Friday 19 July 2013

Hvernig er hægt að verða góður prjónari?

Um daginn sat ég á milli verka og fór þá að hugleiða hvað það væri sem gerði fólk að góðum prjónurum. Ég fann út að það væri auðvitað fjölmargt sem spilaði þar inní. Samt voru sumir þættir mikilvægari en aðrir svona eins og gengur með flest. Ég skellti þessum þáttum á blað og taldi að það væru einkum fimm þættir sem skiptu mestu.



1.      Að prjóna það sem manni finnst gaman að prjóna og að njóta prjónaskaparin

Stundum er sagt að best sé að prjóna stykki með garðaprjóni þegar maður byrjar að prjóna í upphafi. Ekki veit ég hvort það er rétt leið til að verða góður prjónari. Í sannleika sagt held ég ekki. Að minnsta kosti má garðaprjónsprufan ekki vera svo stór að maður missi móðinn eða fari að leiðast of mikið.



Við þurfum auðvitað að læra grunnatriðin þegar við byrjum að prjóna og með garðaprjónsdulunni lærum við að fitja upp, prjóna slétt og fella af. En hin atriðin sem við þurfum að læra er að prjóna brugðið, auka út og svo auðvitað að gera úrötökur. Lítil prufa ætti að duga til að læra þetta. Sniðugasta fyrsta verkefni er kannski húfa þegar öllu er á botninn hvolft því þar koma þessi atriði oftast öll fyrir. Húfa er líka nógu lítil til að maður verði ekki allt of lengi með hana.  En a.m.k., þegar þessi grunnatriði er lærð er allt hægt, líka að prjóna tiltölulega flókin munstur. Það er nefnilega allt auðvelt sem maður kann.



2.      Gott er að prjóna svolítið á hverjum degi
Í prjónaskap eins og öllu öðru er það æfingin sem skapar meistarann. Flestir eru óöruggir þegar þeir byrja á einhverju nýju og prjónaskapurinn er engin undantekning á því. En ef maður prjónar svolítið á hverjum degi æfist maður fljótt. Það þarf ekki nema stutta stund á dag. Jafnvel það að prjóna bara eina umferð eykur á færnina. Það góða við prjóna er að þeir eru svo færanlegir og það fer svo lítið fyrir þeim að maður getur tekið þá með sér hvert sem er. Svo prjónar maður bara þegar tækifæri gefst, í vinnunni, á fundinum, á kaffistofunni, á biðstofunni eða bara hvar sem er. Og að prjóna yfir sjónvarpi er auðvitað bráðsniðugt. Flestir þurfa nefnilega alls ekki að horfa á sjónvarpið, þeim dugar að hlusta.

Hugasðu þér hvað við eyðum oft mörgum stundum lífsins í bið. Væri þeim biðtíma ekki betur varið með prjónana? Einhvers staðar las ég að það tæki fólk 10 þúsund klukkustundir að verða sérfræðingur í öllu mögulegu. Það er því hægt að verða sérfræðingur á einu ári ef maður gerir fátt annað, sem auðvitað er í fæstum tilvikum raunin. En hver stund telur. Korter hér og korter þar, stundum jafnvel klukkustund. Þetta kemur ótrúlega fljótt.

Sjálf byrja ég alla daga á stuttri prjónastund. Í fyrstu kom sú stund til vegna þess að ég var að keppast við að klára flík sem mér lá á. En síðan er þetta orðin mín gæðastund. Ég sest niður, spjalla við bóndann og prjóna stutta stund áður en ég klæði mig og held af stað í vinnu.


3.      Það er frábært að reyna eitthvað nýtt í hverri viku

Lífið er áskorun út af fyrir sig. Með því að prufa sífellt eitthvað nýtt aukum við færni okkar. Á tímum tækniframfara þarf ekki að fara á rándýr námskeið til að læra. Það dugar stundum að kaupa sér eina tækniprjónabók og stúdera hana vel. En það má líka fara á youtube og finna ógrynni myndbanda um allt mögulegt. Þegar myndbandið er fundið finnur maður til prjónana sína, setur myndbandið í gang og byrjar að prjóna. Svo er bara hægt að setja á pásu þegar þarf. Á þennan hátt hef ég lært ansi margt.

