Saturday, 30 June 2012

Prjónahugleiðingar á kosningadegi

Það er orðið nokkuð langt síðan ég prjónaði síðast flík sem ég hef ekki hannað sjálf. Ekki svo að skilja að mér finnist það leiðinlegt. Nei alls ekki, mér finnst það bara nokkuð gaman. Sérstakleg þó þegar ég skipti út litum. Það er nefnilega svo spennandi að sjá útkomuna þegar nýir litir raðast saman.

Síðasta sem ég prjónaði eftir annarra uppskrift var Arvetta sjalið úr garninu frá Garnbúð Gauju. Það var virkilega skemmtilegt og útkoman flott þar sem garnið er handlitað og marglitt. Svo er það svo dásamlega mjúkt. 


Núna er ég að prjóna peysu á frænku mína. Það byrjaði ekki vel. Ég prjónaði stroffið og fór nýjar leiðir með mustrið í því. Ég gat ekki hugsað mér að hafa venjulegt stroff á peysunni hennar og langaði ekki heldur að hafa stroff sem væri eins og á Farmers market peysunum. Ég valdi því nýja gerð af stroffi sem ég hef ekki notað áður og var sátt og reyndar bara ánægð með útkomuna. Stroffið mun líka koma flott út í háum kraga og framan á ermum sem þarf að bretta upp þar sem það er eins báðum megin.Svo þegar ég hélt áfram tók ég eftir að peysan var ansi víð. Svo víð að ég var næstum viss um að hún myndi ekki passa. Eitthvað hafði ég klikkað á málunum. Og hvað gera menn þá? Jú, þá var ekki um annað að ræða en setja allt á tvo hringprjóna og máta flíkina og athuga málin. Og auðvitað var peysan of stór, sjónminnið klikkar ekki!

Ég velti því fyrir mér að þrengja peysuna með því að setja lykkjur á band á henni að framanverðu og losa mig bara við þær í lokin. Peysan á jú að vera opin svo það var svo sem ekkert mál. En þá hefði stroffið auðvitað orðið að þrengjast líka. Ég hætti því við þetta allt saman og rakti upp. Vissi það sem var að ég yrði aldrei sátt með "skítareddingar" eins og einhver kallaði þetta einu sinni.

Í gærkvöldi byrjaði ég síðan á peysunni á nýjan leik. Ég sat með upprakta garnhrúguna við hlið mér ákveðin í að prjóna jafn langt og ég hafði verið komin. Vatt því garnið ekki upp heldur prjónaði bara úr hrúgunni. 


Það tókst að mestu en ég komst þó ekki lengra þar sem ég varð það spennt yfir myndinni sem ég var að horfa á í sjónvarpinu að ég lagði frá mér prjónana í miðri mynd og gleymdi prjónaskapnum um stund. Já, það getur sem sagt líka gerst að ég gleymi prjónunum um stund.

Í dag ætla ég að setjast út með prjónanan mína og halda áfram með peysuna. Enn sem komið er er hugmyndin bara í kollinum á mér og lítið að gerast í peysunni fyrr en kemur að ermum og munstri. Ég ætti því að hafa nægan tíma til að hugleiða  hvaða forsetaframbjóðandi fái atkvæðið mitt.

Friday, 15 June 2012

Að tengja saman lopaþræði

Þegar ég var lítil sat ég oft við eldhúsborðið hennar ömmu og hlustaði á hana og þá sem voru í heimsókn ræða um allt milli himins og jarðar. Margt af því sem þar var sagt man ég ennþá þótt annað hafi fallið í gleymskunnar dá. 

Einu sinni var vinkona hennar í heimsókn. Þær sátu með prjónana sína við borðið, töluðu, reyktu, drukku kaffi og prjónuðu, allt í senn. Svo kláraðist lopinn hjá vinkonunni og hún tók fram nýjan hnykil og batt endana saman með venjulegum hnút. Amma átti ekki orð. 
      - Hvað ertu eiginlega búin að prjóna lengi, sagði hún svo og var auðheyranlega ekki sátt við það sem hún sá. Svona fer engin prjónakona að, bætti hún við og var alvarleg á svipinn. Í fyrsta lagi á aldrei nokkurn tímann að hnýta lopa sama og í öðru lagi á aldrei að nota venjulegan hnút þegar prjónaband er sett saman því það kemur alltaf til með að sjást.

Skrítið að muna svona eftir alla þessa áratugi.

En hvernig á þá að fara að? Samkvæmt skoðunum ömmu minnar og sjálfsagt flestra reyndra prjónara er lopi tengdur saman með því að þæfa hann saman. Þegar prjónað er úr einföldum lopa eru endarnir einfaldlega lagðir saman, tungan sett í lófann til að væta hann örlítið og svo eru endarnir nuddaðir  saman þar til þeir eru vel fastir saman.Ef prjónað er úr tvöföldum lopa (tveimur þráðum af lopa) á að hafa endana mislanga svo þykktin komi ekki öll á einum stað. Gott er að hafa a.m.k.  5-10 cm mun á endunum. Svo eru tveir þræðir þæfðir saman í einu en ekki allir fjórir.


Svipað er farið að þegar léttlopi er setur saman, þá er lopinn klofinn í báðum endum og annar þráðurinn styttur. Þannig  sést ekki að lopinn hafi verið settur saman og þykktin verður passleg.


Þegar ég aftur á móti set saman garn er misjafnt hvernig ég fer að. Stundum klíf ég endana á nokkuð löngum kafla, nálægt 10 cm. Svo legg ég endana bara saman og held áfram að prjóna. Oft hætti ég líka bara að prjóna með öðrum endanum og byrja á þeim nýja og geng svo frá þeim þegar ég er búin með flíkina.

