
Strax
og ég fékk einhverju um það ráðið hætti ég í handavinnu. Valdi að fara
bóknámsleiðina til þess eins að losna við þessa leiðinda handavinnu. Og
nú gat enginn pínt mig lengur til að vinna þessi ömurlegu handavinnu.
Nú
myndi sá sem ekki þekkir mig segja að þar með hljóti samleið mín og
handavinnunnar hafa verið að fullu lokið. En það var öðru nær. Ég var
varla hætt í skólahandavinnuni þegar ég tók mig til og rakti upp
peysurnar og annað sem ég hafði prjónað og heklað í skólanum. Og þá
hófst loks alvöru handavinnukafli hjá mér. Ég heklaði nefnilega forláta
ömmudúlluteppi úr öllum afgöngunum. Hrikalega flott teppi sem ég átti
lengi eða allt þar til ég lánaði óskilvísum frænda mínum það.
Hekltímabilið
hjá mér varð nokkuð langt. Ég hafði lært sem lítil stelpa að hekla hjá
henni Siggu á loftinu og sjálfsagt tók hún ekki eftir því að stelpa hélt
á heklunálinni á sinn hátt og alls ekki eins og handavinnukennarar
vildu. En það kom aldrei að sök. Eftir 16 ára aldurinn var ég kolfallin
fyrir hekli. Ég keypti mér nokkur sænsk heklblöð og skildi hvorki upp né
niður í þeim í fyrstu en með hjálp myndanna lærði ég að skilja táknin.
Ennþá finnst mér best að hekla uppá á sænsku. Í þessum blöðum voru
fjölmargir fallegir dúkar og þá heklaði ég í miklu magni í öllum
regnbogans litum. Sem betur fer heklaði ég einnig úr ólituðu garni því
þessir lituðu urðu heldur leiðigjarnir eftir því sem árin liðu og nú eru
þeir lituðu sem betur fer allir glataðir.
En
svo tók prjónatímabilið við hjá mér. Ég prjónaði mestmegnis úr lopa
vegna þess að ég hafði einfaldlega ekki efni á öðru. Reyndar slæddist
með ein og ein peysa úr einhverju ódýru garni. Norskt ullarband var í
miklu uppáhaldi en ég hafði bara sjaldnast efni á því. Akrílið varð því
gjarnan fyrir valinu. Það brakaði í því þegar ég prjónaði og ég fékk oft
gæsahúð því þetta hljóð fór í mig. Stundum þurfti að teygja akrílbandið
áður en maður prjónaði úr því til að það færi ekki fjandans til við
þvott. Þá voru hljóðin verst.
Sjálfsagt
hef ég alltaf hannað peysur því ég studdist mjög sjaldan við
uppskriftir. En í þá daga kölluðum við það ekki að hanna heldur að
prjóna út í loftið eða að prjóna upp úr sér. Margar skemmtilegar flíkur litu dagsins ljós á
þessum árum. Ég man t.d. eftir einni peysu sem ég gerði úr tvöföldum
lopa með munstri úr norsku ullarbandi. Hún var æði. Munstrið í henni var
bæði prjónað og einnig saumað í hana. En því miður finn ég hvergi mynd
af henni. Kannski er það bara ágætt. Stundum eru minningarnar nefnilega
flottari og betri en raunveruleikinn.

Peysan var prjónuð á litla ömmuskottu sem vildi fá peysu úr fallega bleika lopanum sem amma hafi tekið með sér í sveitina. Við ákváðum svo í sameiningu hvernig peysan ætti að vera eða að minnsta kosti svona í stórum dráttum. Svo byrjaði amma að prjóna. Eftir því sem peysunni miðaði áfram ákvað sú stutta að á henni ætti að vera álfahetta. Þetta lét amma auðvitað eftir henni. Hvað annað? Peysan er þægileg í alla staði enda hefur hún Birna mín notað hana mjög mikið. Myndirnar í þessu bloggi eru af ömmuskottunni minni peysunni sinni.
En allt um það. Nú hætti ég þessu rausi – í bili að minnsta kosti.
En ef þig langar að eignast uppskriftina að Skellibjöllu getur þú fengið hana keypta á 500 krónur. Hafðu samband við mig á prjonauppskriftir@gmail.com
Kveðja, Guðbjörg Dóra
Þessi peysa er frábær og gaman hjá þér að "prjóna upp úr þér" með barnabarninu. Þú ert örugglega búin að kveikja áhugann hjá henni :)
ReplyDelete