Thursday, 29 May 2014

Þæfðir vettlingar

Á liðnum jólum komst ég að því að mágur minn hefur sérstakt dálæti á þæfðum tvíþumla vettlingum. Ég skellti því í eitt par handa honum rétt eftir jólin. Um daginn frétti ég af honum í vettlingunum í grenjandi rigningu uppi á heiði. Sá sem hitti hann þar sagði að hann hefði hrósað þeim og verið virkilega ánægður með hvernig þeir reyndust. Þá fékk ég þá hugmynd að prjóna aðra og eiga tilbúna ef  hinir týndust. 

Því miður hafði ég ekkert skrifað niður þegar ég prjónað þessa ágætu vettlinga svo ég varð að rifja allt upp, lykkjufjöldann, umferðafjöldann, prjónastærðina og já og auðvitað þæfingaraðferðina sjálfa. Já þvílík leiðindi að ég hafði ekki haft fyrir því að skrifa neitt niður. Og hvað gera menn þá?

Jú, mikið rétt, þeir gera bara tilraun til að prjóna nýja. Ég fann mér til grænleitan lopa og vatt hann upp tvöfaldan. Svolítið átti ég líka af hærusvörtum og ákvað að nota það líka. Svo fitjaði ég bara upp svipað og ég er vön þegar ég nota prjóna nr. 4. En að þessu sinni notaði ég mun stærri prjóna en á hefðbundnum vettlingum og passaði mig þar að auki á að prjóna laust. Ég var ekki með stroff á vettlingunum nema í tveimur fyrstu umferðunum enda áttu þetta að verða einhvers konar lúffur. Umferðarfjöldinn hjá mér var síðan rúmlega það sem ég er vön að prjóna á hefðbundnum karlmannsvettlingum á prjóna nr. 4.


Þegar ég var búin að prjóna vettlingana litu þeir út fyrir að passa á risa. Heildarlengdin var 42 cm. Þeir sköguðu því hátt í ermi á kvenmannspeysu. En þæfinging var eftir og ég vissi að þeir myndu minnka einhver ósköp. Ég skellti þeim við hliðina á vettlingum í kvenstærð til að sjá muninn.


N'ú skellti ég vettlingunum í þæfingu í þvottavélina á þá stillingu sem ég hafði notað þegar ég þæfði síðast. Ég var reyndar ekki alveg með hitastigið á hreinu og ákvað að hafa það frekar lægra en hærra. Það mætti jú alltaf endurtaka þæfinguna. Eftir fyrst þvott höfðu vettlingarnir ekki skoppið saman nema um tæp 10%. Það var allt of lítið. 


Það var því ekki um annað að ræða en skella þeim aftur í vélina og nú hækkaði ég hitastigið. Eftir að þeir höfðu farið í gegnum aðra þæfingu voru þeir samt ennþá of stórið. Og nú var ég orðin leið á þessu. Ég skellti þeim því í þurrkarann og leyfði þeim að damla þar í upp undir 40 mínútur með smá hléum meðan ég skoðaði þæfinguna og bleytti þá svolítið.


Á endanum urðu þeir ágætir. Heildarlengdin komst í 29 cm og stærðin var orðin eins og ég vildi. Tvíþumla belgvettlingarnir voru loksins tilbúnir. Núna er ég líka búin að punkta hjá mér uppskriftina og hvernig ég ætla að fara að þegar ég prjóna og þæfi næstu vettlinga.3 comments:

  1. Þú ert mjög dugleg.Segi bara skemmtu þér vel með prjónanna þína.Það er gaman að fylgjast með.

    ReplyDelete
  2. Snillingur og örugglega dásamlegir vinnuvettlingar til fjalla

    ReplyDelete
  3. Hvaða prjónastærð notaðir þú?

    ReplyDelete


Það er alltaf gaman að lesa athugasemdir ykkar við færslurnar mínar svo endilega skrifið smá skilaboð til mín.