Friday, 21 February 2014

Ekki er öll vitleysan eins

Fyrir löngu sagði vinkona mín mér frá því að hún væri farin að prjóna sínar eigin borðtuskur. Ég varð hugsi og fannst þetta undarlegt. Mér fannst ótrúlegt að leggja vinnu í að gera tuskur og spurði hvort hún hefði ekkert þarfara við tíma sinn að gera. Hún sannfærði mig  hins vegar um að tíma sínum væri vel varið í tuskuprjónið því þetta væru þær albestu tuskur sem hægt væri að hugsa sér.


Um daginn kom svo tímabil hjá mér þar sem orkan var engin eftir kennsluna og þegar undirbúningi næsta dags var lokið og verkefnabunki dagsins yfirfarinn var alltaf lítill tími eftir af kvöldinu og ég löngu hætt að ganga á öllum. Ég gat því ekki hugsað mér að prjóna neitt flókið og þaðan af síður eitthvað sem væri þungt á prjónunum. Ég tók mig því til og ákvað að nýta upp bómullargarn sem ég átti og prjóna borðstuskur. Næstu þrjú kvöld prjónaði ég því eingöngu borðtuskur, eina á kvöldi.


Til að tuskurnar litu nú sæmilega út ákvað ég að finna mér skemmtileg munstur í þær. Ég hafði garðaprjónskant utan um þær til að ramma munstrið svolítið inn.  Í fyrstu tuskunni er bara prjónað slétt brugðið. Munsrið byggir á 12 umferðum. Framhlið munstursins er slétt prjón en á bakhlið er munstrið sjálft síðan prjónað. Í umferðum 2 og 4 er munstrið 2 sléttar og 5 brugðnar til skiptis en í umferðum 6, 8, 10 og 12 eru prjónaðar 2 brugðnar og 5 sléttar til skiptis út umferðina. Einfalt ekki satt?


Síðan prjónaði ég aðra tusku sem er í rauninni miklu betri en sú fyrri, að minnsta kosti fyrir þær sem ekki þola að sjá röngu á tusku. Já trúðu mér, mörgum prjónakonum finnst þetta leiðinlegt. Þetta munstur er 2 umferðir þar sem prjónuð er 1 slétt og 1 brugðin til skiptis og síðan 2 sléttar umferðir þ.e. einn garður. Þetta fannst mér virkilega gott tuskumunstur, einfalt, fljótleg, auðvelt og fallegt.

 

Svo prófaði ég að gera eina með gatamunstri. Ég valdi mér einfalt gatamunstur og prófaði. Þetta var fljótprjónað munstur sem maður lærði strax í fyrstu munsturendurtekningunni. Ég held að þetta sé kannski ekki besta tuskumunstrið en fallegt er það.

Núna á ég þrjár fínar tuskur. Það verður ekki leiðinlegt að skella sér í helgarhreingerninguna að þessu sinni.

Monday, 10 February 2014

Fuglinn í fjörunni - uppskrift

Í sokkana notaði ég Basak sem er blanda af ull og akríl og sokkaprjóna nr. 3,5. Stærðin er 8-10 ára.

Fitjaðu upp  42 lykkjur, tengdu í hring og prjónaðu 10 umf stroff, 1 slétt og ein brugðin til skiptis. Þegar stroffi er lokið prjónar þú eina umf með strofflit og eykur út um 3 lykkjur.

Prjónaðu nú eftir munstri. Athugaðu að þú þarft að lesa myndina ofan frá til að fuglinn snúi rétt á sokknum. Þegar þessu munstri lýkur slítur þú böndin og passar að hafa endana nógu langa til að geta gengið frá þeim.

 


Nú er komið að hælnum. Skiptu lykkjunum þannig að þú sért með 23 lykkjur fyrir hælinn og 22 á ristinni. Athugaðu að samskeytin á sokknum eiga að vera aftan á honum. Nú prjónar þú hælbakið fram og til baka, slétt á réttunni og brugðið á röngunni. Taktu fyrstu lykkjuna alltaf óprjónaða. Þú prjónar 20 umferðir (10 á réttu og 10 á röngu). Það er einnig hægt að taka aðrahverja lykkju óprjónaða í annarri umferðinni til að gera hælinn sterkari. Sokkarnir á myndinni eru með hæl þar sem þetta er gert.

