Saturday, 30 June 2012

Prjónahugleiðingar á kosningadegi

Það er orðið nokkuð langt síðan ég prjónaði síðast flík sem ég hef ekki hannað sjálf. Ekki svo að skilja að mér finnist það leiðinlegt. Nei alls ekki, mér finnst það bara nokkuð gaman. Sérstakleg þó þegar ég skipti út litum. Það er nefnilega svo spennandi að sjá útkomuna þegar nýir litir raðast saman.

Síðasta sem ég prjónaði eftir annarra uppskrift var Arvetta sjalið úr garninu frá Garnbúð Gauju. Það var virkilega skemmtilegt og útkoman flott þar sem garnið er handlitað og marglitt. Svo er það svo dásamlega mjúkt. 


Núna er ég að prjóna peysu á frænku mína. Það byrjaði ekki vel. Ég prjónaði stroffið og fór nýjar leiðir með mustrið í því. Ég gat ekki hugsað mér að hafa venjulegt stroff á peysunni hennar og langaði ekki heldur að hafa stroff sem væri eins og á Farmers market peysunum. Ég valdi því nýja gerð af stroffi sem ég hef ekki notað áður og var sátt og reyndar bara ánægð með útkomuna. Stroffið mun líka koma flott út í háum kraga og framan á ermum sem þarf að bretta upp þar sem það er eins báðum megin.Svo þegar ég hélt áfram tók ég eftir að peysan var ansi víð. Svo víð að ég var næstum viss um að hún myndi ekki passa. Eitthvað hafði ég klikkað á málunum. Og hvað gera menn þá? Jú, þá var ekki um annað að ræða en setja allt á tvo hringprjóna og máta flíkina og athuga málin. Og auðvitað var peysan of stór, sjónminnið klikkar ekki!

Ég velti því fyrir mér að þrengja peysuna með því að setja lykkjur á band á henni að framanverðu og losa mig bara við þær í lokin. Peysan á jú að vera opin svo það var svo sem ekkert mál. En þá hefði stroffið auðvitað orðið að þrengjast líka. Ég hætti því við þetta allt saman og rakti upp. Vissi það sem var að ég yrði aldrei sátt með "skítareddingar" eins og einhver kallaði þetta einu sinni.

Í gærkvöldi byrjaði ég síðan á peysunni á nýjan leik. Ég sat með upprakta garnhrúguna við hlið mér ákveðin í að prjóna jafn langt og ég hafði verið komin. Vatt því garnið ekki upp heldur prjónaði bara úr hrúgunni. 


Það tókst að mestu en ég komst þó ekki lengra þar sem ég varð það spennt yfir myndinni sem ég var að horfa á í sjónvarpinu að ég lagði frá mér prjónana í miðri mynd og gleymdi prjónaskapnum um stund. Já, það getur sem sagt líka gerst að ég gleymi prjónunum um stund.

Í dag ætla ég að setjast út með prjónanan mína og halda áfram með peysuna. Enn sem komið er er hugmyndin bara í kollinum á mér og lítið að gerast í peysunni fyrr en kemur að ermum og munstri. Ég ætti því að hafa nægan tíma til að hugleiða  hvaða forsetaframbjóðandi fái atkvæðið mitt.

2 comments:

  1. Skemmtilegt já það borgar sig alltaf að rekja upp skítareddingar eru ekkert skemmtiegar. Gaman að lesa bloggin þin kæra frænka

    ReplyDelete
  2. Hmm er rosa forvitin hvernig stroff þetta er - er það enn leyndarmál?

    ReplyDelete


Það er alltaf gaman að lesa athugasemdir ykkar við færslurnar mínar svo endilega skrifið smá skilaboð til mín.