Tuesday, 7 June 2016

Að prjóna "lopapeysu" úr öðru en lopa

Það er hægt að missa áhugann á áhugamálinu, að minnsta kosti tímabundið. Það henti mig að minnsta kosti núna í vetur. Mig hreinlega langaði ekki til að prjóna í nokkuð langan tíma. Allt frá áramótum og til aprílloka prjónaði ég nánast ekki eina einustu lykkju. Það er auðvitað ekki mjög líkt mér enda byrja ég vanalega flesta daga á að taka upp prjónana og prjóna smávegis. Það er nefnilega fyrir mér nauðsynleg kyrrðarstund að morgni áður en ég fer til vinnu. En eins og það styttir upp eftir rigningu þá tók þetta prjónleysistímabil mitt enda.

Í byrjun maí byrjaði ég aftur að prjóna. Nokkur vettlingapör hafa litið dagsins ljós en líka peysa og sokkar sem ég prjónaði á bróður minn. Í gegnum tíðina hef ég nokkrum sinnum prjónað á hann peysur enda skemmtilegt að prjóna handa þeim sem nota það sem maður gefur þeim. Og þegar þeir bera flíkurnar líka með stolti er það ennþá betra og þannig er það einmitt með hann.

Forsaga munstursins í peysunni er svolítið skemmtileg. Þegar búið var að ákveða að peysa skyldi prjónuð spurði ég hann hvernig munstur hann vildi. Eftir svolitla umhugsun dró hann fram vettling sem föðursystir okkar hafði prjónað og búið til munstur á. Litasamsetning vettlingsins var falleg og eitthvað við þetta annars hefðbundna munstur sem heillaði. Líklega var það hvernig doppurnar sem margir kalla lúsir kom út.

Eftir svolitlar vangaveltur teiknaði ég upp munstur og prufuprjónaði. Þar sem honum leist vel á útkomuna var hafist handa við að prjóna peysuna. Hún var prjónuð með sömu prjónfestu og léttlopi og lítur nánast út eins og lopapeysa. En í henni er þó ekki lopi heldur blanda tveggja garntegunda sem gefur allt aðra viðkomu. Þið ættuð bara að koma við hana, hún er svo mjúk að hvaða smábarn getur notað hana og líka þeir sem klæjar undan öllu. En hvað er ég að tuða um þetta, kambgarn og kiðlingamohair saman það er málið.

Svo langaði hann líka í sokka í stíl. Hann er nefnilega einn af þeim sem stendur með stöngina við ár og vötn og veiðir fisk í soðið. Við slíkar aðstæður getur verið ansi kalt þegar rok og rigning ræður ríkjum. Efsti hluti sokkanna er með sama munstri og peysan og prjónaður úr sama garni. En neðri hluti sokkanna er prjónaður með sokkagarni og kiðlingamóher. Valinn var dökkur litur þar sem sá ljósi fékkst ekki og svo er það líka praktískt þar sem dökkt er jú ekki eins skítsælt og ljóst.

3 comments:

  1. Virkilega fallegt munstur. Er það til sölu?

    ReplyDelete
  2. Frábært sett og gaman að sjá hann stoltan í peysunni og sokkunum

    ReplyDelete
  3. Falleg, hvaða garn ertu að nota sé það ekki i færslunni?

    ReplyDelete


Það er alltaf gaman að lesa athugasemdir ykkar við færslurnar mínar svo endilega skrifið smá skilaboð til mín.