Tuesday, 24 July 2012

Á prjónunum

Það rignir úti þessa dagana. Ég sit inni og svei mér ef samviskubitið er ekki minna en þegar ég geri slíkt hið sama í sólskini. 

Síðustu daga hef ég verið að prjóna rósavettlinga, eða það stóð að minnsta kosti til að einbeita sér að þeim. Annar er kominn en það er svo margt sem truflar að ég kemst bara ekkert áfram. 


T.d. kom Ása Hildur frænka mín í heimsókn um daginn og færði mér tvær uppskriftir sem hún hafði hannað. Já, ég er sko ekki sú eina í ættinni sem hannar peysur og aðrar flíkur, hún hannar nefnilega líka. Og þegar maður er kominn með svona flottar uppskriftir er ekki laust við að mann langi til að prjóna þær. Og auðvitað sló ég til.

Ég brá mér í búð og keypti garn í peysu. Þar sem ekki fæst það garn á Selfossi sem gefið var upp í uppskriftinni, þ.e. Vital garnið sem hún notaði, þá ákvað ég að prjóna úr kambgarni sem örugglega er fínna garn. Fyrir valinu urðu þrír fallegir litir, turkis, dökk blár og ljós grár.

Og svo var bara að byrja að prjóna. Ég vissi svo sem að ef ég notaði nákvæmlega sömu prjónastærð og gefin var upp þá yrði peysan svolítið laust prjónuð.En ákvað samt að láta slag standa og notaði prjóna nr. 4 en ekki 3,5 eins og ég er þó vön þegar ég prjóna eitthvað annað en vettlinga eða sokka úr kambgarni. Það er svo nauðsynlegt að prófa allt mögulegt.


 Peysuprjónið gekk vel og útkoman var góð. Þetta er lipur og létt peysa sem án efa er mjög gott að vera í.

En þetta er ekki það eina sem kom í veg fyrir að mér tækist að prjóna rósavettlingana. Ég var líka að prjóna vettlinga og húfu í stíl við peysu sem ég hannaði fyrir nokkru og sýndi á síðu Prjónakistunnar um daginn. Mér finnst nefnilega svo sætt að hafa allt í stíl.

En nú hætti ég þessu rausi í bili og sný mér að vettlingaprjóninu.

Tuesday, 17 July 2012

Sumarsamprjón Prjónakistunnar

Í gær eftir að ég sendi út uppskriftina að Sumarsamprjóni Prjónakistunnar með áttablaða rósinni fitjaði ég upp á mínum vettlingunum því auðvitað ætla ég að njóta þess að vera með. 

Ég keypti mér tvo liti af Kambgarni sem mér fannst ögrandi að prjóna úr vegna þess að þeir eru svo langt frá því að vera það sem hefðbundið getur talist í slíkum vettlingum. Stundum er nefnilega svo skemmtilegt að gera eitthvað öðruvísi en maður er vanur. Þegar Jónína langamma prjónaði svona vettlinga í den voru þeir almennt, svartir, rauðir eða bláir ásamt hvíta litnum sem hún notaði alltaf (að ég held) og þannig sýnist mér að algengast sé að prjóna þá enn þann dag í dag.

Ég fitjaði upp með heklaðri fit sem ég rek síðan upp þegar kemur að því að prjóna stroffið. Mig langaði nefnileg að byrja strax á munstrinu og sjá hvernig það kemur út. Og viti menn ég er bara sátt.Tuesday, 10 July 2012

Muffins - prjónað


Mér finnst gaman að skoða uppskriftir. Stundum kíki ég á netið og sé hvað aðrir baka. En mér finnst líka gaman að baka og finnst kökur mjög góðar, allt of góðar reyndar enda er ég algjör nammigrís. En ég baka sjaldan - nema þá helst vandræði. Það er þó ekki endilega tímaskortur sem gerir það að verkum að ég baka ekki heldur frekar hitt að ég veit að kökur eru ekki sérlega hollar fyrir mig. Þær eru líka svo ansi fitandi, að minnsta kosti ef þær eru snæddar í því magni sem mig langar helst til. En þar sem kökur geta verið fallegar á borði ákvað ég að útbúa eina sem sem ég gæti borið á borð fyrir mig sjálfa í hvert skipti sem mig langaði í köku. Já, eina svona sem geymist vel því ég ætlaði ekki að borða hana heldur bara að horfa á hana og kallað fram bragðið án þess að fitna. Skynsamlegt, ekki satt?

