Tuesday, 12 June 2012

Garnið frá ömmu

Börn eru svo dugleg, skemmtileg og skapandi. Þegar þeim er rétt eitthvert hráefni verður það oft á örskammri stundu að einhverju skemmilegu. Ef þú réttir börnum liti og blað færðu listaverk og ef þú réttir þeim garn finna þau alltaf einhverja leið til að skapa. 

Í síðustu viku fór ég norður í Svarfaðardal til að heimsækja fólkið mitt þar. Á Dalvík keypti ég garn handa tveimur af barnabörnunum, báðum stelpunum. Strákarnir kunna svo sem að prjóna en sýna prjónaskapnum ekki mikinn áhuga þessa dagana enda mjög uppteknir af öðru. Annarri stelpunni kenndi ég að prjóna fyrir tveimur árum en hin var ekki búin að læra listina. Ég hafði valið handa þeim falleg mislitt garn sem myndar einhvers konar munstur þegar prjónað er úr því. 


Svo þegar ég rétti þeirri yngri garnið og nýja prjóna sýndi hún gjöfinni engan sérstakan áhuga. Ég lét gott heita og ætlaði ekki að reka á eftir henni. Vissi sem var að þrýstingur gæti eyðilagt áform mín að gera hana að ungum prjónara. Betra væri að bíða og vona að hún bæri sig eftir því að fá að læra.Og ég þurfti ekki að bíða lengi. Strax sama dag, reyndar vel síðdegis, kom sú stutta til ömmu og sagði að sig langaði að læra að prjóna. Við settumst niður og fljótlega var hún farin að prjóna sér trefil. Krakkar eru svo undur fljótir að læra það sem þau hafa áhuga á. Henni fannst mikil kúnst að vefja bandinu um fingurinn og í rauninni meiri kúnst en prjónið sjálft. Ég lét hana nefnilega vefja því um baugfingur líka til að prjónið yrði ekki allt of laust.Sú eldri átti prjóna en sá í töskunni hennar ömmu heklunál. Slíkt tæki átti hún ekki en hafði örlítið fengist við að hekla í skólanum. Hún sýndi heklunálinni mikinn áhuga og varð afar glöð þegar amma gaf henni eina af sínum. 

Við ræddum svo um hvað hún vildi hekla og komumst að þeirri niðurstöðu að það ætti að vera eitthvað á hana sjálfa. Svo fitjaði amma upp á stúkum fyrir hana og tengdi saman. Að því loknu gat hún farið af stað í heklið. Hún var snögg að hekla og fannst það ákaflega skemmtilegt.
 

Og áður en kvöldið var liðið var fyrsta stúkan komin. Þótt aðeins væri komin ein var strax byrjað að nota hana og næsta dag var sú seinni hekluð. Ef einhver sem les þetta hefur áhuga á að hekla svona stúkur þá voru fitjaðar upp 20 lykkjur á þessum og tengt í hring. Síðan voru heklaðir fastapinnar og farið undir eitt band. Það var gert til að þær yrðu mýkri og þjálli því þegar farið er undir tvo þræði verður heklaða stykkið þéttara og harðara viðkomu. Þegar komið var að þeim stað þar sem úlnliður og lófi mætast var aukið út um 2 lykkjur með því að hekla tvisvar í eina lykkju tvisvar sinnum en ein lykkja höfð á milli. Og svo var haldið áfram að hekla að þumalgati. Þá var bætt við 2 loftlykkjum þar sem útaukningin kom og hoppað yfir 4 lykkjur til að mynda þumalgat. Síðan var heklað áfram þar til réttri lengd var náð. Svo þurfti að passa þegar seinni stúkan var hekluð að byrja þannig á garninu að báðar stúkurnar yrðu eins.

1 comment:


Það er alltaf gaman að lesa athugasemdir ykkar við færslurnar mínar svo endilega skrifið smá skilaboð til mín.