Monday 20 July 2015

Baldýraðir borðar

Eins og kom fram í síðasta bloggi ætla ég að gera þjóðbúning og gef mér hálft ár í það.  Ég byrjaði á húfunni og nú er komið að því að baldýra borða. Þar sem þetta er 19. aldar búningur þá eru borðarnir silkisaumaðir. 

Ég veit að baldýringin verður sá þáttur sem mér á eftir að finnast erfiðastur við þjóðbúningagerðina. Sumir segja að vön saumakona sé sjötíu klukkustundir að sauma og setja upp borðana. Því get ég vel trúað tel að þar sem ég er óvön muni þetta taka mig miklu lengri tíma. Ég verð sem sagt örugglega þrjár fullar vinnuvikur en ekki bara tvær eins og vön manneskja. Já ef ekki lengur enda er ég enn sem komið er ótrúlega klaufst við að munda þessar örmáu nálar sem notaðar eru þótt mér gangi almennt mjög vel að sauma með svolítið stærri nálum. Svo er eins og ég hafi tíu þumalfingur þegar ég nota fingubjörg við saumaskapinn enda hef ég aldrei á ævinni notað slíkan grip áður. Það eina sem mér finnst auðvelt að nota er þetta dásamlega litla áhald á myndinni sem hjálpar mér að þræða nálarnar á auðveldan hátt.



Áður en byrjað er á borðunum sjálfum þarf maður auðviðtað að æfa sig. Katrín vinkona mín kenndi mér fyrstu skrefin í baldýringu og svo er það æfingin sem skapar meistarann eins og allir vita. Auðvitað á ég ennþá langt í land. Fyrsta prufan mín er orðin ársgömul og inniheldur aðeins þrjú hálfsaumuð lauf sem kenndu mér sporið.



Ég skellti mér í að gera nýja prufu og rifja upp sporin. Hún er heldur skárri en fyrstu laufin en langt því frá að vera fullkomin. Núna er ég farin að æfa mig að baldýra ákveðin lauf og blóm, skoða litskipti og ná betur tökum á tækninni við saumaskapinn. Svo er ég líka búin að prófa að gera snúru og tylla lauslega á prufuna.


                                  

Borðarnir eiga að vera með þremur blómum, jörð og nokkrum laufblöðum. Myndirnar teikna ég sjálf en styðst við gamlar myndir sem gefa mér ákveðnar hugmyndir að formum.



Nú þarf að velta munstrinu fyirr sér um tíma og breyta og bæta telji ég þess þörf. Á meðan bíða borðarnir tilbúnir en þá var ég búin að setja upp fyrir nokkuð löngu síðan. Framhliðin er úr flaueli en bakhliðin úr gömlu koddaveri.


Og það sem ég hlakka til núna, Ég get varla beðið eftir að hefjast handa. Hálfnað verk þá hafið er segir málshátturinn og víst er að mér finnst ég komin vel af stað að hafa tekið þessa ákvörðun og vera byrjuð að æfa mig. 

Friday 10 July 2015

19. aldar skotthúfa

Í Svarfaðardal hefur myndast sú hefð að margar stúlkur klæðast þjóðbúningum á fermingardaginn. Í athöfninni eru þær ekki í kyrtum eins og hinir sem ekki eru í búningum. Þegar ég svo fór og lærði að sauma búning datt mér í hug að gaman væri að sauma búning á dótturdóttur mína sem á að fermast næsta vor. Ég hef því eitt ár til stefnu sem ekki er mikið þar sem mikið er um handsaum og seinlega handavinnu við gerð svona búnings. En maður kallar nú ekki allt ömmu sína svo nú er bara að spýta í lófana og hefjast handa.

Fyrir valinu var 19. aldar upphlutur. Það þarf því að sauma upphlut, pils og svuntu. Auk þess þarf að prjóna húfu.

Fyrsti hlutinn hjá mér var að gera húfuna. Nú er birtan næg enda hásumar á Fróni. Ég keypti garn hjá Heimilisiðnaðarfélaginu, dásamlegt mjúkt og áferðarfallegt garn en auðvitað mjög fínt eins og gengur í svona húfu. Það sést vel þegar prjónn nr 3,5 er settur við hlið garnsins.