Eins og ég sagði áðan hef ég oft skoðað alls konar muffins á netinu og margt af því er svo ofboðslega flott og örugglega eftir því gott. Innan um og saman við hef ég stundum séð prjónað muffins sem einnig lítur vel út. Ég gat ekki betur séð en það væri ekkert mál að útbúa svoleiðis kökur. Eitt kvöldið þegar ég hafði ekkert að gera ákvað ég að slá til og prufa prjónabakstur. Ég  greip bara það garn sem hendi var næst og því varð litavalið kannski ekki það flottasta hjá mér.

Athugaðu að uppskriftin er aðeins grunnuppskrift og það má vel útfæra hana og gera miklu flottari.

Muffins 
 
Garn og prjónar
Sokkaprjónar nr. 4
Léttlopi eða garn sem hæfir prjónastærðinni.

Skýringar á táknum
S = Slétt
2 Ss = 2 lykkjur prjónaðar sléttar saman

Kökuformið
Þú byrjar á að prjóna kökuformið. Veldu fallegan lit fyrir formið og fitjaðu upp 9 lykkjur. Prjónaðu garðaprjón 56 umferðir, þ.e. 28 garða og felldu svo af. Ekki slíta frá og hafðu lokalykkjuna kyrra á prjóninum

Botninn er prjónaðu á sokkaprjóna í hring.
Taktu upp 27 lykkjur á öðrum endanum til viðbótar við þessa einu sem er á prjóninum .  ( = 28 lykkjur í lok umf.)
1.umf:Slétt                                                                                                                                                                          2. umf: (4 S, 2 Ss) 4 sinnum, 4 S ( = 24 lykkjur)
3. umf: Slétt
4. umf: (2 S, 2 Ss) út umferðina ( = 18 lykkjur)
5. umf: Slétt
6. umf: (2 Ss) út umferðina ( = 9 lykkjur)
Dragðu bandið í gegnum lykkjurnar og hertu að. Saumaðu síðan hliðina á forminu saman, gakktu frá endanum og prjónaðu síðan kökuna í það.

Kaka
Byrjaðu  á kökulitnum (brún fyrir súkkulaðikökur en drapplitt fyrir ljósa köku).
Taktu upp 28 lykkjur næst við brúnina á kökuforminu að innanverðu. Það merkir að þú ert að taka upp lykkju nr. 2 en ekki þá sem er á brúninni (kantlykkjuna). Ef þú vilt getur þú líka tekið upp lykkjur efst á kantinum.
1.umf: Slétt út umferðina og auktu út með jöfnu millibili um 7 lykkjur. Mér finnst best að auka út með því að prjóna aftan og framan í lykkju. (= 35 lykkjur). Svo er gott að ganga frá endanum  um leið og umferðin er prjónuð svo þú sért laus við það seinna.
2.- 3.umf: Slétt

Skiptu um lit því hér endar kakan sjálf og kremið tekur við.
4.-5. umf: Slétt
6. umf: (8 S, 2 Ss) 3 sinnum, 5 S  ( = 32 lykkjur)     
7. umf. Slétt         
8. umf. 4 S, 2 Ss) 5 sinnum, 2 S  ( = 27 lykkjur)
9. umf: Slétt         
10. umf: (2 Ss) 13 sinnum, 1 S ( = 14 lykkjur) 
11. umf: (2 Ss) út umferð ( = 7 lykkjur)
Dragðu bandið í gegnum lykkjurnar. Fylltu muffinsið af vatti, hertu vel að og gakktu frá endunum.

Kokteilber á toppinn
Fitjaðu upp 6-7 lykkjur. Prjónaðu 14-16 umferðir garðaprjón (7-8 garða) allt eftir því hversu stórt þú vilt hafa berið. Þú getur líka prjónað aðra umferðina slétta og hina brugðna ef þú vilt hafa aðra áferð á berinu. Slíttu frá og dragðu garnið í gegnum lykkjurnar þegar þú hefur prjónað þessar umferðir. Þræddu síðan allan hringinn á jaðrinum og hertu að. Þá myndast kúla. Þú getur sett örlítið vatt inn í kúlun áður en þú herðir að og lokar gatinu.
Búðu til skrautsykur á kökuna með því að sauma fræhnúta eða bein strik á víð og dreif. Gakktu svo frá endum.

Þessi litla stelpa á myndinni eignaðist muffins og dundar sér við að baka það og bjóða dúkkunum sínum. Það er auðvitað frábær afmælisgjafahugmynd handa litlum stelpum að gefa þeim kökur í dúkkuleikina. Um leið er hægt að losa sig við garnafganga sem vilja hlaðast upp hjá þeim sem prjóna mikið.

Monday, 2 July 2012

Ætli þetta sé ættgengt?

