Friday, 16 November 2012

Skafrenningur

Í dag er dagur íslenskrar tungu og afmælisdagurJónasar Hallgrímssonar skálds og nýyrðasnillings. Á þessum degi hugleiða margir falleg orð sem til eru í tungumálinu okkar. Þess vegna valdi ég pistlinum heitið Skafrenningur, enda finnst mér það sérlega áhugavert orð þótt veðrið sem það lýsir sé mér ekki að skapi.

Þegar kominn er 16. nóvember er líka kominn sá tími árs sem vænta má leiðinda í veðurfari. Í dag er kalt, snjór er yfir öllu og sumarfötin duga alls ekki lengur. Í morgun langaði mig til að vefja um hálsinn á mér hlýjum prjónuðum kraga til að verjast næðingnum en átti ekki neinn. Já, við erum ekki alltaf tilbúin með vetrarfatnaðinn þegar fyrsta kuldakastið kemur. Því ákvað ég að koma í dag með uppskrift að kraga sem væri allt í senn, fallegur, fljótprjónaður og auðveldur. 

En kraginn er ekki bara sérlega fljótprjónaður, hann er líka góð æfing í að taka út til vinstri. Tvær leiðir eru algengastar við slíkar úrtökur og eru þær báðar útskýrðar hér að neðan. Þær gefa sömu, eða svipaða útkomu en misjafnt er hvað hverjum fellur í geð. Veldu bara þá leið sem þú vilt. Sjálf nota ég oftast aðferðina sem ég kýs að kalla ttp (sbr. ssk á ensku).

Úrtaka til vinstri
Tvær aðferðir eru algengastar þegar tekið er út til vinstri:
1.       Taktu eina lykkju óprjónaða af prjóninum, prjónaðu næstu lykkju og steyptu síðan óprjónuðu lykkjunni yfir hana.
2.       Taka, taka, prjóna  (ttp): - Taktu 2 lykkjur óprjónaðar af prjóninum (eina í einu) stingdu vinstri prjóninum í lykkjurnar og prjónaðu þær saman með því að fara aftan í þær.

Þetta myndband sýnir hvernig ttk (ssk) er gert:

http://www.youtube.com/watch?feature=player_embedded&v=fUoOybvJeKg

Kragi með úrtöku til vinstri

Fitjaðu upp á hringprjón nr 6, 74 lykkjur fyrir einfaldan kraga en 149 lykkjur fyrir tvöfaldan, þ.e. kraga sem á að vefja um hálsinn. Tengdu saman í hring. Ef þú vilt breyta lykkjufjölda miðaðu þá við að fitja upp margfeldi af 5 og bættu síðan 4 lykkjum við. Myndin er af munstrinu. Allar umferðir eru prjónaðar eins. Þú slærð bandi upp á prjóninn, prjónar tvær lykkjur saman til vinstri, prjónar síðan 3 lykkjur sléttar. Þetta endurtekur þú þar til þeirri hæð er náð sem þú vilt hafa á kraganum. Felldu þá af og gakktu frá endum.

Svo er líka hægt að prjóna kragann með halla til hægri. Þá er farið svona að:

Allar umferðir eru eins:  Prjónaðu 3 lykkjur sléttar, prjónaðu 2 lykkjur saman, sláðu bandi um prjóninn.

Friday, 26 October 2012

Áskorunin

Það er svo gaman að leika sér jafnvel þótt maður sé fullorðinn. Um daginn brá ég á leik á facebooksíðu Prjónakistunnar og bað fólk um að setja inn nafn á einum lit. Sjálf setti ég tölur á blað og stakk þeim í umslag. Ég var ákveðin að prjóna úr þeim litum sem væru að baki tölunum og finna út úr því í Prjónakistunni á miðvikudagskvöldi.

Á Prjónakistusíðunni var einnig kosning í gangi um hvað ég ætti að prjóna úr þeim litum sem upp kæmu. Ég gaf upp nokkra möguleika og þeir sem kusu merktu flestir við sjalið.

