Saturday, 7 April 2012

Sólbakkavettlingarnir

Þegar ég var lítil fór ég oft til ömmu minnar. Hún átti heima við aðalgötu bæjarins (sem þá var reyndar bara lítið þorp) svo það var  gjarnan í leiðinni að fara þangað. Heima hjá ömmu var alltaf gaman og gott að koma. Þangað komu líka svo margir að í minningunni var staðurinn miðstöð ættingja og vina.

En tilgangur minn var ekki alltaf að hitta ættingja, sérstaklega ekki meðan ég var lítil. Ég var nefnilega eins og svo margir krakkar, sífellt að týna vettlingunum mínum. Og þá var gott að eiga ömmu sem var mikil prjónakona. Amma átti nefnilega alltaf vettlinga á lager enda prjónaði hún fyrir Eden í Hveragerði vettlinga sem seldust í hundruða ef ekki þúsunda vís.

Amma prjónaði vettlingana alltaf úr tvöföldum lopa, þæfði þá og kembdi. Þetta voru dásamlega mjúkir og fallegir vettlingar og sérlega hýir. Hún prjónaði þá venjulega úr tveimur litum og munstrin voru oft svipuð. Hún byggði þau á tölunni 4 og oftast mynduðu þau þríhyrnt form eins og sést á myndinni af grænu/hvítu vettlingunum sem amma prjónaði.

Vettlingarnir á myndinni hér til hægri eru prufa sem ég gerði einu sinni til að athuga hvort það væri hægt að kemba með dýrakambi. Þeir eru ekki alveg eins og vettlingarnir hennar ömmu því þessir eru prjónaðir úr einbandi og einföldum lopa og því koma þeir ekki eins vel út þegar þeir eru kembdir. En  munstrið er hins vegar það sama og amma notaði oft.


Þegar rýnt er í myndina sést að vettlingarnir til vinstri eru óþvegnir og ókembdir en vettlinginn hægra megin er búið að þvo kemba.

Ef þú vilt prufa að gera svona vettlinga er best að prjóna þá úr tvöföldum lopa á prjóna nr. 4,5. Svo þværðu þá og kembir á meðan þeir eru ennþá rakir. þú gerir það á þann  hátt að þú leggur vettlinginn  á borðbrún og kembir lítinn hluta í einu, alltaf í sömu átt. Byrjaðu að kemba fremst á vettlingnum og fikraðu þig síðan upp þar til þú kemur að stroffinu, þar skaltu hætta enda er ekki fallegt að kemba stroffið. Svo kembir þú þumalinn. Það er einnig hægt að kemba vettlingana að innanverðu til að þeir verði mýkri viðkomu og einnig hlýrri. En þú þarft að fara varlega og kemba þá þversum en ekki langsum eins og á réttunni.

5 comments:

 1. Takk takk fyrir fróðleikinn minnir mig á að ég ætlaði alltaf að prufa þetta. knús knús Ása Hildur

  ReplyDelete
 2. Hvernig lopa? Er hægt að nota kambgarn í þetta? krakkarnir mínir virðast ekki þola léttlopa :-/

  ReplyDelete
 3. Til þess að hægt sé að kemba þarf helst að nota plötulopa. Ekki er hægt að kemba kambgarn eða annað garn. Við kembinguna er í raun verið að draga lopaþræðina út úr flíkinni til að gefa henni loðna áferð. Spurning hvort ekki sé hægt að fá fallega áferð ef prjónað er úr kid-mohair, en þá þarf að bursta með mjúkum bursta á eftir en ekki kemba.

  ReplyDelete
 4. Takk fyrir frábært blogg :o) með hverju kembar þú vettlingana ...
  Hvað heitir það ?

  ReplyDelete
 5. Hafdís það er hægt að kemba vettlinga með hefðbundnum ullarkömbum en einnig má nota dýrakamba eins og ég tek fram í blogginu.

  ReplyDelete


Það er alltaf gaman að lesa athugasemdir ykkar við færslurnar mínar svo endilega skrifið smá skilaboð til mín.