Sunday 22 January 2017

Sumarljós

Í fyrra fór ég að vinna með blöndu af kambgarni og kiðlingmohair. Útkoman kom mér á óvart. Þarna var ég komin með garn sem var bæði í senn, einstaklega mjúkt og ákaflega hlýtt. Áferðin minnti svolítið á lopa en var samt á einhvern hátt miklu fínlegri.

Ég taldi að þetta skemmtilega garn myndi smellpassa í peysur fyrir lítil kríli enda viljum við gjarnan að þau fái þau bestu gæði sem völ er á. Ég settist því niður og útbjó uppskrift sem færi vel á litlum manneskjum. Fyrst prjónaði ég peysur sem voru hvítar í grunninn en höfðu litríkt munstur á berustykki. 



Þegar ég hafði lokið við þessar tvær ákvað ég að setja uppskriftina á blað og gefa fleira fólki kost á að nýta sér hana enda er oft skortur á uppskriftum fyrir litlar manneskjur. Ég breytti munstrinu svolítið því í fyrri peysunum hafði ég leyft mér að nota þrjá liti í munstri í tveimur umferðum eða svo en vissi að það væri eitthvað sem margir nenntu ekki. Útkoman var ekki afgerandi, heldur svona blæbrigðamunur.



Ég prófaði einnig að prjóna peysuna ur léttlopa þar sem svo mörgum líkar við hann og mjög ánægð með útkomuna. Litavali spannst af því sem fannst í afgangaskúffunni minni.





Uppskriftin var á endanum sett upp og fékk nafnið Sumarljós. Nafnið kom til þar sem fyrstu peysurnar fóru til lítilla kríla sem fæddust að sumri til. 

Þeir sem vilja eignast uppskriftina að þessum peysum geta sent mér póst á prjonauppskriftir@gmail.com. Uppskriftin kostar 700 krónur og er í tveimur stærðum sem ættu að passa á 9-12 mánaða og 18-24 mánaða.





2 comments:

  1. Alltaf svo fallegar uppskriftirnar hjá þér

    ReplyDelete
  2. Hæ, selurðu uppskrift af þessum fínu þæfðu sjómannavettlingum ?

    ReplyDelete


Það er alltaf gaman að lesa athugasemdir ykkar við færslurnar mínar svo endilega skrifið smá skilaboð til mín.