Á miðvikudagskvöldinu var heilmikill spenningur í gangi í Prjónakistunni, ekki síst hjá mér sjálfri. Ég vissi að það gat verið erfitt að prjóna úr sumum litasamsetningum þannig að vel færi. En ég leit þó á það sem skemmtilega áskorun. Litirnir sem voru svo að baki tölunum (við töldum einfaldleg kommentin þar til komið var að þeim tölum sem voru á blaðinu) voru grænt, rautt, bleikt og svart. 

Sá fyrsti var grænn og ég var búin að gefa það upp að sá sem væri að baki fyrstu tölunni yrði aðalliturinn. Allir sem þekkja mig vita að grænt er ekki minn litur þannig að ljóst er frá upphafi að ég get ekki notað sjalið sjálf. Ákveðin vonbrigði auðvitað, en ég á marga vini sem örugglega vilja þiggja sjal af mér.

Svo var mér vandi á höndum. Rautt og bleikt er nú ekki alltaf talið passa vel saman og grænt og bleikt getur orðið mjög ljótt í samsetningu. Ég varð því að vanda verulega vel litbrigðin sem ég myndi nota. Eftir að hafa horft í kringum mig um stund komst ég að því að kambgarnið væri líklegast til árangurs í litasamsetningunni.

Svo ákvað ég að prjóna nú einu sinni eitthvað annað en eigin hönnun. Það er jú svo svakalega gaman að prjóna án þess að þurfa að teikna, reikna, spá og spekúlera endalaust. Minnug þess að ég hefði séð flott sjal á netinu fyrir nokkru ákvað ég að finna það aftur og kaupa mér uppskriftina. Og það gekk eftir. Sjalið sem ég valdi heitir Leftie og ég fann það á ravelry.com. Þá var bara að hefjast handa.Í gærkvöldi (25. október) byrjaði ég svo á sjalinu. Og mikið var þetta skemmtilegt. Ég fitjaði upp örfáar lykkjur eins og stóð í uppskriftinni og ætlaði svona rétt að byrja, bara til að sjá hvernig litirnir kæmu út. Og svo byrjaði ég. Þetta leit nú frekar undarlega út í byrjun.


En það var svo spennandi að prjóna þetta að ég gat hreint ekki hætt fyrr en vel var farið að líða á kvöldið - og þá meina ég mjög vel því það voru allir komnir í fasta svefn þegar ég skreið loksins í bólið. Í morgun myndaði ég síðan dýrðina. Ég er sem sagt komin vel af stað en ekki nærri búin ennþá.
Saturday, 29 September 2012

Kaðlar, ekki minna en eins báðum megin!2+2 með sléttum lykkjum á milli.


Þær sem koma í Prjónakistuna taka flestar eftir fallegum kaðlatrefli sem oft er á gínunni við útidyrnar. Það er alltaf jafn gaman að fylgjast með þeim sem skoða hann nánar og taka eftir að hann er eins báðum megin. Flestar snúa honum fram og til baka til að fullvissa sig um að þær  séu að taka rétt eftir. Venjan er nefnilega sú að kaðlaprjón er ekki fallegt á röngunni þótt þessi trefill sé það. 
                 
  -                             - Hvernig er þetta eiginlega hægt? segja þær og stara undrandi á okkur og kaðlana til skiptis.
-                             -   Þetta er nú ótrúlega auðvelt, svara ég auðvitað að bragði og bæti svo við að það sé nú reyndar allt auðvelt sem maður kunni.

Ég hef haldið fjölmörg námskeið og leitt konur (ekki karla því þeir láta
ennþá ekki sjá sig á námskeiðum hjá mér) í allan sannleikann um það hvernig kaðlarnir eru prjónaðir. En nú er svo komið að ég hef ákveðið að hafa ekki fleiri námskeið í þessu kaðlaprjóni. Ekki er það þó svo að ég vilji ekki að fleiri læri þetta. Nei - síður en svo. Nú ætla ég bara að leiða alla þá sem vilja heyra (eða réttara sagt sjá á prenti a.m.k.) í sannleikann um það hvernig þessir dásamlegu kaðlar eru prjónaðir. 
2+2 til vinstri & 1+1 til hægri.
Hugsaðu þér eitthvert einfalt  prjón sem er eins báðum megin. Hvað sérðu? Sjálfsagt datt þér fyrst í hug stroff. Það er jú alltaf eins á framhlið og bakhlið. Galdurinn á bak við kaðlana er í rauninni jafn einfaldur. Þú prjónar kaðalinn sjálfan með sléttum og brugðnum lykkjum eins og stroff og svo getur þú haft perluprjón eða garðaprjón á endunum, allt eftir smekk og aðstæðum. 

