Tuesday, 11 June 2013

Rósir

Ég er svo sem ekki mikið fyrir að skreyta með blómum neman lifandi blómum. En samt kemur það fyrir að ég hekla blóm. Um daginn lagðist ég í rósahekl því ég þurfti rós til að gefa vinkonu minni til að merkja töskuna sína með áður en hún legði af stað til útlanda. Rósin sem ég heklaði var ekki bara falleg í einfaldleika sínum heldur var líka ótrúlega fljótlegt og auðvelt að gera hana.

Ég fann mér bleikt garn og hófst handa. Til að gera rós þurfti að hekla 2 loftlykkjur fyrir hvert blað á krónunni.  Fyrst fitjaði ég upp 30 loftlykkjur af því að ég vildi hafa 15 blöð á henni og svo bætti ég við 4 loftlykkjum til að og allt gengi nú upp á þann hátt sem ég vildi.

Í fyrri umferðinni byrjaði ég að hekla 1 stuðul, 2 loftlykkjur og 1 stuðul í 5. loflykkjuna frá heklunálinni. * Svo hoppaði ég yfir 1 loftlykkju og gerði 1 stuðul, 2 loftlykkjur og 1 stuðul, allt í næsta gat*. Þetta endurtók ég svo út umferðina (*-*) og endaði á að gera 1 loftlykkju og snúa við. Í lokin var ég komið með loftlykkjubogana 15 sem ég lagði upp með að hafa. Í seinni umferðinni * heklaði ég 7 stuðla í hvern loftlykkjuboga (þ.e. í kringum hverjar 2 loftlykkjur) og 1 fastapinna í gatið milli stuðlanna*. Þetta endurtók ég í öllum 15 bogunum og endaði svo á 1 fastapinna.


Svo var bara að rúlla stykkinu upp og sauma það saman að neðan svo rósin héldi lagi. Ég rúllaði því upp þannig að rangan sneri út.

Svo heklaði ég einföld laufblöð til að hafa hjá rósinni. Laufblöðin eru bara 2 umferðir eins og rósin sjálf. Fyrst fitjaði ég upp 11 loftlykkjur og svo sneri ég við og heklaði til baka.

Í fyrri umferðinni heklaði ég 1 keðjulykkju, 1 fastapinna, 1 hálfstuðul, 4 stuðla, 1 hálfstuðul, 1 fastapinna, 1 keðjulykkju. Svo gerði ég 1 loftlykkju og sneri við.

Seinni umferðin er spegilmynd af hinni fyrri og því gerði ég allt eins og í henni. 

Nú var rósin tilbúin, bara eftir að hekla á hana band og binda um ferðatösku vinkonu minnar.

Og hér er rósin komin á ferðatöskuna og henni ekkert að vanbúnaði að leggja af stað í ferðalagið.

3 comments:

  1. Flottar rósir, en ég er svo forvitin um blómin sem eru í background hjá þér. Heklaðirðu þau?

    ReplyDelete
  2. Nanna ég heklaði þessi blóm. Í einni af uppskrifunum sem er á síðu Prjónakistunnar má finna þessi blóm.

    ReplyDelete


Það er alltaf gaman að lesa athugasemdir ykkar við færslurnar mínar svo endilega skrifið smá skilaboð til mín.