Sunday, 26 May 2013

Heklbókin mín - prufa 2

Tvö skref áfram og eitt aftur á bak er ágæt lýsing fyrir heklið sem ég ætla að segja frá í dag. Heklið er mjög fallegt og vel til þess fallið að nota í teppi eða hvað annað sem þarf að vera fallegt báðum megin. Til að búa til hið fullkomna teppi með þessu hekli þar ekki annað en að bæta við fallegum kanti.Fyrst er að fitja upp hæfilega margar lykkjur. Í munstrinu eru lykkjur sem eru margfeldi af 3. Hvert munstur er sem sagt 3 lykkjur og svo er það ekki nema 2 umferðir. Í munstrinu getur samt verið fallegt að hafa eina aukalykkju á hvorum kanti til að hann verði jafn og fallegur og þar sem það þarf einnig að gera eina loftlykkju þegar snúið er við þarf ekkert að huga að neinum aukalykkjum til viðbótar við margföldunartöluna þegar fitjað er upp nema til að huga að lengdinni.

Þegar þú hefur fitjað upp þann fjölda af lykkjum sem þú ætlar að nota skaltu gera eina umferð af fastapinnum. Mundu að fyrsti fastapinninn er gerður í lykkju nr. 2 frá nálinni.Næsta umferð er pínulítið snúnari en samt ekkert erfið. Byrjaðu á að gera  4 loftlykkjur eða 1 fastapinna í fyrstu lykkjuna og bættu svo við 3 loftlykkjum. Aðferðirnar tvær gefa mismunandi útkomu og það er bara um að gera að prófa og sjá hvor þér þykir fallegri.

Og svo er það munstrið sjálft:
*Hoppaðu yfir 1 fastapinna og gerðu svo stuðul í næstu tvo fastapinna. Nú er komið að þessu skemmtilega, gerðu 1 stuðul í fastapinnann sem þú slepptir (já þú ferð aftur á bak). * Endurtaktu frá *til * þar til þú ert komin út á enda en þar gerir þú 1 stuðul ef þú hefur ákveðið að hafa staka stuðla á kantinum. Gerðu svo 1 loftlykkju og snúðu við. Ef ekki er stakur stuðull á kantinum snýrðu auðvitað bara við eftir munstrið.
Nú endurtekur þú þessar tvær umferðir, fastapinnaumferðina og stuðlaumferðina þar til rétt lengd er komin.

Að lokum eru hér myndir sem sýna prufuna mín að framan og að aftan. Eins og þú sérð er ekki mikill munur á hliðunum. 
Nú er bara að taka fram heklunálina og æfa sig. Hver veit nema þetta eigi eftir að verða þitt uppáhalds munstur.

Endilega kvittaðu svo eftir lesturinn og segðu mér hvað þér finnst um munstrið. Þú getur hvort sem þú vilt kvittað hér eða á facebooksíðu PRJÓNAKISTUNNAR. 
5 comments:

 1. Virkilega flott mynstur á örugglega eftir að prófa þetta :-)

  ReplyDelete
  Replies
  1. gleymdi að kvitta :-) Kær kveðja Marta Jónsdóttir

   Delete
 2. Einfalt en fallegt munstur

  ReplyDelete
 3. Guðný Björk5 June 2013 at 15:22

  Afskaplega fallegt og einfalt munstur. Féll algjörlega fyrir þessu :)

  ReplyDelete


Það er alltaf gaman að lesa athugasemdir ykkar við færslurnar mínar svo endilega skrifið smá skilaboð til mín.