Hverjar tvær lykkjur  sem þú prjónar, þ.e. ein slétt og ein brugðin mynda pör sem líta verður á sem eina heild.  Ef þú fitjar upp 8 lykkjur í kaðal og prjónar  eina slétta og eina brugðna til skiptist skaltu víxla 4 lykkjum (1 sétt, 1 brugðin, 1 slétt, 1 brugðin). Á þann hátt verður kaðallinn eins báðum megin.
Ýmsar snúningsleiðir eru færar.

Svo er líka hægt að gera nokkur önnur afbriðgi af köðlum sem eru fallegir báðum megin.  Kaðall með  einni sléttri og annari brugðinni lykkju verður frekar flatur. Ef þú prjónar aftur á móti tvær sléttar og tvær brugðnar verður kaðallinn upphleyptari. Enn önnur útkoma fæst síðan ef þú notar klukkuprjón eða hálfklukkuprjón í kaðalinn. En svo er bara um að gera að prófa sig áfram og finna út hvað manni finnst flottast hverju sinni.
Klukkuprjónskaðall til vinstri & 2+2 kaðall til hægri.Einfaldur trefill með tveimur köðlum og garðaprjónskanti

Kaðallinn í uppskriftinni er mjög svipaður þeim á myndinni.
1
Fitjaðu upp 28 lykkjur.

1. umferð: 4 sléttar lykkjur, [1 slétt, 1 brugðin] 4 sinnum, 4 sléttar lykkjur, [1 slétt, 1 brugðin] 4 sinnum, 4 sléttar.

2.-7. umferð: Eins og umferð 1.

8. umferð: Umferðin er prjónuð eins og allar hinar umferðirnar að undanskildu því að þú gerir kaðalsnúning í strofflykkjunum (sléttu og brugðnu). *Prjónaðu fyrstu 4 lykkjurnar sléttar. Taktu síðan næstu 4 lykkjur og settu á hjálparprjón og leggðu hann fram fyrir. Prjónaðu nú næstu 4 lykkjur sléttar og brugðnar eins og áður og síðan lykkjurnar 4 sem þú settir á hjálparprjóninn.* Endurtaktu frá * til * einu sinni.  Endaðu síðan á að prjóna síðustu 4 lykkjurnar sléttar.


Endurtaktu umferðir 1-8 þar til þeirri lengd er náð sem þú vilt hafa á treflinum. 
Sunday, 23 September 2012

Eistnesk uppfit

Þegar ég lærði að prjóna hélt ég að það fitjuðu allir upp á sama hátt og aðeins ein aðferð væri til. Það er auðvitað langt síðan þetta var og í þá daga var heimurinn frekar svarthvítur hjá mér, a.m.k. miðað við það sem nú er. Svolítið seinna komst ég að því að tvær aðferðir voru notaðar, húsgangsfitin sem ég lærði og gullfitin sem sumar konur sem ég þekkti notuðu. En hvað um það, núna mörgum árum seinna, veit ég að fitin eru fjölmörg og að ég kann aðeins lítið brot af þeim sem til eru (og kann ég þó ekkert sérlega fá).

Um daginn kynntist ég svo nýrri aðferð við að fitja upp. Aðferðin  er ættuð frá Eistlandi. Þar er á ferðinni sérlega áhugaverð fit þar sem hún er svo teygjanleg og svo er hún líka svo falleg. Og ekki skemmir fyrir að það er einstaklega einfalt að gera hana. Já, og svo smellpassar hún í sokkaprjónið hjá mér. En þessa dagana er ég auðvitað að prjóna sokka fyrir veturinn.

Í rauninni má segja að eistneska uppfitin sé blanda af tvenns konar uppfitjum, húsgangsfit og annarri sem er mjög svipuð henni.