Nú er komið að úrtökunni á hælnum.
Þú prjónar áfram fram og til baka, slétt á réttunni og brugðið á röngunni. Óprjónaðar lykkjur á að taka fram af með því að stinga prjóninum í lykkjuna frá hægri til vinstri (eins og brugðið). Þegar tvær lykkjur eru prjónaðar saman sléttar til vinstri á að taka tvær lykkur af prjóninum, eina í einu og prjóna þær svo saman aftan í (ssk  sjá myndband).
21. umf. (Ranga) Taktu eina lykkju óprjónaða, prjónaðu 11 lykkjur brugðið, 2 brugðnar sama og að lokum 1 brugðna lykkju (8 lykkjur eru eftir á prjóninum). Snúðu við.

22.umf: (Rétta) Taktu 1 lykkju óprjónaða af prjóninum með bandið fyrir aftan. Prjónaðu 2 sléttar lykkjur, tvær sléttar saman til vinstri (SSK), 1 slétt. (8 lykkjur eru eftir á prjóninum). Snúðu við.

Hér eftir prjónar þú alltaf svona: 1 lykkja óprjónuð, prjónað þar til  1 lykkja er eftir að vikinu (staðnum sem þú snerir við á), prjónar þá 2 lykkjur saman, svo eina lykkju og snýrð við. Mundu að það er slétt prjón á réttu og brugðið á röngu. Prjónaðu svona, fram og til baka þar til þú hefur prjónað saman út í enda báðum megin og engin lykkja er eftir þegar úrtöku lýkur. Nú ættu að vera 13 lykkjur á prjóninum. 

 Nú er hælprjóni lokið og komið að því að prjóna aftur í hring. Prjónaðu 10 lykkjur upp af jaðrinum/kantinum á hælnum, 22 lykkjur af rist og prjónaðu upp aðrar 10 af hinum jaðri hælsins. 

Nú eru 55 lykkjur á prjóninum. Þú prjónar nú eftir munstri og fækkar lykkjum í næstu umferðum með því að prjóna saman 2 lykkjur á mótum ristar og hæls á báðum hliðum. Passaðu að láta halla úrtökunnar vísa að ilinni. Þegar lykkjurnar eru aftur orðnar 45 er úrtökum lokið og þú prjónar áfram að tá.

Nú er komið að tánni. Prjónaðu hana í sama lit og hælinn.Passaðu að lykkjufjöldi sé réttur á prjónum áður en þú byrjar að prjóna hana. Það eiga að vera 11 lykkjur á 1., 2. og 3. prjóni og 12 lykkjur á prjóni 4.

1.umf. Umferðin byrjar á miðju undir ilinni. Prjónaðu slétt út umferðina.


2. umf. Úrtökuumferð:

  •    1.prjónn  (byrjun umferðar 11 lykkjur) Prjónaðu þar til 2 lykkjur eru eftir á prjóninum, prjónaðu þær   saman.
  •    2.prjónn (12 lykkjur) Prjónaðu 1 lykkju, prjónaðu 2 lykkjur saman til vinstri (SSK), prjónaðu síðan hinar  lykkjur prjónsins.
  •    3. prjónn: Endurtaktu prjón 1.
  •    4. prjónn: Endurtaktu prjón 2.

3.-4.umf. Slétt prjón án úrtöku.
5.umf. Endurtaktu 2.umf, úrtökuumferðina.
6-7.umf. Slétt prjón án úrtöku 
8.umf.  Endurtaktu 2.umf, úrtökuumferðina.
9.umf. Slétt prjón án úrtöku. 
10.umf og áfram. Hér eftir eru allar umferðir úrtökuumferðir (sjá 2.umf) þar til 6 lykkjur eru eftir á prjónunum. Slíttu þá frá og dragðu þráðinn í gegnum lykkjurnar.

Þegar sokkaprjóninu er lokið er komið að því að sauma gogg á fuglinn og ganga frá endum.


Saturday, 8 February 2014

Fuglinn í fjörunni

Nú er röndótt sokkaþema hjá Prjónakistunni og því fannst mér tilvalið að sameina tvennt, prjóna sokka sem eitt barnabarnið mitt bað um og að prjóna röndótt.

Ég ákvað að fitja upp 42 lykkjur og nota prjóna nr. 3,5. Það taldi ég að hentaði garninu sem ég er með. Kannski hefði ég mátt vera með hálfu númeri minni prjóna til að fá sokkana ennþá fastari. Ég ákvað þó að rekja ekki upp heldur halda ótrauð áfram þegar þetta kom í ljós.

Eftir að hafa prjónað 10 umferðir af stroffi jók ég út, prjónaði fáeinar rendur og fór svo beint í munsturprjón. Ég  hafði rekist á fuglamunstur fyrir nokkru sem mér kom til hugar að nota, en það passaði ekki. Ég breytti því munstrinu svo ég gæti nýtt það. Einnig setti ég doppur á milli fuglanna til að þurfa ekki að vefja eins mikið.

