Tuesday, 4 March 2014

Blekkingarprjón í sinni einföldustu mynd

Eins og ég lofaði á facebooksíðu Prjónakistunnar ætla ég að kynna blekkingarprjón með því að leggja fram nokkur verkefni. Í þessu fyrsta verkefni prjónar þú einfalt stykki sem hjálpar þér til að skilja eðli blekkingarprjóns. Stykkið byrjar og endar á hefðbundu garðaprjóni en í miðjunni er flötur sem prjónaður er með einföldu blekkingarprjóni. Með því að bera sama þessa fleti þegar þú hefur lokið við að prjóna þá sérðu hversu mikill munur er á flötunum.


Í verkefnið notar þú tvo liti af garni. Í uppskriftinni er talað um ljósan og dökkan lit en þú getur valið hvað lit sem þú vilt. Reyndu bara að hafa þá vel aðgreinanlega. Veldu garn sem ekki er loðið eða misgróft. Í prjónles sem ekki á að ganga í getur akríl garn reynst vel.
 Prjónarnir sem þú notar til að prjóna stykkið ættu að vera ½ til 1 númeri minni en þú myndir vanalega prjóna sama garn með. Það er fallegra að prjóna þetta prjón þétt en laust.

Hver umferð á munsturmyndinni táknar einn garð. Þótt svo að einn garður séu tvær sléttar umferðir sem prjónaðar eru fram og til baka er aðeins ein umferð notuð til að sýna garðinn. Þetta er vegna þess að fyrri umferðin er alltaf prjónuð slétt en í seinni umferðinni er munstrið prjónað. 
Litaður flötur í munstrinu táknar að prjónað er slétt prjón (sem myndar garð á réttunni) en hvítur flötur er prjónaður brugðinn í þeim lit sem verið er að prjóna með.

Til að auðvelda þér að prjóna munstrið er gott að nota prjónamerki sem sett eru á prjónana með 10 lykkju millibili, þar sem rauða röndin er í munstrinu. Prjónamerki eru sérstaklega nauðsynleg þegar farið er að prjóna flóknari munstur.

Þú átt að prjóna eftir munsturteikningu. Hún er ekki flókin. Til að útskýra munstið svolítið fyrirfram má segja að fyrst séu tíu umferðir með hefðbundnu tvílitu garðaprjóni. Þá taki við tíu umferðir sem mynda einlita ferninga í miðjunni. Loks eru prjónaðar tíu umferðir með hefðbundnu garðaprjóni. 

Að loknu prjóninu má sjá nokkuð reglulegar rendur þegar horft er á stykkið frá hlið. Taktu eftir að í miðjunni virka dökku rendurnar með sléttu lykkjunum dekkri en garðurinn í miðjunni. Þegar þú snýrð prufunni og skiptir um sjónarhorn sérðu fimm fleti með þremur litum eða litaafbrigðum. Sléttir fletir hverfa og aðeins garðarnir sjást enda standa þeir uppúr stykkinu. 

Þeir sem vilja gera eitthvað meira með prufuna geta vissulega nýtt hana t.d. í pottalepp eða jafnvel púða með því að prjóna eða sauma kant á hana. Einnig væri hægt að prjóna fjórar svona prufur í mismunandi litum, sauma saman og nota sem púðaborð.


1. verkefni

1. garður: Fitjaðu upp 30 lykkjur með dekkri litnum. Snúðu við. Við það að fitja upp myndast fyrsti garðurinn svo ekki þarf að prjóna til baka.

2. garður: Prjónaðu með ljósari garðaprjón með ljósari litnum, slétt prjón er prjónað fram og til baka. 

3. garður- 10.garður: Allar þessar umferðir eru prjónaðar með garðaprjóni, 1 í hvorum lit samkvæmt teikningu.

11. garður: Prjónaðu með dekkri litnum: 1 slétt umferð. Snúðu við og prjónaðu 10 sléttar lykkjur, 10 brugðnar, 10 sléttar.

12. garður: Prjónaðu með ljósari litnum: 1 slétt umferð. Snúðu við og prjónaðu 10 brugðnar lykkjur, 10 sléttar, 10 brugðnar.

13. garður – 19 garður eru endurtekning á 11. og 12. garði sbr. mynd.

20. garður. Prjónaðu 1 slétta umferð. Snúðu við og felltu af.
Í prufunni eru dökkir fletir í munstrinu prjónaðir með grænu en þeir ljósu með bláu.
  
 12 comments:

 1. Kristín Margrét4 March 2014 at 12:01

  Þetta er spennandi, get ég prjónað þetta með plötulopa sem ég gæti síðan þæft ?

  ReplyDelete
  Replies
  1. Það er hægt að prjóna þetta úr hverju sem er en mér finnst flottast að prjóna ekki of laust. Þæfingin þéttir þetta auðvitað. Ef þú skellir þér í að prufa þetta væri gaman að fá að heyra hvernig útkoman verður.

   Delete
 2. Þetta er skemmtilegt...verður gaman að reyna við þetta.

  ReplyDelete
 3. Það væri gaman að sjá einhverja flík sem er prjónuð svona blekkingarprjón :)

  ReplyDelete
 4. Þetta er ansi sniðug prjón

  ReplyDelete
 5. Sniðugt, væri gaman að prufa þetta

  ReplyDelete
 6. Geri kannski tilraun;)

  ReplyDelete
 7. Gaman að þessu prjóni, er búin að gera tvær prufur, misfast prjónaðar.

  ReplyDelete


Það er alltaf gaman að lesa athugasemdir ykkar við færslurnar mínar svo endilega skrifið smá skilaboð til mín.