Svona ferðu að þegar þú fitjar upp:

Búðu til lykkju á prjóninn og hafðu langan enda á prjóninum.  Smeigðu síðan bandinu milli vísifingurs og þumalfingurs.
Dragðu bandið út og þá sérðu að lykkja myndast við þumalfingurinn. Stingdu prjónaoddinum inn í hana neðan frá og sæktu bandið sem er  um vísifingur (venjulegt húsgangsfit/einfalt fit)
Þegar þú gerir næstu lykkju hefur þú bandið vafið á sama hátt um vísifingur en vefur því hina leiðina um þumalfingur (nú lætur þú það koma innan frá og út en ekki öfugt eins og áður). Prjónaðu síðan inn í lykkjuna (undir bandið sem er innan við þumalinn).
Taktu eftir að lykkjurnar mynda einhvers kona pör.
 Svo er bara að prófa sig áfram. Hver veit nema þetta verði uppáhaldsfitin þín þegar þú hefur tileinkað þér hana.

Tuesday, 24 July 2012

Á prjónunum

Það rignir úti þessa dagana. Ég sit inni og svei mér ef samviskubitið er ekki minna en þegar ég geri slíkt hið sama í sólskini. 

Síðustu daga hef ég verið að prjóna rósavettlinga, eða það stóð að minnsta kosti til að einbeita sér að þeim. Annar er kominn en það er svo margt sem truflar að ég kemst bara ekkert áfram. 


T.d. kom Ása Hildur frænka mín í heimsókn um daginn og færði mér tvær uppskriftir sem hún hafði hannað. Já, ég er sko ekki sú eina í ættinni sem hannar peysur og aðrar flíkur, hún hannar nefnilega líka. Og þegar maður er kominn með svona flottar uppskriftir er ekki laust við að mann langi til að prjóna þær. Og auðvitað sló ég til.

Ég brá mér í búð og keypti garn í peysu. Þar sem ekki fæst það garn á Selfossi sem gefið var upp í uppskriftinni, þ.e. Vital garnið sem hún notaði, þá ákvað ég að prjóna úr kambgarni sem örugglega er fínna garn. Fyrir valinu urðu þrír fallegir litir, turkis, dökk blár og ljós grár.

Og svo var bara að byrja að prjóna. Ég vissi svo sem að ef ég notaði nákvæmlega sömu prjónastærð og gefin var upp þá yrði peysan svolítið laust prjónuð.En ákvað samt að láta slag standa og notaði prjóna nr. 4 en ekki 3,5 eins og ég er þó vön þegar ég prjóna eitthvað annað en vettlinga eða sokka úr kambgarni. Það er svo nauðsynlegt að prófa allt mögulegt.


 Peysuprjónið gekk vel og útkoman var góð. Þetta er lipur og létt peysa sem án efa er mjög gott að vera í.

En þetta er ekki það eina sem kom í veg fyrir að mér tækist að prjóna rósavettlingana. Ég var líka að prjóna vettlinga og húfu í stíl við peysu sem ég hannaði fyrir nokkru og sýndi á síðu Prjónakistunnar um daginn. Mér finnst nefnilega svo sætt að hafa allt í stíl.

En nú hætti ég þessu rausi í bili og sný mér að vettlingaprjóninu.

Tuesday, 17 July 2012

Sumarsamprjón Prjónakistunnar

Í gær eftir að ég sendi út uppskriftina að Sumarsamprjóni Prjónakistunnar með áttablaða rósinni fitjaði ég upp á mínum vettlingunum því auðvitað ætla ég að njóta þess að vera með. 

Ég keypti mér tvo liti af Kambgarni sem mér fannst ögrandi að prjóna úr vegna þess að þeir eru svo langt frá því að vera það sem hefðbundið getur talist í slíkum vettlingum. Stundum er nefnilega svo skemmtilegt að gera eitthvað öðruvísi en maður er vanur. Þegar Jónína langamma prjónaði svona vettlinga í den voru þeir almennt, svartir, rauðir eða bláir ásamt hvíta litnum sem hún notaði alltaf (að ég held) og þannig sýnist mér að algengast sé að prjóna þá enn þann dag í dag.