Fleiri aðferðir eru auðvitað til, s.s. að splæsa garnið saman með því að þræða annan endann inn í hinn en þær hef ég ekki tileinkað mér og ætla því ekki að reyna að útskýra þá aðferð eða aðrar ámóta hér.

Tuesday, 12 June 2012

Garnið frá ömmu

Börn eru svo dugleg, skemmtileg og skapandi. Þegar þeim er rétt eitthvert hráefni verður það oft á örskammri stundu að einhverju skemmilegu. Ef þú réttir börnum liti og blað færðu listaverk og ef þú réttir þeim garn finna þau alltaf einhverja leið til að skapa. 

Í síðustu viku fór ég norður í Svarfaðardal til að heimsækja fólkið mitt þar. Á Dalvík keypti ég garn handa tveimur af barnabörnunum, báðum stelpunum. Strákarnir kunna svo sem að prjóna en sýna prjónaskapnum ekki mikinn áhuga þessa dagana enda mjög uppteknir af öðru. Annarri stelpunni kenndi ég að prjóna fyrir tveimur árum en hin var ekki búin að læra listina. Ég hafði valið handa þeim falleg mislitt garn sem myndar einhvers konar munstur þegar prjónað er úr því. 


Svo þegar ég rétti þeirri yngri garnið og nýja prjóna sýndi hún gjöfinni engan sérstakan áhuga. Ég lét gott heita og ætlaði ekki að reka á eftir henni. Vissi sem var að þrýstingur gæti eyðilagt áform mín að gera hana að ungum prjónara. Betra væri að bíða og vona að hún bæri sig eftir því að fá að læra.Og ég þurfti ekki að bíða lengi. Strax sama dag, reyndar vel síðdegis, kom sú stutta til ömmu og sagði að sig langaði að læra að prjóna. Við settumst niður og fljótlega var hún farin að prjóna sér trefil. Krakkar eru svo undur fljótir að læra það sem þau hafa áhuga á. Henni fannst mikil kúnst að vefja bandinu um fingurinn og í rauninni meiri kúnst en prjónið sjálft. Ég lét hana nefnilega vefja því um baugfingur líka til að prjónið yrði ekki allt of laust.Sú eldri átti prjóna en sá í töskunni hennar ömmu heklunál. Slíkt tæki átti hún ekki en hafði örlítið fengist við að hekla í skólanum. Hún sýndi heklunálinni mikinn áhuga og varð afar glöð þegar amma gaf henni eina af sínum. 

Við ræddum svo um hvað hún vildi hekla og komumst að þeirri niðurstöðu að það ætti að vera eitthvað á hana sjálfa. Svo fitjaði amma upp á stúkum fyrir hana og tengdi saman. Að því loknu gat hún farið af stað í heklið. Hún var snögg að hekla og fannst það ákaflega skemmtilegt.
 

Og áður en kvöldið var liðið var fyrsta stúkan komin. Þótt aðeins væri komin ein var strax byrjað að nota hana og næsta dag var sú seinni hekluð. Ef einhver sem les þetta hefur áhuga á að hekla svona stúkur þá voru fitjaðar upp 20 lykkjur á þessum og tengt í hring. Síðan voru heklaðir fastapinnar og farið undir eitt band. Það var gert til að þær yrðu mýkri og þjálli því þegar farið er undir tvo þræði verður heklaða stykkið þéttara og harðara viðkomu. Þegar komið var að þeim stað þar sem úlnliður og lófi mætast var aukið út um 2 lykkjur með því að hekla tvisvar í eina lykkju tvisvar sinnum en ein lykkja höfð á milli. Og svo var haldið áfram að hekla að þumalgati. Þá var bætt við 2 loftlykkjum þar sem útaukningin kom og hoppað yfir 4 lykkjur til að mynda þumalgat. Síðan var heklað áfram þar til réttri lengd var náð. Svo þurfti að passa þegar seinni stúkan var hekluð að byrja þannig á garninu að báðar stúkurnar yrðu eins.

Saturday, 2 June 2012

Rendur

Stundum er veðrið svo gott að mér reynist ómögulegt að festa mig við tölvuna. Undanfarið hefur verið svona veður, endalaus sól og blíða. Þess vegna hef ég ekki bloggað um tíma. Þess í stað hef ég verið dugleg við að sitja úti með prjónana. Eitt að því sem ég hef verið að prjóna eru vettlingar með röndum. 

Eitt skiptið sem ég sat úti fór ég að hugleiða að það gengur ekki öllum jafn vel með að tengja rendurnar þannig saman að útkoma verðið falleg. Skilin á röndunum vilja nefnilega oft verða ljót og óprýði á því sem rendurnar annars ættu að prýða

En það eru til nokkrar leiðir til að koma í veg fyrir að þetta sé svona. Ef við tökum fyrstu lykkjuna óprjónaða fram af losnum við við þessi ljótu skil. Hér má sjá hvernig farið er að þessu. Látið ekki trufla ykkur að konan á myndbandinu prjónar ekki á sama hátt og við gerum flestar.
Á þessu myndbandi má sjá hvernig bandið sem verið var að prjóna með er lagt þegar skipt er um liti og rendur prjónaðar í hringprjóni. Það skiptir nefnilega máli hvernig við leggjum bandið þegar við skiptum um lit.


Annað vandamál með rendur er þegar þær eru prjónaðar í stroff. Litskiptin verða nefnilega ekki mjög falleg. Ef þú prjónar alla fyrstu umferðin í nýja litnum slétta færðu hreina rönd og fallega.