Ákafinn í mér var svo mikill að ég hreinlega gleymdi að athuga hvernig uppskriftin ætti að vera, taldi að mér dygði að vera með uppskrift að 20. aldar húfu og dýpka hana. Þetta sýnir nú fljótfærnina, auðvitað átti ég að vita að 19. aldar húfan hefur ekki sama lag og hin. Ég sneri mér því til þeirra dásamlegu kvenna sem stýra búðinni hjá Heimilisiðnaðarfélaginu og viti menn, með það sama var ég komin með uppskrift í hendur og alls kyns fínar upplýsingar - allt græjað í gegnum netið.

Svo var fitjað upp, 220 lykkjur takk í einni lítilli húfu. Ég ætlaði að gefa mér marga daga í verkið. Fyrsta daginn prjónaði ég beina hlutann. Hér var ég nánast farin að hafa áhyggjur því þetta virtist svo stórt á prjónunum, samt fylgdi ég uppskrift og er ekki þekkt fyrir að prjóna neitt laust.



 En ég ákvað að trúa því að þetta yrði í lagi og ef ekki myndi ég bara prjóna aðra. Ég hélt því áfram. Annan daginn fór að koma lag á húfuna enda úrtökukaflarnir farnir að móta húfuna.

 Það er hreinlega eins og maður geti ekki hætt þegar maður byrjar á svona skemmtilegu og ögrandi verkefni. Á þriðja degi kláraði ég því húfuna. Nú var ekkert eftir nema þvo hana, þæfa lítilega svo hún væri í alveg passlegri stærð og auðvitað að sauma niður faldinn.

Mér lærðist það fyrir löngu að kapp er best með forsjá, því ákvað ég að þræða niður faldinn áður en ég saumaði hann.



Ég sá ekki eftir því að eyða nokkrum mínútum í þræðinguna enda var miklu fljótlegra að sauma kantinn niður en annars hefði verið og engin hætta á að neitt misteygðist eða yrði undið.

Og allt í einu var allt búið, húfan prjónuð, þvegin, þæfð og þurrkuð. Þá var bara að draga fram skúfinn fallega sem ég keypti um leið og garnið og silfurhólk sem ég keypti af gömlum gullsmið fyrir nokkrum árum. 



Nú er bara að pressa létt niður faldinn og setja herlegheitin saman. 

Sunday 7 June 2015

Að prjóna línulegt munstur í hringprjóni

Í dag ákvað ég að láta loksins verða að því að prjóna eftir prjónatækni sem ég lærði fyrir löngu. Þessi tækni felur það í sér að maður getur prjónað munsturbekk í hringprjóni sem ekki nær allan hringinn heldur nær aðeins yfir tiltölulega fáar lykkjur á framhlið t.d. sokks eða vettlings, liggur s.s. eins og lína eftri endilöngu prjóninu.

Fyrst var að prjóna stroffið og síðan bætti ég við tveimur einlitum sléttum umferðum. Og þá var komið að munsturprjóninu. 

Fyrst prjónar maður eina umferð af munstrinu með hefðbundnu tvíbandamunstri.



Svo snýr maður við og prjónar til baka og nú eingögnu þær lykkjur sem eru í munsturlit en tekur hinar óprjónaðar. Og auðvitað prjónar maður þær brugðnar til að þær verði sléttar á réttunni. Mér fannst best að hafa bara fáar lykkjur á prjóninum sem var með munstrinu svo maður væri ekki alltaf að færa til óprjónaðar lykkjur sitt hvorum megin við munstrið.



Svo þegar maður er búinn að prjóna þessar tvær umferðir af munstrinu, fyrri með báðum litum og þá seinn með munsturlitnum snýr maður aftur við og prjónar frá réttu með aðallitnum það sem eftir er af hringnum. Aukaliturinn liggur bara og bíður eftir að maður klári umferðirnar. 

Þegar fyrri umferðin er búin og maður kemur að munstrinu aftur prjónar maður þær lykkjur sem ekki voru prjónaðar brugðnar til baka, þ.e. þær sem eiga að vera í aðallit og tekur hinar óprjónaðar. Svo kárar maður seinni umferðina.