Ég fitjaði upp með heklaðri fit sem ég rek síðan upp þegar kemur að því að prjóna stroffið. Mig langaði nefnileg að byrja strax á munstrinu og sjá hvernig það kemur út. Og viti menn ég er bara sátt.Tuesday, 10 July 2012

Muffins - prjónað


Mér finnst gaman að skoða uppskriftir. Stundum kíki ég á netið og sé hvað aðrir baka. En mér finnst líka gaman að baka og finnst kökur mjög góðar, allt of góðar reyndar enda er ég algjör nammigrís. En ég baka sjaldan - nema þá helst vandræði. Það er þó ekki endilega tímaskortur sem gerir það að verkum að ég baka ekki heldur frekar hitt að ég veit að kökur eru ekki sérlega hollar fyrir mig. Þær eru líka svo ansi fitandi, að minnsta kosti ef þær eru snæddar í því magni sem mig langar helst til. En þar sem kökur geta verið fallegar á borði ákvað ég að útbúa eina sem sem ég gæti borið á borð fyrir mig sjálfa í hvert skipti sem mig langaði í köku. Já, eina svona sem geymist vel því ég ætlaði ekki að borða hana heldur bara að horfa á hana og kallað fram bragðið án þess að fitna. Skynsamlegt, ekki satt?

Eins og ég sagði áðan hef ég oft skoðað alls konar muffins á netinu og margt af því er svo ofboðslega flott og örugglega eftir því gott. Innan um og saman við hef ég stundum séð prjónað muffins sem einnig lítur vel út. Ég gat ekki betur séð en það væri ekkert mál að útbúa svoleiðis kökur. Eitt kvöldið þegar ég hafði ekkert að gera ákvað ég að slá til og prufa prjónabakstur. Ég  greip bara það garn sem hendi var næst og því varð litavalið kannski ekki það flottasta hjá mér.

Athugaðu að uppskriftin er aðeins grunnuppskrift og það má vel útfæra hana og gera miklu flottari.

Muffins 
 
Garn og prjónar
Sokkaprjónar nr. 4
Léttlopi eða garn sem hæfir prjónastærðinni.

Skýringar á táknum
S = Slétt
2 Ss = 2 lykkjur prjónaðar sléttar saman

Kökuformið
Þú byrjar á að prjóna kökuformið. Veldu fallegan lit fyrir formið og fitjaðu upp 9 lykkjur. Prjónaðu garðaprjón 56 umferðir, þ.e. 28 garða og felldu svo af. Ekki slíta frá og hafðu lokalykkjuna kyrra á prjóninum

Botninn er prjónaðu á sokkaprjóna í hring.
Taktu upp 27 lykkjur á öðrum endanum til viðbótar við þessa einu sem er á prjóninum .  ( = 28 lykkjur í lok umf.)
1.umf:Slétt                                                                                                                                                                          2. umf: (4 S, 2 Ss) 4 sinnum, 4 S ( = 24 lykkjur)
3. umf: Slétt
4. umf: (2 S, 2 Ss) út umferðina ( = 18 lykkjur)
5. umf: Slétt
6. umf: (2 Ss) út umferðina ( = 9 lykkjur)
Dragðu bandið í gegnum lykkjurnar og hertu að. Saumaðu síðan hliðina á forminu saman, gakktu frá endanum og prjónaðu síðan kökuna í það.

Kaka
Byrjaðu  á kökulitnum (brún fyrir súkkulaðikökur en drapplitt fyrir ljósa köku).
Taktu upp 28 lykkjur næst við brúnina á kökuforminu að innanverðu. Það merkir að þú ert að taka upp lykkju nr. 2 en ekki þá sem er á brúninni (kantlykkjuna). Ef þú vilt getur þú líka tekið upp lykkjur efst á kantinum.
1.umf: Slétt út umferðina og auktu út með jöfnu millibili um 7 lykkjur. Mér finnst best að auka út með því að prjóna aftan og framan í lykkju. (= 35 lykkjur). Svo er gott að ganga frá endanum  um leið og umferðin er prjónuð svo þú sért laus við það seinna.
2.- 3.umf: Slétt

Skiptu um lit því hér endar kakan sjálf og kremið tekur við.
4.-5. umf: Slétt
6. umf: (8 S, 2 Ss) 3 sinnum, 5 S  ( = 32 lykkjur)     
7. umf. Slétt         
8. umf. 4 S, 2 Ss) 5 sinnum, 2 S  ( = 27 lykkjur)
9. umf: Slétt         
10. umf: (2 Ss) 13 sinnum, 1 S ( = 14 lykkjur) 
11. umf: (2 Ss) út umferð ( = 7 lykkjur)
Dragðu bandið í gegnum lykkjurnar. Fylltu muffinsið af vatti, hertu vel að og gakktu frá endunum.

