Það
er vægt til orða tekið að mér finnist gaman að prjóna. Fyrir mér er
prjónaskapur í rauninni bæði ástríða og árátta. Ég prjóna á hverjum
degi, byrja reyndar hvern dag á prjóni áður en ég fer í vinnuna, finnst
ég bara verða að grípa prjónana þegar ég sest niður með kaffibollann á
morgnana.

Um
daginn lauk ég við að prjóna annað eintakið af þeirri peysu sem ég hannaði
síðast. Ég prjónaði ermarnar á föstudaginn, bolinn á laugardaginn,
munstrið á sunnudaginn og svo heklaði ég kantinn og gekk frá endum
daginn þar á eftir. Á meðan ég prjónaði hannaði ég í huganum næstu flík.
Og nú er ég svooooo spennt að byrja á henni.
Þótt
þetta væri annað eintakið af nýju peysunni var það ekki vegna þess að
ég væri ekki sátt við það fyrra, síður en svo. Mig langaði bara svo í
peysu sem væri í stíl við kuldaskóna mína, þessa sem eru á myndinni.
Helst vildi ég peysu sem væri í sama lit og þeir en það gekk ekki þar
sem liturinn á skónum fer mér engan veginn. Ég ákvað því að byrja
peysuna á skólitnum og tóna hann niður í ljósari tón eftir því sem ofar
kæmi. Þannig yrði ég komin með alveg ljósan lit fyrir munstrið.
Í
mittinu er ég með stroff sem myndar tígulaga munstur (eða næstum því),
bæði í hliðum og á baki. Svo hafði ég munstur neðan á peysunni og á
ermunum sem er öðruvísi en það sem áður hefur sést hjá mér. Útkoman er
flík sem er vissulega svolítið öðruvísi en hefðbundin lopapeysa.
Fallega
konan á myndunum er samkennari minn. Þær eru svo huggulegar konurnar
sem kenna með mér og ég svo heppin að þær skuli vilja vera í
fyrirsætuhlutverki fyrir mig.
Ef þig langar að prjóna þessa peysu þá er hægt að fá þessa uppskrift keypta hjá mér. Hafðu bara samband við mig prjonauppskriftir@gmail.com
No comments:
Post a Comment
Það er alltaf gaman að lesa athugasemdir ykkar við færslurnar mínar svo endilega skrifið smá skilaboð til mín.