Þessar tvær umferðir prjónar maður síðan alltaf eins nema hvað maður fylgir munstrinu. Þegar komið er að þeim stað þar sem munstur í þriðju umferð byrjar tekur maður upp munsturbandið og bætir á fingurinn og prjónar með tveimur böndum, munsturlit og aðallit. Svo er bara að muna að alltaf eru tveir prjónar af munstri prjónaðir í einu, sá fyrri á réttu með tveimur litum en sá seinni á röngu með munsturlitnum eingöngu.

Eftir að hafa prjónað nokkrar umferðir var munstrið farið að koma þokkalega í ljós.



Og svo er að gera eins og sönn prjónakona, snúa herlegheitunum við og athuga hvort rangan sé ekki í lagi.

Og svei mér þá ef þetta er ekki bara ágætt og ég því nokkuð sátt með útkomuna. Nú er bara að halda áfram og athuga hvort þetta endi ekki sem ágætis vettlingar. Ég er að minnsta kosti búin að tileinka mér tækni sem ég mun án efa nota oft í framtíðinni.

 Og hér er svo fyrri vettlingurinn tilbúinn. 






Saturday 10 January 2015

Prufuprjón 9. janúar

Í gær var einn af þessum dögum sem ég flokka sem mína uppáhalds prjónadaga, eða ætti ég frekar að segja prjónakvöld því auðvitað vann ég fullan vinnudag og hugsaði síðan um heimilið, tók til eldaði mat og gekk frá áður en ég gat komið mér fyrir í prjónahorninu mínu. En ég kalla hann uppáhalds af því ég gaf mér tíma til að hugaleiða næsta verkefni. Hönnunarferli á flík finnst mér alltaf svo heillandi og það að velta hlutunum fyrir mér, prufa aðferðir og læra eitthvað nýtt og að skapa er einfaldlega svo svakalega skemmtilegt.

Nú stendur til að prjóna peysu á sjálfa mig en ég er alls ekki búin að gera það upp við mig hvernig hún á að vera. Þess vegna settist ég niður, fletti munsturbókum og leitaði að hugmyndum. Ég var reyndar með eitt á hreinu, ég vildi ekki alveg hefðbundna lopapeysu enda á ég þær ansi margar og get skipt um daglega alla vikuna án þess að láta sjá mig í þeirri sömu tvo dag í röð - já og reyndar meira til.



Fyrst byrjaði ég á að prjóna prufu með skuggprjóni sem mér finnst svolítið flott í einlita peysu þar sem lykkjurnar á réttunni eru ekki sléttar heldur brugðnar með svolitum skuggum sem myndast þegar munsrið er gert. Þetta er ákaflega heppilegt munstur þegar maður ætlar að prjóna fram og til baka. Prufan er prjónuð úr tvöföldum lopa á prjóna nr. 7. Mig langaði að sjá hversu stóra prjóna þetta munstur þyldi. 



Því næst prjónaði ég vöfllumunstur sem er mjög einfalt og fljótprjónað. Skemmtilegra er að prjóna það fram og til baka þar sem þá er bakhliðin að mestu prjónuð slétt. Ég hélt mig við grófu prjónana til að sjá samanburðinn á munstrunum í réttu ljósi.



Því næst prjónaði ég munsturprjón sem ég veit ekki neitt nafn á. Það var nokkuð spennandi prjón sem gæti hentað í þykkari peysur en einnig í kraga og ýmislegt fleira. Þetta munstur prjónaði ég eins og öll hin fram og til baka en allt eins má líklega prjóna það í hring.

Svo prjónaði ég garðaprjónsprufu með sama lopanum og áfram með prjóna nr 7. Það varð ansi bosmamikið og því augljóst að ég mun ekki nota svo grófa prjóna þegar ég að endingu prjóna peysuna, a.m.k. ekki ef ég hef eitthvað garðaprjón í henni.



Svo rakst ég á ansi hreint skemmtilegt munstur sem ég bara varð að prófa. Ég ákvað að prjóna það tvílitt þótt ég hafi ekki hugsað mér að hafa peysuna tvílita. Þetta er flóknara munstur en hin sem ég prófaði en skemmtilegt engu að síður og ekki svo seinlegt að prjóna það eftir að maður er kominn upp á lagið með það.

Nú gef ég mér tíma til að vega og meta prufurnar sem bættust í safnið mitt áður en ég tek nokkra ákvörðum um hvernig peysan mín verður. En þegar hún lítur dagsins ljós mun ég örugglega sýna hana hér.