Kokteilber á toppinn
Fitjaðu upp 6-7 lykkjur. Prjónaðu 14-16 umferðir garðaprjón (7-8 garða) allt eftir því hversu stórt þú vilt hafa berið. Þú getur líka prjónað aðra umferðina slétta og hina brugðna ef þú vilt hafa aðra áferð á berinu. Slíttu frá og dragðu garnið í gegnum lykkjurnar þegar þú hefur prjónað þessar umferðir. Þræddu síðan allan hringinn á jaðrinum og hertu að. Þá myndast kúla. Þú getur sett örlítið vatt inn í kúlun áður en þú herðir að og lokar gatinu.
Búðu til skrautsykur á kökuna með því að sauma fræhnúta eða bein strik á víð og dreif. Gakktu svo frá endum.

Þessi litla stelpa á myndinni eignaðist muffins og dundar sér við að baka það og bjóða dúkkunum sínum. Það er auðvitað frábær afmælisgjafahugmynd handa litlum stelpum að gefa þeim kökur í dúkkuleikina. Um leið er hægt að losa sig við garnafganga sem vilja hlaðast upp hjá þeim sem prjóna mikið.

Monday, 2 July 2012

Ætli þetta sé ættgengt?

Ég er komin af miklum prjónakonum sem áttu það sameiginlegt að prjóna ósköpin öll af vettlingum. Langamma mín prjónaði vettlinga út í eitt. Það voru dásamlega fallegir vettlingar með áttablaða rós. Hún prjónaði þá á stóra sem smáa, á unga jafnt sem aldna. Vettlingarnir hennar langömmu voru í tveimur litum, svartir og hvítir, rauðir og  hvítir eða bláir og hvítir. Flestir eru týndir og tröllum gefnir, útslitnir af ættingjum hennar og vinum, samtíðarfólki sem löngu er komið yfir móðuna miklu enda dó þessi langamma mín fyrir miðja síðustu öld.


Eitt vettlingapar leyndist þó hjá föðursystur minni. Einu sinni tók ég mig til og teiknaði upp munstrið eftir vettlingum af því. Svo prjónaði ég par og gaf dóttur minni í jólagjöf. Hún var að vonum afskaplega ánægð með gjöfina.En langamma er ekki eina vettlingaprjónakonan í ættinni. Guðbjörg amma mín prjónaði líka vettlinga. Hennar vettlingar voru kembdir og afskaplega hlýir og mjúkir. Hún prjónaði þá úr tvöföldum lopa, kembdi þá og þæfði svolítið. Svo seldi hún vettlingana í Eden og kannski víðar án þess að ég viti það, örugglega í þúsunda vís.

Það var ekki sjaldan sem við krakkarnir bönkuðu upp hjá henni bara til að biðja hana um vettinga. Og aldrei komum við að tómum kofananum. Á myndinni er par af litlum vettlingum sem hún prjónaði. Munstrið í þeim er eitt af þeim munstrum sem einkenndu velltina ömmu.
Sjálf hef ég gaman að vettlingum og hef stundum hugleitt það hvort þessi vettlingaáhugi sé ættgengur. Ég veit nefnilega að ég er ekki sú eina af afkomendum ömmu og langömmu sem hef einlægan áhuga á vettlingaprjóni því að minnsta kosti er hún föðursystir mín í þessum hópi.

Ég lærði að prjóna vettlinga hjá ömmu þegar ég bjó í kjallaranum hjá henni. Sem betur fer segi ég því um leið lærði ég eitt og annað um prjónatækni sokkaprjóna. Síðan þá hef ég alltaf prjónað vettlinga annað slagið. Þó ekki stöðugt eins og hún.

