Í byrjun maí byrjaði ég aftur að prjóna. Nokkur vettlingapör hafa litið dagsins ljós en líka peysa og sokkar sem ég prjónaði á bróður minn. Í gegnum tíðina hef ég nokkrum sinnum prjónað á hann peysur enda skemmtilegt að prjóna handa þeim sem nota það sem maður gefur þeim. Og þegar þeir bera flíkurnar líka með stolti er það ennþá betra og þannig er það einmitt með hann.
Forsaga munstursins í peysunni er svolítið skemmtileg. Þegar búið var að ákveða að peysa skyldi prjónuð spurði ég hann hvernig munstur hann vildi. Eftir svolitla umhugsun dró hann fram vettling sem föðursystir okkar hafði prjónað og búið til munstur á. Litasamsetning vettlingsins var falleg og eitthvað við þetta annars hefðbundna munstur sem heillaði. Líklega var það hvernig doppurnar sem margir kalla lúsir kom út.

Svo langaði hann líka í sokka í stíl. Hann er nefnilega einn af þeim sem stendur með stöngina við ár og vötn og veiðir fisk í soðið. Við slíkar aðstæður getur verið ansi kalt þegar rok og rigning ræður ríkjum. Efsti hluti sokkanna er með sama munstri og peysan og prjónaður úr sama garni. En neðri hluti sokkanna er prjónaður með sokkagarni og kiðlingamóher. Valinn var dökkur litur þar sem sá ljósi fékkst ekki og svo er það líka praktískt þar sem dökkt er jú ekki eins skítsælt og ljóst.
Virkilega fallegt munstur. Er það til sölu?
ReplyDeleteFrábært sett og gaman að sjá hann stoltan í peysunni og sokkunum
ReplyDeleteFalleg, hvaða garn ertu að nota sé það ekki i færslunni?
ReplyDelete