gerist hjá fólki sem hefur í mörgu að snúast í desember var ég ekki búin að öllu fyrr en það var farið að nálgast jólin verulega. Fyrst þurfti að ljúka kennslu, prófum, semja kennsluefni og undirbúa næstu önn. Þegar því var lokið voru fyrstu þrjár vikur mánaðarins liðnar. Þá var kominn tími til að skúra og skrúbba á heimilinu, baka og skreyta. Ég þeyttist um húsið eins og hvítur stormsveipur, neitaði mér algjörlega um að koma nálægt prjónum og lauk því verkinu bæði fljótt og vel. 

Í tiltektarmaníunni fann ég garnafganga á ýmsum stöðum ásamt ónotuðum dokkum sem ég flokkaði skipulega til seinni tíma nota. Sumt lagði ég til hliðar aftur en garn sem var 210 m pr. 50 gr fór saman í kassa. Þetta garn var frá ýmsum fyrirtækjum en átti það sameiginlegt að vera 75% ull og 25 % styrktarþráður. Sem sagt sterkt og gott garn.
 

Ég er eins og aðrar prjónakonur og fór strax að hugsa um hvað ég gæti gert við þessa afganga. Þarna var t.d. það sem varð eftir þegar ég gerði rósavettlinga handa dóttur minni og föðursystur. Líka það sem varð eftir þegar ég gerði alla gataprjónssokkana sem ég laumaði til vina á árinu. Kannski ég gæti gert sjal hugsaði ég, en sló því frá mér því mig langaði ekki í sjal úr þessum litum. 

En þar sem mig var farið að klæja í puttana eftir að hafa látið prjónana eiga sig i tvo daga og enn aðrir tveir til jóla ákvað ég að fitja upp á sokkum. Ég vissi hversu margar lykkjur ég þyrfti en ákvað í annan stað ekki hvernig sokkarnir yrðu. Stundum er bara svo gaman að prjóna eitthvað út í loftið og láta það bara koma í ljós hvað úr því verður.



 En þegar prjónað er svona út í loftið rekur maður oftar upp en annars. En það er allt í lagi, svolítið seinlegra reyndar, en hvað um það. Á aðfangadag var ég búin að prjóna fyrri sokkinn og þá var kominn tími til að skella honum ásamt garninu í kassa aftur og halda jól.





.