Saturday 10 January 2015

Prufuprjón 9. janúar

Í gær var einn af þessum dögum sem ég flokka sem mína uppáhalds prjónadaga, eða ætti ég frekar að segja prjónakvöld því auðvitað vann ég fullan vinnudag og hugsaði síðan um heimilið, tók til eldaði mat og gekk frá áður en ég gat komið mér fyrir í prjónahorninu mínu. En ég kalla hann uppáhalds af því ég gaf mér tíma til að hugaleiða næsta verkefni. Hönnunarferli á flík finnst mér alltaf svo heillandi og það að velta hlutunum fyrir mér, prufa aðferðir og læra eitthvað nýtt og að skapa er einfaldlega svo svakalega skemmtilegt.

Nú stendur til að prjóna peysu á sjálfa mig en ég er alls ekki búin að gera það upp við mig hvernig hún á að vera. Þess vegna settist ég niður, fletti munsturbókum og leitaði að hugmyndum. Ég var reyndar með eitt á hreinu, ég vildi ekki alveg hefðbundna lopapeysu enda á ég þær ansi margar og get skipt um daglega alla vikuna án þess að láta sjá mig í þeirri sömu tvo dag í röð - já og reyndar meira til.



Fyrst byrjaði ég á að prjóna prufu með skuggprjóni sem mér finnst svolítið flott í einlita peysu þar sem lykkjurnar á réttunni eru ekki sléttar heldur brugðnar með svolitum skuggum sem myndast þegar munsrið er gert. Þetta er ákaflega heppilegt munstur þegar maður ætlar að prjóna fram og til baka. Prufan er prjónuð úr tvöföldum lopa á prjóna nr. 7. Mig langaði að sjá hversu stóra prjóna þetta munstur þyldi. 



Því næst prjónaði ég vöfllumunstur sem er mjög einfalt og fljótprjónað. Skemmtilegra er að prjóna það fram og til baka þar sem þá er bakhliðin að mestu prjónuð slétt. Ég hélt mig við grófu prjónana til að sjá samanburðinn á munstrunum í réttu ljósi.



Því næst prjónaði ég munsturprjón sem ég veit ekki neitt nafn á. Það var nokkuð spennandi prjón sem gæti hentað í þykkari peysur en einnig í kraga og ýmislegt fleira. Þetta munstur prjónaði ég eins og öll hin fram og til baka en allt eins má líklega prjóna það í hring.

Svo prjónaði ég garðaprjónsprufu með sama lopanum og áfram með prjóna nr 7. Það varð ansi bosmamikið og því augljóst að ég mun ekki nota svo grófa prjóna þegar ég að endingu prjóna peysuna, a.m.k. ekki ef ég hef eitthvað garðaprjón í henni.



Svo rakst ég á ansi hreint skemmtilegt munstur sem ég bara varð að prófa. Ég ákvað að prjóna það tvílitt þótt ég hafi ekki hugsað mér að hafa peysuna tvílita. Þetta er flóknara munstur en hin sem ég prófaði en skemmtilegt engu að síður og ekki svo seinlegt að prjóna það eftir að maður er kominn upp á lagið með það.

Nú gef ég mér tíma til að vega og meta prufurnar sem bættust í safnið mitt áður en ég tek nokkra ákvörðum um hvernig peysan mín verður. En þegar hún lítur dagsins ljós mun ég örugglega sýna hana hér.

No comments:

Post a Comment


Það er alltaf gaman að lesa athugasemdir ykkar við færslurnar mínar svo endilega skrifið smá skilaboð til mín.