Um nokkurt skeið hef ég svo leitast við að móta mín eigið munstur. Einu sinni prufaði ég að gera vettlinga með munstri sem byggði á þumalmunstri vettlinganna hennar langömmu. Útkoman var ágæt.

 

Svo hef ég einnig gert vettlinga sem minna ennþá meira á vettlingana hennar langömmu. Þeir eru með áttablaða rós sem þó er alls ekki eins og sú sem langamma prjónaði. Þetta er mun einfaldari rós sem ég fann upphaflega í Sjónabókinni. Þessa vettlinga finnst mér ótrúlega gaman að prjóna og hef gert þá í mjög mörgum en reyndar líka misfallegum litaútgáfum. Stundum hef ég tunguþumal á þeim og stundum þennan einfalda. Hérna má sjá hluta af litunum:


Þá gerði ég einnig vettlinga með lógói Prjónakistunnar. Það munstur teiknaði ég eftir gömlum vettlingum sem ég  fékk hjá fullorðinni konu sem ég kynntist á facebook, og reyndar breytti ég því örlítið. Vettlingana hafði amma hennar prjónað og gefið pabba hennar.


Munstrið kallast eilífðarhnútur, ótrúlega fallegt munstur og karlmannlegt. Á þessari mynd er vettlingur sem ég gerði eftir vettlingunum hennar.  Liturinn á upprunalegu vettlingunum var svartur og hvítur en ég hafði mína bara í þeim litum sem ég átti í garnkörfunni minni.
Um daginn prjónaði ég reiðinnar bísn af lopavettlingum. Ég var orðin þreytt í herðunum eftir mikið peysuprjón og varð að vera með eitthvað létt á prjónunum um stund. Ég útbjó mér þrenns konar munstur á þrjá aldursflokka, eitt fyrir hvern. Einir passa á 5-7 ára, næstu á 8-10 ára og þeir þriðju á  miðlungs kvenhönd. Í þetta skiptið skrifaði ég uppskriftina niður en það geri ég alls ekki alltaf. Oftast spinn ég af fingrum fram þegar ég prjóna vettlinga. Myndir af þeim vettlingum birtust a facebooksíðu Prjónakistunnar um daginn. Þú getur skoðað vettlingana hér ef þú vilt en nú ætla ég að að hætta párinu að sinni enda búin að tuða nóg um vettlinga í bili.

Saturday, 30 June 2012

Prjónahugleiðingar á kosningadegi

Það er orðið nokkuð langt síðan ég prjónaði síðast flík sem ég hef ekki hannað sjálf. Ekki svo að skilja að mér finnist það leiðinlegt. Nei alls ekki, mér finnst það bara nokkuð gaman. Sérstakleg þó þegar ég skipti út litum. Það er nefnilega svo spennandi að sjá útkomuna þegar nýir litir raðast saman.

Síðasta sem ég prjónaði eftir annarra uppskrift var Arvetta sjalið úr garninu frá Garnbúð Gauju. Það var virkilega skemmtilegt og útkoman flott þar sem garnið er handlitað og marglitt. Svo er það svo dásamlega mjúkt. 


Núna er ég að prjóna peysu á frænku mína. Það byrjaði ekki vel. Ég prjónaði stroffið og fór nýjar leiðir með mustrið í því. Ég gat ekki hugsað mér að hafa venjulegt stroff á peysunni hennar og langaði ekki heldur að hafa stroff sem væri eins og á Farmers market peysunum. Ég valdi því nýja gerð af stroffi sem ég hef ekki notað áður og var sátt og reyndar bara ánægð með útkomuna. Stroffið mun líka koma flott út í háum kraga og framan á ermum sem þarf að bretta upp þar sem það er eins báðum megin.Svo þegar ég hélt áfram tók ég eftir að peysan var ansi víð. Svo víð að ég var næstum viss um að hún myndi ekki passa. Eitthvað hafði ég klikkað á málunum. Og hvað gera menn þá? Jú, þá var ekki um annað að ræða en setja allt á tvo hringprjóna og máta flíkina og athuga málin. Og auðvitað var peysan of stór, sjónminnið klikkar ekki!

