Friday, 10 July 2015

19. aldar skotthúfa

Í Svarfaðardal hefur myndast sú hefð að margar stúlkur klæðast þjóðbúningum á fermingardaginn. Í athöfninni eru þær ekki í kyrtum eins og hinir sem ekki eru í búningum. Þegar ég svo fór og lærði að sauma búning datt mér í hug að gaman væri að sauma búning á dótturdóttur mína sem á að fermast næsta vor. Ég hef því eitt ár til stefnu sem ekki er mikið þar sem mikið er um handsaum og seinlega handavinnu við gerð svona búnings. En maður kallar nú ekki allt ömmu sína svo nú er bara að spýta í lófana og hefjast handa.

Fyrir valinu var 19. aldar upphlutur. Það þarf því að sauma upphlut, pils og svuntu. Auk þess þarf að prjóna húfu.

Fyrsti hlutinn hjá mér var að gera húfuna. Nú er birtan næg enda hásumar á Fróni. Ég keypti garn hjá Heimilisiðnaðarfélaginu, dásamlegt mjúkt og áferðarfallegt garn en auðvitað mjög fínt eins og gengur í svona húfu. Það sést vel þegar prjónn nr 3,5 er settur við hlið garnsins.
Ákafinn í mér var svo mikill að ég hreinlega gleymdi að athuga hvernig uppskriftin ætti að vera, taldi að mér dygði að vera með uppskrift að 20. aldar húfu og dýpka hana. Þetta sýnir nú fljótfærnina, auðvitað átti ég að vita að 19. aldar húfan hefur ekki sama lag og hin. Ég sneri mér því til þeirra dásamlegu kvenna sem stýra búðinni hjá Heimilisiðnaðarfélaginu og viti menn, með það sama var ég komin með uppskrift í hendur og alls kyns fínar upplýsingar - allt græjað í gegnum netið.

Svo var fitjað upp, 220 lykkjur takk í einni lítilli húfu. Ég ætlaði að gefa mér marga daga í verkið. Fyrsta daginn prjónaði ég beina hlutann. Hér var ég nánast farin að hafa áhyggjur því þetta virtist svo stórt á prjónunum, samt fylgdi ég uppskrift og er ekki þekkt fyrir að prjóna neitt laust. En ég ákvað að trúa því að þetta yrði í lagi og ef ekki myndi ég bara prjóna aðra. Ég hélt því áfram. Annan daginn fór að koma lag á húfuna enda úrtökukaflarnir farnir að móta húfuna.

 Það er hreinlega eins og maður geti ekki hætt þegar maður byrjar á svona skemmtilegu og ögrandi verkefni. Á þriðja degi kláraði ég því húfuna. Nú var ekkert eftir nema þvo hana, þæfa lítilega svo hún væri í alveg passlegri stærð og auðvitað að sauma niður faldinn.

Mér lærðist það fyrir löngu að kapp er best með forsjá, því ákvað ég að þræða niður faldinn áður en ég saumaði hann.Ég sá ekki eftir því að eyða nokkrum mínútum í þræðinguna enda var miklu fljótlegra að sauma kantinn niður en annars hefði verið og engin hætta á að neitt misteygðist eða yrði undið.

Og allt í einu var allt búið, húfan prjónuð, þvegin, þæfð og þurrkuð. Þá var bara að draga fram skúfinn fallega sem ég keypti um leið og garnið og silfurhólk sem ég keypti af gömlum gullsmið fyrir nokkrum árum. Nú er bara að pressa létt niður faldinn og setja herlegheitin saman. 

2 comments:

  1. Yndislega fallegt, hvaða garn notaðir þú?

    ReplyDelete
  2. Ég notaði ullarband sem ég keypti í Íslenskum heimilisiðnaði. En ég hef prjónað þær fleiri og nota nokkrar gerðir af garni, allt e.k. lace garn eða prjónavélagarn.

    ReplyDelete


Það er alltaf gaman að lesa athugasemdir ykkar við færslurnar mínar svo endilega skrifið smá skilaboð til mín.