Monday, 2 July 2012

Ætli þetta sé ættgengt?

Ég er komin af miklum prjónakonum sem áttu það sameiginlegt að prjóna ósköpin öll af vettlingum. Langamma mín prjónaði vettlinga út í eitt. Það voru dásamlega fallegir vettlingar með áttablaða rós. Hún prjónaði þá á stóra sem smáa, á unga jafnt sem aldna. Vettlingarnir hennar langömmu voru í tveimur litum, svartir og hvítir, rauðir og  hvítir eða bláir og hvítir. Flestir eru týndir og tröllum gefnir, útslitnir af ættingjum hennar og vinum, samtíðarfólki sem löngu er komið yfir móðuna miklu enda dó þessi langamma mín fyrir miðja síðustu öld.


Eitt vettlingapar leyndist þó hjá föðursystur minni. Einu sinni tók ég mig til og teiknaði upp munstrið eftir vettlingum af því. Svo prjónaði ég par og gaf dóttur minni í jólagjöf. Hún var að vonum afskaplega ánægð með gjöfina.En langamma er ekki eina vettlingaprjónakonan í ættinni. Guðbjörg amma mín prjónaði líka vettlinga. Hennar vettlingar voru kembdir og afskaplega hlýir og mjúkir. Hún prjónaði þá úr tvöföldum lopa, kembdi þá og þæfði svolítið. Svo seldi hún vettlingana í Eden og kannski víðar án þess að ég viti það, örugglega í þúsunda vís.

Það var ekki sjaldan sem við krakkarnir bönkuðu upp hjá henni bara til að biðja hana um vettinga. Og aldrei komum við að tómum kofananum. Á myndinni er par af litlum vettlingum sem hún prjónaði. Munstrið í þeim er eitt af þeim munstrum sem einkenndu velltina ömmu.
Sjálf hef ég gaman að vettlingum og hef stundum hugleitt það hvort þessi vettlingaáhugi sé ættgengur. Ég veit nefnilega að ég er ekki sú eina af afkomendum ömmu og langömmu sem hef einlægan áhuga á vettlingaprjóni því að minnsta kosti er hún föðursystir mín í þessum hópi.

Ég lærði að prjóna vettlinga hjá ömmu þegar ég bjó í kjallaranum hjá henni. Sem betur fer segi ég því um leið lærði ég eitt og annað um prjónatækni sokkaprjóna. Síðan þá hef ég alltaf prjónað vettlinga annað slagið. Þó ekki stöðugt eins og hún.

Um nokkurt skeið hef ég svo leitast við að móta mín eigið munstur. Einu sinni prufaði ég að gera vettlinga með munstri sem byggði á þumalmunstri vettlinganna hennar langömmu. Útkoman var ágæt.

 

Svo hef ég einnig gert vettlinga sem minna ennþá meira á vettlingana hennar langömmu. Þeir eru með áttablaða rós sem þó er alls ekki eins og sú sem langamma prjónaði. Þetta er mun einfaldari rós sem ég fann upphaflega í Sjónabókinni. Þessa vettlinga finnst mér ótrúlega gaman að prjóna og hef gert þá í mjög mörgum en reyndar líka misfallegum litaútgáfum. Stundum hef ég tunguþumal á þeim og stundum þennan einfalda. Hérna má sjá hluta af litunum:


Þá gerði ég einnig vettlinga með lógói Prjónakistunnar. Það munstur teiknaði ég eftir gömlum vettlingum sem ég  fékk hjá fullorðinni konu sem ég kynntist á facebook, og reyndar breytti ég því örlítið. Vettlingana hafði amma hennar prjónað og gefið pabba hennar.


Munstrið kallast eilífðarhnútur, ótrúlega fallegt munstur og karlmannlegt. Á þessari mynd er vettlingur sem ég gerði eftir vettlingunum hennar.  Liturinn á upprunalegu vettlingunum var svartur og hvítur en ég hafði mína bara í þeim litum sem ég átti í garnkörfunni minni.
Um daginn prjónaði ég reiðinnar bísn af lopavettlingum. Ég var orðin þreytt í herðunum eftir mikið peysuprjón og varð að vera með eitthvað létt á prjónunum um stund. Ég útbjó mér þrenns konar munstur á þrjá aldursflokka, eitt fyrir hvern. Einir passa á 5-7 ára, næstu á 8-10 ára og þeir þriðju á  miðlungs kvenhönd. Í þetta skiptið skrifaði ég uppskriftina niður en það geri ég alls ekki alltaf. Oftast spinn ég af fingrum fram þegar ég prjóna vettlinga. Myndir af þeim vettlingum birtust a facebooksíðu Prjónakistunnar um daginn. Þú getur skoðað vettlingana hér ef þú vilt en nú ætla ég að að hætta párinu að sinni enda búin að tuða nóg um vettlinga í bili.

4 comments:

 1. Gaman að þessum hugleiðingum, amma mín, Helga Sigurrós Jónsdóttir f. 1897 prjónaði mikið af vettlingum, sokkum, langsjölum og peysum. Hún prjónaði mikið á okkur systkynin fjögur.

  ReplyDelete
 2. Alveg frábært. Hvaða garn notar þú í rósavettlingana
  og hvaða prjónastærð ?

  ReplyDelete
  Replies
  1. Ég notaði Lanett en margt annað garn kemur auðvitað til greina. Mestu máli skiptir líklega að maður sé ánægður með valið.
   Núna er ég að setja uppskriftina upp og ætla að gefa hana á næstu dögum inni á facebooksíðu Prjónakistunnar, svo endilega fylgstu með þar.

   Delete
 3. Dásamlegir þessir vettlingar allir hjá þér og áum þínum. Vildi að ég væri svona dugleg við vettlingaprjónið þeir enda oft lengi á to do listanum mínum td. þessi með logo Prjónakistunnar sem eimitt liggur hér á skrifborðinu mínu og er búin að bíða lengi. Kannski er það hitinn í sumar sem hefur tafið mig í vettlingaprjóninu. Takk fyrir bloggið frænkuskott

  ReplyDelete


Það er alltaf gaman að lesa athugasemdir ykkar við færslurnar mínar svo endilega skrifið smá skilaboð til mín.