Í fyrstu ætlaði ég að hafa reglulegar rendur en hætti við það og ákvað að prjóna rendurnar bara algjörlega út í loftið svo þær yrðu ekki leiðigjarnar í prjóni. 

Ég valdi mér franskan hæl með styrkingu á hælbaki til að gera hann ennþá sterkari. Svona hæl geri ég mjög oft. Ástæðan er svo sem ekki nein sérstök, nema að mér finnst frekar skemmtilegt að prjóna slíkan hæl. Styrkinguna geri ég með því að prjóna allar lykkjurnar í sléttu umferðinni en bara aðrahverja lykku í brugnu umferðinni. Þannig fæ ég bönd sem lykkja yfir lykkjurnar á röngunni og styrkja hana. Uppskriftin að frönskum hæl er hér en hann er þó í sinni einföldustu mynd þ.e. án styrkingar.

Þegar hælprjóninu lauk tók ég upp slatta af lykkjum í hvorri hlið. Í næstu umferðum fækkaði ég lykkjum um eina í hvorri hlið þar til ég var komin með jafnmargar lykkjur og áður en ég byrjaði að prjóna hælinn. 

Nú hélt ég áfram með óreglulegu rendurnar þar til ég kom að tá. Hún var gerð á hefðbundinn hátt með fáeinum umferðum á milli úrtaka til að byrja með en síðan var úrtaka í hverri umferð þar til aðeins 8 lykkjur voru eftir. Þá sleit ég frá og dró bandið í gengum lykkjurnar. 

Í dag fór ég í fjöruferð í Stokkseyrarfjöru. Þar sem prjónarnir lágu í veskinu mínu og annar sokkurinn var tilbúinn ákvað ég að taka myndir af honum til að sýna ykkur. Þegar ég skoðaði myndirnar kom í huga minn að flottasta nafnið á sokkana væri Fuglinn í fjörunni.

Sunday, 2 February 2014

Jónína langamma mín

Eitt og annað af því sem var hluti af lífi Jónínu langömmu minnar er hluti af lífi mínu í dag. Þrennt er mér kærast, búningurinn hennar, prjónatínan sem myndir er af og rósavettlingarnir.

Jónína Jónsdóttir, langamma mín fæddist 21. september 1879. Hún bjó að Skúmsstöðum á Eyrarbakka. Henni var margt til lista lagt. Hún var mikil saumkona, afbragðs prjónakona auk alls annars sem lék í höndum hennar. Hún dó áttræð að aldri, aðeins tveimur árum eftir að ég fæddist. Ég á því ekki lifandi minningar um hana en hlutir sem voru í hennar lífi eru nú orðnir hluti af mínu.

Já hún langamma var mikil prjónakona. Hún prjónaði margt fallegt en þeir sem muna eftir handavinnunni hennar muna líklega best eftir öllum vettlingunum sem hún prjónaði úr mjög fínu bandi. Þessi þrjú pör sem myndin er af eru allir prjónaðir af henni. Handbragðið er afbragð enda eru vettlingarnir vandaðir í alla staði, bæði á réttu sem og röngu.En þetta eru ekki einu vettlingarnir sem ég hef haft í fórum mínum frá henni. Fyrstu vettlingarnir sem ég handlék frá henni voru mjög slitnir af notkun enda búið að nota þá ansi lengi. Ég gat þó teiknað upp munstrið á þeim og af og til hef ég prjónað slíka vettlinga. Á myndinni er eitt slíkt par og við hliðina á þeim eru sauðskinnsskór. Skórnir eru ekki frá henni heldur saumaði ég þá á námskeiði hjá Heimilisiðnaðarfélaginu í fyrra. En að öllum líkindum hefur langamma gengið í svona skóm enda var íslenskur búningur daglegur klæðnaður hennar.
Enn eitt sem tengir langömmu við mig er forláta sporöskjulagaður tréstokkur, svokölluð prjónatína, sem ég held mikið uppá vegna þess að þetta var stokkurinn sem hún notaði undir handavinnuna sína. Oft þegar ég handleik þennan falleg grip hugsa ég til hennar og íhuga hvað hún hafi hugsað við sömu skilyrði. Skyldi hún hafa hugsað líkt og ég?


Mikið vildi hefði verið gaman að kynnast þessari merkilegu konu á annan hátt en með því að skoða handvinnuna hennar, upphlutinn sem hún saumaði og alla fallegu vettlingana. Ég er viss um að við hefðum getað setið og spjallað um saumaskap, prjónaskap og velt fyrir okkur lífinu og tilverunni á heimspekilegan og uppbyggjandi hátt. Ég er þakklát í dag fyrir að hafa erft  handlagni hennar og handavinnuáhuga.