Friday, 27 April 2012

Silfurfit, hekluð fit og húsgangsfit

Mörg orð hafa í gegnum tíðina verið notuð um uppfit. Algengustu orðin eru trúlega hundafit, silfurfit, skólafit, húsgangsfit og hekluð fit þótt mörg önnur orð (og þá oft staðbundin) hafi einnig verið til. Í dag, eftir að prjónaáhugi jókst til muna og prjónaheimurinn stækkaði með netinu, hafa ennþá fleiri orð bæst við eða heyrast að minnsta kosti oftar s.s. búðarfit, skrautfit og prjónuð fit.
Nú þegar svo algengt er að konur og einnig karlar prjóni er ekki úr vegi að rifja upp nokkur orð sem notuð eru um uppfit. Já og auðvitað er ekki úr vegi að tala um uppfitin sjálf þar sem það eru ekki allir sem kunna þau öll.

Orðið fit og uppfit eru annars eitt það fyrsta sem kemur í hugann þegar talað er um prjón, a.m.k. hjá mjög mörgum. Því orðið fit er notað um það að fitja upp og það er jú það fyrsta sem gera þarf þegar við prjónum. 

Einnig tala sumir um fit sem brugðna hlutann á sokkum og vettlingum. Annars var ég vön því að ömmur mínar og fleiri konur sem prjónuðu mikið þegar ég var lítil kölluð þann kafla brugðningu eða snúning. í dag tala líklega flestir um stroff þegar þessi hluti er nefndur.


Margs konar fit er til og misjafnt er hvað hver og ein manneskja notar. Sumir nota ýmsar gerðir, allt eftir því hvað verið er að prjóna hverju sinni en aðrir fitja alltaf upp á sama hátt. Algengasta fitin í dag er trúlega húsgangsfit þar sem það er almennt kennt í skólum. En það þykir þó ekki endilega alltaf vera besta teguning af uppfiti þar sem það er einfalt og ekki slitsterkt. Silfurfitin þykir henta betur þegar reynir á slit á köntum/jöðrum. Þá er einnig algengt að notuð sé hekluð fit . Sú gerð er sérstaklega hentug þegar taka á upp lykkjur seinna og prjóna t.d. blúndukant eða einfaldlega af því að ekki hefur verið ákveðið hver síddin á flíkinni á að vera og við viljum prjóna í hina áttina seinna.  

Ef þú kannt einhver skemmtileg prjónaorð eða veist um einhver orð (gömul eða ný) yfir prjón eða áhöld til prjóna sem gaman væri að skoða þá endilega skráðu orðið hér í komment.

No comments:

Post a Comment


Það er alltaf gaman að lesa athugasemdir ykkar við færslurnar mínar svo endilega skrifið smá skilaboð til mín.