Friday, 12 September 2014

HoluhraunsvettlingarnirÞá er vettlingatíminn alveg að skella á og ekki seinna vænna en skella sér í að prjóna nokkur pör svo allt sé nú tilbúið þegar á þarf að halda. Þessa dagana prjóna ég vettlinga með gosmunstri enda er ég eins og margir aðrir landsmenn með hugann við gosið í Holuhrauni og jarðhræringarnar þar um kring.

Efni: Sokkaprjónar nr 4,5 og 5.
Svartur, rauður og appelsínugulur plötulopi. Prjónað er úr tveimur þráðum af lopanum. Þar sem munstrið sýnir rautt á að prjóna úr einum rauðum þræði og einum appelsínugulum. 
Stærð: Ætti að passa á unglingskrakka eða smáa kvenhönd.

Prjónaðu eftir munstrinu frá vinstri til hægri á öðrum vettlingnum en hægri til vinstri á hinum.

Fitjaðu upp, mjög laust, 26 lykkjur á prjóna nr. 4,5 með svörtum tvöföldum plötulopa. Tengdu saman í hring og prjónaðu 16 umferðir stroff eftir munstrinu til að fá nýtt og svolítið öðruvísi stroff. Gættu þess þó að hafa böndin ekki of stíf.

 Athugaðu að þú getur líka prjóna rauðu doppurnar í stroffinu á þann  hátt að prjóna eina umferð með 1 svartri og 1 rauðri til skiptis og svo aðra umferð þar sem þú tekur svörtu lykkjuna óprjónaða af prjóninum og prjónar rauðu lykkjuna brugðna.
  
Þú getur líka haft hefðbundið stroff og prjónað 1 slétta og 1 brugðna til skiptis og jafnvel einfaldað munstrið með því að prjóna ekki munstur í fyrstu munsturumferðinni (umf. 22) Þegar stroffi lýkur skiptir þú yfir á prjóna nr. 5 og prjónar slétt prjón og eykur út um 4 lykkjur í fyrstu umferð.

Um leið og þú prjónar 26. umferð setur þú 5 lykkjur á band (sjá bláu röndna í munstrinu)  þar sem þumallinn á að koma.

Í umferð 46 er komið að því að prjóna saman lykkjur og móta fyrir fingrum. Hægra megin tekur þú tvær lykkjur óprjónaðar, eina í einu og prjónar þær síðan saman með því að prjóna aftan í lykkjurnar, sjá SSK á youtube. (Þú getur líka tekið eina lykkju óprjónaða, prjónað næstu lykkju og steypt síðan óprjónuðu lykkjunni yfir hana, úrtakan kemur svipað út.) Á vinstri hlið tekur þú út með því að prjóna saman tvær lykkjur. Eftir fyrstu tvær úrtökuumferðirnar er höfð ein umferð án úrtöku en annars er úrtaka í hverri umferð þar til 6 lykkjur eru á prjónunum. Þá slítur þú frá og dregur bandið í gegnum lykkjurnar.

Þumall: Taktu bandið úr og bættu við 1-2 lykkju í hvoru viki á milli umferða og fækkaðu í næstu umf (ef þörf krefur) og endaðu á að hafa 12 lykkjur á prjónunum. Prjónaðu 13 umferðir. Prjónaðu 2 saman og  síðan 1 slétta til skiptis út umferðina. Slíttu frá, dragðu bandið í gegn og hertu að.

Gakktu frá endum, þvoðu vettlingana og leggðu til þerris.


Langi þig að minnka vettlingana þannig að þeir passi á yngri krakka getur verið gott að minnka prjónastærðina um 0,5 og að sama skapi stækka hana til að stækka vettlingana.

En það má breyta stærðinni á fleiri vegu. Það er t.d. hægt að fækka svörtu umferðunum á undan munstrinu en þá þarf að muna að færa þumlaumferðina til að hlutföllin verði ekki kolröng. Svo má líka fækka svörtu umferðunum á eftir munstrinu. Og þriðja atriðið er að hægt er að sleppa umferðunum tveimur í úrtökukaflanum sem ekki er tekið úr.

Þeir sem vilja prjóna ennþá stærri vettlinga, þ.e. litla karlmannsvettlinga eða miðlungsstóra kvenvettlinga geta fitjað upp 30 lykkjur í stroff, aukið út 5 eftir stroff og bætt við einu munstri. Þá þarf líka að hafa 6 lykkjur á þumalbandi og 14 lykkjur í þumli. Einnig ætti þá að bæta við 1 umf af 
svörtu áður en munstur byrjar og 1-2 eftir að því lýkur. 

Allir mega nýta sér uppskriftina til að prjóna eftir henni en ég bið um að hún sé þó eingöngu notuð til  einkanota. 

   
2 comments:

  1. Takk kærlega fyrir uppskriftina.hlakka til að prjóna þetta munstur.

    ReplyDelete
  2. Skemmtilegt munsdur.Takk fyryr. :)

    ReplyDelete


Það er alltaf gaman að lesa athugasemdir ykkar við færslurnar mínar svo endilega skrifið smá skilaboð til mín.