Ég velti því fyrir mér að þrengja peysuna með því að setja lykkjur á band á henni að framanverðu og losa mig bara við þær í lokin. Peysan á jú að vera opin svo það var svo sem ekkert mál. En þá hefði stroffið auðvitað orðið að þrengjast líka. Ég hætti því við þetta allt saman og rakti upp. Vissi það sem var að ég yrði aldrei sátt með "skítareddingar" eins og einhver kallaði þetta einu sinni.

Í gærkvöldi byrjaði ég síðan á peysunni á nýjan leik. Ég sat með upprakta garnhrúguna við hlið mér ákveðin í að prjóna jafn langt og ég hafði verið komin. Vatt því garnið ekki upp heldur prjónaði bara úr hrúgunni. 


Það tókst að mestu en ég komst þó ekki lengra þar sem ég varð það spennt yfir myndinni sem ég var að horfa á í sjónvarpinu að ég lagði frá mér prjónana í miðri mynd og gleymdi prjónaskapnum um stund. Já, það getur sem sagt líka gerst að ég gleymi prjónunum um stund.

Í dag ætla ég að setjast út með prjónanan mína og halda áfram með peysuna. Enn sem komið er er hugmyndin bara í kollinum á mér og lítið að gerast í peysunni fyrr en kemur að ermum og munstri. Ég ætti því að hafa nægan tíma til að hugleiða  hvaða forsetaframbjóðandi fái atkvæðið mitt.

Friday, 15 June 2012

Að tengja saman lopaþræði

Þegar ég var lítil sat ég oft við eldhúsborðið hennar ömmu og hlustaði á hana og þá sem voru í heimsókn ræða um allt milli himins og jarðar. Margt af því sem þar var sagt man ég ennþá þótt annað hafi fallið í gleymskunnar dá. 

Einu sinni var vinkona hennar í heimsókn. Þær sátu með prjónana sína við borðið, töluðu, reyktu, drukku kaffi og prjónuðu, allt í senn. Svo kláraðist lopinn hjá vinkonunni og hún tók fram nýjan hnykil og batt endana saman með venjulegum hnút. Amma átti ekki orð. 
      - Hvað ertu eiginlega búin að prjóna lengi, sagði hún svo og var auðheyranlega ekki sátt við það sem hún sá. Svona fer engin prjónakona að, bætti hún við og var alvarleg á svipinn. Í fyrsta lagi á aldrei nokkurn tímann að hnýta lopa sama og í öðru lagi á aldrei að nota venjulegan hnút þegar prjónaband er sett saman því það kemur alltaf til með að sjást.

Skrítið að muna svona eftir alla þessa áratugi.

En hvernig á þá að fara að? Samkvæmt skoðunum ömmu minnar og sjálfsagt flestra reyndra prjónara er lopi tengdur saman með því að þæfa hann saman. Þegar prjónað er úr einföldum lopa eru endarnir einfaldlega lagðir saman, tungan sett í lófann til að væta hann örlítið og svo eru endarnir nuddaðir  saman þar til þeir eru vel fastir saman.Ef prjónað er úr tvöföldum lopa (tveimur þráðum af lopa) á að hafa endana mislanga svo þykktin komi ekki öll á einum stað. Gott er að hafa a.m.k.  5-10 cm mun á endunum. Svo eru tveir þræðir þæfðir saman í einu en ekki allir fjórir.


Svipað er farið að þegar léttlopi er setur saman, þá er lopinn klofinn í báðum endum og annar þráðurinn styttur. Þannig  sést ekki að lopinn hafi verið settur saman og þykktin verður passleg.


Þegar ég aftur á móti set saman garn er misjafnt hvernig ég fer að. Stundum klíf ég endana á nokkuð löngum kafla, nálægt 10 cm. Svo legg ég endana bara saman og held áfram að prjóna. Oft hætti ég líka bara að prjóna með öðrum endanum og byrja á þeim nýja og geng svo frá þeim þegar ég er búin með flíkina.

Fleiri aðferðir eru auðvitað til, s.s. að splæsa garnið saman með því að þræða annan endann inn í hinn en þær hef ég ekki tileinkað mér og ætla því ekki að reyna að útskýra þá aðferð eða aðrar ámóta hér.