Tuesday 4 June 2013

Prjónaklúbbarnir mínir

Ég er í tveimur prjónaklúbbum sem kemur líklega engum á óvart sem þekkir mig. Annar er hefðbundinn í líkingu við saumaklúbb þar sem við mætum með nokkuð reglulegu millibili að kvöldi til og prjónum. Hver kemur með það sem hún er að prjóna og auðvitað eru það ólík verkefni sem við erum að fást við. Svo er spjallað um allt milli himins og jarðar, borðuð heil reiðinnar ósköp af kökum og kruðeríi. 

Hinn klúbburinnn er ólíkur hinum að því leyti að við prjónum allar sams konar verkefni sem verður að fela það í sér að það sé krefjandi eða kenni okkur eitthvað nýtt. Samskipti okkar fara mest fram á netinu en af og til hittumst við, berum saman bækur okkar og veljum nýtt verkefni. Verkefnið er alltaf valið á þann hátt að allar í klúbbnum tilnefna eitt verkefni. Svo skoðum við hugmyndirnar og kjósum um þær þegar við hittumst næst. Það sem fær flest atkvæði prjónum við. Þá þýðir ekkert að mögla, allar verða að prjóna það sem við höfum kosið, svona virkar bara lýðræðið.
Fyrsta verkefni ársins 2013 voru sokkar sem við kölluðum Tyrkjann af því að í uppskriftinni segir að þeir sæki innblástur í hefbundna tyrkneska sokka. Mínir voru nú ekki jafn litríkir og þeir eru í Tyrklandi en engu að síður áhugaverðir.
 Næst voru prjónaðir vettlingar sem við nefndum Egyptann af því að munstrið í þeim er fengið frá ævafornum sokkum sem fundust í Egyptalandi. Talið er að þessir sokkar séu frá 12. öld ef ég man rétt.

Þegar vettlingaprjóninu lauk skelltum við okkur í sokka á nýjan leik. Að þessu sinni voru það Belgarnir. Dásamlegir sokkar sem er svo ótrúlega skemmtilegt að prjóna að margar okkar prjónuðu mörg pör af þeim. Á myndinni er hluti af þeim sokkum sem hópurinn prjónaði.

En við prjónuðum líka eitt og annað til hliðar við skylduverkefni klúbbsins. Við köllum þau hliðarverkefnin. Stundum prjónum við svipuð hliðarverkefni enda er auðvelt að hafa áhrif á hinar þegar við póstum inn myndum á netið af eitthverju skemmtilegu sem við erum að gera. Þessi sokkar sem eru á ýmsum stigum eru dæmi um eitt af hliðarverkefnunum okkar.
 
Í gegnum þennan prjónaklúbb hef ég eignast frábæra vini sem deila með mér áhugamálinu. Sífellt finnum við ný prjónaverkefni sem kenna okkur eitthvað nýtt og auka færni okkar en mestu máli skiptir þó heil og góð vinátta sem gerir það að verkum að við hlökkum til hverrar stundar sem við eigum saman.

2 comments:

  1. Sæl og blessuð , mikið eru þetta fallegir vettlingar og sokkar alveg hreint . Er einhvers staðar hægt að fá uppskrift af þessu fínirí ? Mun að sjálfsögðu borga fyrir það. Og þakka þér fyrir að deila þessu . Kveðjur
    Hjördís Blöndal

    ReplyDelete
  2. Sæl Hjördís
    Uppskriftin að vettlingunum er frí og finnst á netinu á þessari slóð:
    http://www.ullaneule.net/adventti07/ohjeet_egyptilaiset.html Hún er reyndar á finnsku en myndin með munstrinu er skýr og góð.
    Sokkarnir koma úr sokkabók sem kaupa má á Amazon. Þú getur skoðað hana og flett henni að einhverju leyti á þessari slóð:
    http://www.ullaneule.net/adventti07/ohjeet_egyptilaiset.html
    Kveðja, Guðbjörg

    ReplyDelete


Það er alltaf gaman að lesa athugasemdir ykkar við færslurnar mínar svo endilega skrifið smá skilaboð til mín.