Monday, 21 July 2014

Eldborg - peysa úr fjórföldum plötulopa
Einhvern tímann fyrir löngu síðan prjónaði útbjó ég uppskrift að kvenpeysu úr fjórföldum lopa. Ég hafði aldei áður prjónað úr svo grófum lopa og þess vegna fannst mér þetta skemmtileg áskorun. Uppskriftina gerði ég í fjórum stærðum S-XL. Peysan er afskaplega fljótprjónuð enda eru lykkjurnar á bolnum langt innan við 100 í öllum stærðunum.  Þeir sem vilja geta prjónað eftir þessari uppskrift.

Kvenpeysa í stærðum S (M) L (XL)

Yfirvídd: 94 (98) 101 (105) cm.

Peysan er prjónuð úr fjórföldum plötulopa. Varast ber að prjóna peysuna of litla. Peysa úr fjórföldum lopa ber sig best ef hún er rúm.

Prjónfesta í sléttu prjóni, 8 lykkjur = 10 cm.
Nauðsynlegt er að kanna prjónfestuna til að mál standist. Ef á 10 cm eru færri lykkjur minnkar þú prjónana en stækkar ef þær eru fleiri.

Efni:   7  (8) 9 (9) plötur rauður lopi nr. 1430
Sokkaprjónar og 80 cm hringprjónn númer 12

Kaðlaprjón:
·         1. umferð: Prjónaðu tvær sléttar lykkjur og eina brugðna til skiptis út umferðina.
·        2. umferð: Sléttu lykkjurnar mynda kaðlana en þær brugðnu skilja þá að. Þú byrjar á að prjóna innri sléttu lykkjuna með því að fara aftan í hana en tekur hana ekki af prjóninum. Prjónaðu síðan framan í fremri sléttu lykkjuna og dragðu svo báðar lykkjurnar sem þú varst að prjóna af prjóninum. Prjónaðu að lokum eina brugðna lykkju. Endurtaktu þetta út umferðina.
·         Umferðir 1 og 2 eru síðan endurteknar þar til réttri lengd er náð.

Bolur
Fitjaðu upp með fjórföldum lopa á hringprjón nr. 12,  75  (78)  81 (84) lykkjur. Tengdu saman í hring og prjónaðu kaðlaprjón þar til bolurinn er orðinn 16 cm. Prjónaðu að því loknu slétt prjón þar til bolurinn mælist 48 (50) 52 (54) cm. Ekki prjóna síðustu 3 lykkjurnar. Geymdu stykkið og prjónaðu ermarnar.
                                     
Ermar
Fitjaðu upp með fjórföldum lopa á sokkaprjóna nr. 12,  24  (27) 27 (27) lykkjur. Tengdu saman í hring og prjónaðu kaðlaprjón þar til lengdin á erminni er orðin 16 cm. Prjónaðu þá slétt prjón næstu 6 umferðir. Auktu þá út undir miðermi um tvær lykkjur, eina í byrjun umferðar og aðra í lok umferðar. Endurtaktu þetta 3 (3) 4 (4) sinnum með 6 umferða millibili. Nú eiga að vera á prjónunum 30 (33) 35 (35) lykkjur. Prjónaðu nú áfram þar til heildarlengd erminnar með stroffi er orðin 45 (46) 47 (48) cm. Ekki prjóna síðustu 3 lykkjur umferðarinnar.  Settu 6 lykkjur á hjálparband (lykkjurnar sem eru undir hendi). Prjónaðu hina ermina eins.

Axlastykki 
Sameinaðu bol og ermar. Prjónaðu fyrri ermina 24 (27) 29 (29) lykkjur, settu fyrstu 6 lykkjur bolsins á hjálparband og prjónaðu síðan bakhlið bolsins 31 (33) 34 (36) lykkjur, settu næstu 6 lykkjur bolsins á hjálparband, prjónaðu seinni ermina 24 (27) 29 (29) lykkjur og framhlið bolsins 32 (33) 35 (36) lykkjur. Þá eru á prjóninum 111 (120) 127 (130) lykkjur. Eftir að þú hefur sameinað bol og ermar skaltu prjóna eina umferð til viðbótar og setja prjónamerki á skilum erma og bols, alls fjögur merki. Fyrsta og síðasta lykkja á hvorri ermi eiga að vera miðjulykkjur laskanna. Lykkjurnar þrjár sem eru sitt hvorum megin við þessar miðjulykkjur eru lykkjurnar sem úrtakan er gerð á. Tekið er út í annarri hverri umferð og prjónuð ein slétt umferð á milli. Svona ferð þú að við úrtökurnar:

Laskaúrtaka
·    Hægra megin við miðjulykkjuna á laskanum: Þegar þrjár lykkjur eru eftir að merkinu tekur þú lykkjuna sem er við merkið og dregur yfir hinar tvær (lykkjan lengst til vinstri fer yfir þær tvær sem eru til hægri). Prjónaðu síðan lykkjurnar.

·    Vinstra megin við miðjulykkjuna á laskanum: Taktu fyrstu lykkjuna óprjónaða fram af, prjónaðu næstu tvær lykkjur og dragðu síðan óprjónuðu lykkjuna yfir hinar sem þú varst að prjóna.

Prjónaðu nú slétta umferð og úrtökuumferð til skiptis þar til  þú ert búin að gera úrtöku í 8 (9) 9 (10) umferðum.  Þá eiga að vera á prjóninum 47 (48) 55 (50) lykkjur.

Kragi
Nú prjónar þú kragann. Hann er prjónaður með kaðlaprjóni frá röngunni þar sem kraginn brettist út. Það gerir þú með því að snúa við og prjóna í hina áttina, þ.e. innan frá. Ef þú vilt getur þú líka snúið peysunni við áður en þú byrjar að prjóna kragann. Prjónaðu sams konar kaðla og eru neðan á peysunni. Í fyrstu umferð skaltu auka út um 1 lykkju í stærð S, um 3 lykkjur í stærð M en taka út 4 lykkjur í stærð L og auka við 1 lykkju í stærð XL. Þá eru á prjóninum  48 (51) 51 (51) lykkjur. Prjónaðu kaðlaprjóna næstu 20 cm. Felldu laust af.

Húfa   45 (49) 53 cm. Athugaðu þó að húfan teygist mjög vel.
Fitjaðu upp 36 (39) 42 lykkjur með fjórföldum plötulopa á prjóna nr. 12. Tengdu saman í hring. Prjónaðu kaðlaprjón þar til húfa mælist 21 (22) 23) cm. Endaðu á snúningsumferð (umf. 2 í kaðlaprjóninu). Prjónaðu þá eina umferð slétta og taktu út allar brugðnu lykkjurnar með því að prjóna saman aðra og þriðju hverja lykkju þ.e. slétta og  brugðna lykkju. Prjónaðu þá snúningsumferð. Í næstu umferð fækkar þú lykkjunum um helming með því að prjóna ávallt saman tvær lykkur út umferðina. Slíttu frá og dragðu bandið í gegn.

Ef þú vilt getur þú haft tvo garða framan á ermunum og neðan á peysunni. Það setur ákveðinn svip á peysuna.

2 comments:

 1. flott peysusett.
  alltaf gaman að fá póstana frá þér.
  kveðja
  Sirrý

  ReplyDelete
 2. eToro is the most recommended forex broker for beginning and advanced traders.

  ReplyDelete


Það er alltaf gaman að lesa athugasemdir ykkar við færslurnar mínar svo endilega skrifið smá skilaboð til mín.