Sunday 13 May 2012

Púði og teppi

Þær sem mikið prjóna kannast við vandamálið að sitja uppi með mikið af garnafgöngum sem erfitt getur verið að finna not fyrir. Auðvitað er hægt að nýta afgangana í munstur á peysum og til að prjóna skrautlega sokka, vettlinga eða húfur. Svo er líka hægt að prjóna úr þeim púða. 

Einu sinni prófaði ég að gera púða úr afgangslopa. Ég teiknaði upp munstur sem var fljótlegt að prjóna og ótrúlega einfalt. Til að gera það svolítið flottara setti ég gráa rönd í miðjuna á því og hafði svo ólíka liti sitt hvorum megin við miðjuna. 


Púði 35x35 cm

Efni og áhöld:
60 cm hringprjónn nr. 6
50 gr dökkrauð samkemba nr. 1427
50 gr svartur nr. 0059
25 gr ljósmóleitur nr. 1038
25 gr dökkgrár nr. 9103

Prjónafesta: 13 lykkjur = 10 cm.

Fitjaðu upp 90 lykkjur með tvöföldum svörtum Plötulopa á prjóna nr. 6. Tengdu í  hring og prjónaðu slétt prjón næstu 15 cm. Prjónaðu því næst mustrið. Þegar því lýkur prjónar þú með rauðu þar til lengdin á stykkinu er orðin 35 cm. Lykkjaðu saman framhlið og bakhlið í lokin þegar réttri lengd er náð.

Þegar þú ert búin að ganga frá endum skaltu þvo púðaverið, setja það í þeytivindu og leggja á stykki. Þegar það er orðið þurrt setur þú púðann inn í það og lykkjar saman opið. Passaðu að uppahafslykkjurnar að ofan og neðan standist á.

Sniðugt getur verið að útfæra uppskriftina og prjóna einnig teppi eftir henni til að leggja yfir sig þegar kúrt er fyrir framan sjónvarpið, já eða til að vefja um sig á köldu sumarkvöldi í útilegunni. Það er einfalt að gera teppið með því að fjölga lykkjunum í 180 og bæta við 2 lykkjum að auki fyrir kantinn. Þú ferð eins að og við púðann. Prjónaðu teppið í hring en hafðu fyrstu og síðustu lykkjuna brugðna til að auðvelda þér að taka það í sundur í lokin. Teppið verður með þessu móti 140 cm breitt. Prjónaðu einn eða fleiri munsturbekki í teppið og skiptu um liti eins oft og þú vilt. Láttu smekkinn og afgangana sem þú átt ráða ferðinni. Í lokin saumar þú í saumavél 2 beina sauma í brugðnu lykkjurnar og klippir á milli og þar með er komið teppi. Heklaðu síðan utan um teppið með fastapinnum, krabbahekli eða hverju öðru því hekli sem þú kýst. Einfaldara getur það varla verið.
 
Svo er bara spurning hvort þið hugmyndaríku konur sem lesið þetta blogg getið ekki fundið ennþá fleiri leiðir til að nota munstrið.

Þeir sem vilja kíkja á uppskriftirnar mínar sem ég er með til sölu geta skoðað þær á hér.

1 comment:

  1. Þetta líst mér vel á... ég á allt of mikið af afmöngum en ekki nóg af hugmyndaflugi :-)

    Kv. Jónína Dúad.

    ReplyDelete


Það er alltaf gaman að lesa athugasemdir ykkar við færslurnar mínar svo endilega skrifið smá skilaboð til mín.