Saturday 5 May 2012

Gatasnar og takkakantur


Gatasnar er orð sem er notað um gatarönd í prjónuðu stykki. Gatasnar er gert á þann hátt að til skiptis eru prjónaðar saman tvær lykkjur og slegið bandi á prjóninn til að mynda nýja lykkju í stað þeirrar sem fer.

Gatasnar er hægt að nota á ýmsan hátt, t.d. til skrauts og til að gera takkakant eins og ég ætla að segja frá hér. Takkakantur getur verið mjög fallegur framan á ermum og neðan á peysum, sérstaklega á barnapeysum. 

Þegar takkakantur er gerður er byrjað á að prjóna nokkra sentimetra af sléttu prjóni, gjarnan á prjón sem er hálfu númeri minni en sá sem nota á í flíkina sjálfa. Þannig er komið í veg fyrir að kanturinn verði of víður. Sniðugt er að nota heklað uppfit eða uppfitið sem sést í myndbandinu í lok þessarara greinar til að fá lifandi lykkjur. Þegar kanturinn er kominn í þá lengd sem þykir hæfilegt fyrir innbrotið er gatasnar gert yfir umferðina og prjónuð ein umferð áður en skipt er um prjónastærð og farið í hálfu númeri stærra. 


Þegar búið er að prjóna jafnlangt báðum megin við gataröðina (gatasnar) eru lykkjurnar frá uppfitinu settar á sér prjón. Í umferðinni þar á eftir eru prjónaðar saman lykkjur úr fyrstu umferðinni og lykkjurnar sem eru á prjóninum, ein af hvorum stað. Með þessu móti gengur þú frá kantinum um leið og þú prjónar. 


Kanturinn er flottur frá réttunni og útkoman á röngunni er sérlega flott og ekkert þarf að sauma niður eins og þarf ef ekki er notað uppfit sem gefur lifandi lykkjur.

Á þessu skemmtilega myndbandi sem sjá má hér getur þú séð ennþá betur hvernig farið er að því að gera kantinn og um leið getur þú lært mjög skemmtilega og fljótlega aðferð til að búa til lifandi lykkjur.

1 comment:


Það er alltaf gaman að lesa athugasemdir ykkar við færslurnar mínar svo endilega skrifið smá skilaboð til mín.