Ég er komin af miklum prjónakonum sem áttu það sameiginlegt að prjóna ósköpin öll af vettlingum. Langamma mín prjónaði vettlinga út í eitt. Það voru dásamlega fallegir vettlingar með áttablaða rós. Hún prjónaði þá á stóra sem smáa, á unga jafnt sem aldna. Vettlingarnir hennar langömmu voru í tveimur litum, svartir og hvítir, rauðir og  hvítir eða bláir og hvítir. Flestir eru týndir og tröllum gefnir, útslitnir af ættingjum hennar og vinum, samtíðarfólki sem löngu er komið yfir móðuna miklu enda dó þessi langamma mín fyrir miðja síðustu öld.


Eitt vettlingapar leyndist þó hjá föðursystur minni. Einu sinni tók ég mig til og teiknaði upp munstrið eftir vettlingum af því. Svo prjónaði ég par og gaf dóttur minni í jólagjöf. Hún var að vonum afskaplega ánægð með gjöfina.En langamma er ekki eina vettlingaprjónakonan í ættinni. Guðbjörg amma mín prjónaði líka vettlinga. Hennar vettlingar voru kembdir og afskaplega hlýir og mjúkir. Hún prjónaði þá úr tvöföldum lopa, kembdi þá og þæfði svolítið. Svo seldi hún vettlingana í Eden og kannski víðar án þess að ég viti það, örugglega í þúsunda vís.

Það var ekki sjaldan sem við krakkarnir bönkuðu upp hjá henni bara til að biðja hana um vettinga. Og aldrei komum við að tómum kofananum. Á myndinni er par af litlum vettlingum sem hún prjónaði. Munstrið í þeim er eitt af þeim munstrum sem einkenndu velltina ömmu.
Sjálf hef ég gaman að vettlingum og hef stundum hugleitt það hvort þessi vettlingaáhugi sé ættgengur. Ég veit nefnilega að ég er ekki sú eina af afkomendum ömmu og langömmu sem hef einlægan áhuga á vettlingaprjóni því að minnsta kosti er hún föðursystir mín í þessum hópi.

Ég lærði að prjóna vettlinga hjá ömmu þegar ég bjó í kjallaranum hjá henni. Sem betur fer segi ég því um leið lærði ég eitt og annað um prjónatækni sokkaprjóna. Síðan þá hef ég alltaf prjónað vettlinga annað slagið. Þó ekki stöðugt eins og hún.

Um nokkurt skeið hef ég svo leitast við að móta mín eigið munstur. Einu sinni prufaði ég að gera vettlinga með munstri sem byggði á þumalmunstri vettlinganna hennar langömmu. Útkoman var ágæt.

 

Svo hef ég einnig gert vettlinga sem minna ennþá meira á vettlingana hennar langömmu. Þeir eru með áttablaða rós sem þó er alls ekki eins og sú sem langamma prjónaði. Þetta er mun einfaldari rós sem ég fann upphaflega í Sjónabókinni. Þessa vettlinga finnst mér ótrúlega gaman að prjóna og hef gert þá í mjög mörgum en reyndar líka misfallegum litaútgáfum. Stundum hef ég tunguþumal á þeim og stundum þennan einfalda. Hérna má sjá hluta af litunum:


Þá gerði ég einnig vettlinga með lógói Prjónakistunnar. Það munstur teiknaði ég eftir gömlum vettlingum sem ég  fékk hjá fullorðinni konu sem ég kynntist á facebook, og reyndar breytti ég því örlítið. Vettlingana hafði amma hennar prjónað og gefið pabba hennar.


Munstrið kallast eilífðarhnútur, ótrúlega fallegt munstur og karlmannlegt. Á þessari mynd er vettlingur sem ég gerði eftir vettlingunum hennar.  Liturinn á upprunalegu vettlingunum var svartur og hvítur en ég hafði mína bara í þeim litum sem ég átti í garnkörfunni minni.
Um daginn prjónaði ég reiðinnar bísn af lopavettlingum. Ég var orðin þreytt í herðunum eftir mikið peysuprjón og varð að vera með eitthvað létt á prjónunum um stund. Ég útbjó mér þrenns konar munstur á þrjá aldursflokka, eitt fyrir hvern. Einir passa á 5-7 ára, næstu á 8-10 ára og þeir þriðju á  miðlungs kvenhönd. Í þetta skiptið skrifaði ég uppskriftina niður en það geri ég alls ekki alltaf. Oftast spinn ég af fingrum fram þegar ég prjóna vettlinga. Myndir af þeim vettlingum birtust a facebooksíðu Prjónakistunnar um daginn. Þú getur skoðað vettlingana hér ef þú vilt en nú ætla ég að að hætta párinu að sinni enda búin að tuða nóg um vettlinga í bili.