Monday 16 April 2012

Brellustroff

Stundum þegar ég prjóna peysur kýs ég að hafa eitthvað annað neðan á þeim en hefðbundið stroff. Ég hef sett fléttur, perluprjónskant, gataprjónskant og margt annað. 

Brellustroff er munstur sem bæði er mjög skemmtilegt að prjóna og það setur einnig fallegan svip á peysur. Þetta munstur lítur svipað út og slétt og brugðið en þó er engin brugðin lykkja í munstrinu, í því er brellan fólgin. Munstrið er frekar þétt og dregst ekki saman á sama hátt og hefðbundna stroffið. Það er ekki mikil teygja í því en það fellur fallega á peysu sem ekki á að dragast saman að neðan. Munstrið hentar því á síðar kvenpeysur, á kanta framan á peysur sem á að vera hægt að bretta upp og í kraga.

Munstrið byggir á 3 lykkjum og 2 umferðum og er prjónað er fram og til baka.

Allar umferðir eru prjónaðar eins:
*Taktu 1 lykkju óprjónaða með bandið fyrir framan. Prjóninum er þá stungið í lykkjuna eins og þú ætlir að prjóna brugðið og bandið látið liggja fyrir framan. Prjónaðu næstu 2 lykkjur sléttar.* Endurtaktu frá * til * út umferðina.

Prjónaðu áfram og farðu eins að í öllum umferðum.


No comments:

Post a Comment


Það er alltaf gaman að lesa athugasemdir ykkar við færslurnar mínar svo endilega skrifið smá skilaboð til mín.