Mér finnst sniðugt að skrifa lista yfir allt sem maður vill læra og fikra sig svo eftir honum. Gott er að skrifa jafnóðum niður sniðugura slóðir sem maður finnur svo ekki þurfi að eyða tíma í leit að þeim þegar kemur að því að maður vilji prófa.

En umfram allt mundu að það sem þú prjófar ekki, lærir þú ekki. Það verður enginn sérfræðingur í að lesa sér bara til. Það gerist í rauninni ekkert fyrr en þú prufar.


4.      Garn ætti að nýta eins vel og hægt er
Þegar einu verkefni er lokið er yfirleitt eitthvað garn eftir. Ekki henda því eða pakka því niður. Sniðugt er að nýta það í prufur þegar þú ert að þróa einhverja nýja tækni. Og ekki vera hrædd við að prufa eitthvað nýtt. Flestir komast að því að það er ótrúlega auðvelt að bæta við prjónaþekkinguna.

Við getum svo oft fundið leiðir til að nota prufurnar. Þegar vafrað er um netið má oft sjá flottar borðtuskur og afþurrkunartuskur með fjölbreyttum munstrum. Margar af þessu „tuskum“ eru prufur sem fólk hefur gert þegar það vildi læra ný munstur. Svo er líka hægt að safna þeim og sauma þær seinna saman í teppi, sem þá væri einhvers konar minningarteppi um hvernig þú þróaðist sem prjónari. Sniðugt, ekki satt?

Nú, ef svo ólíklega vill til að það sem þú hefur gert, prufur eða annað er ekki að þínu skapi. Þá er stundum betra að rekja upp og nýta garnið í annað. Það kostar jú stundum æði mikið að kaupa garn og betra er að endurnýta það en að geyma eitthvað uppi í skáp sem maður vill ekki nota.



5.      Mættu í prjónakaffi 

Ef það er eitthvað sem fólk skilur ekki í prjónaskapnum þá er oftar en ekki einhver sem er tilbúinn til að leiðbeina. Á flestum stöðum landsins er að finna stað þar sem konur koma saman og prjóna í svokölluðu prjónakaffi.  Þar er trúlega alltaf hægt að sækja sér bæði aðstoð og fróleik. En einnig fáum við þar það sem er svo óskaplega mikilvæg, félagsskap. Maður er jú manns gaman og við erum flestar miklar félagsverur og líkar vel að vera í hópi með þeim sem deila með okkur áhugamáli.

Og svo er bara að muna það sem máltækið segir að enginn verður meistari í fyrst sinn og þess vegna gefumst við aldrei upp þótt verkefnið sé erfitt því æfingin skapar meistarann. Því fyrr sem maður byrjar að prjóna því fyrr verður maður prjónameistari.


4 comments:

  1. Laukrétt hjá þér mjög góð ábending
    Til hamingju með árangurinn,:)

    ReplyDelete
  2. Ragnheiður Guðnadóttir19 July 2013 at 17:04

    Góð uppörvun - það er alveg öruggt að maður lærir aldrei neitt ef maður prófar ekki!

    ReplyDelete
  3. Svei mér þá ef ég er ekki bara alveg sammála þér ... Eigðu góðan dag og njóttu prjónanna ;)

    ReplyDelete
  4. Ingileif Finnbogadóttir19 July 2013 at 19:31

    ég er bara svo sammála þér,ég nýt þess að prjóna,fátt betra til slökunar...

    ReplyDelete


Það er alltaf gaman að lesa athugasemdir ykkar við færslurnar mínar svo endilega skrifið smá skilaboð til mín.