Lengi vel kunni ég ekki að taka út nema á einn hátt þegar úrtakan átti að hallast til vinstri. Ég tók eina lykkju óprjónaða af prjóninum, prjónaði þá næstu og steypti síðan óprjónuðu lykkjunni yfir. En þetta gat verið nokkuð seinleg leið sérstaklega í miklu blúndu- eða gataprjóni þegar oft þurfti að gera úrtökur.
Það má segja að það hafi verið mikil uppgötvun fyrir mig þegar ég komst að því að það væri hægt að fara öðruvísi að og útkoman yrði eins. Núna tek ég tvær óprjónaðar lykkjur af prjóninum, eina í einu, og prjóna þær síðan saman með því að fara aftan í þær. Þessi aðferð er kölluð á ensku SSK (slip, slip, knit) en hefur ekki fengið nafn hérlendis svo ég viti.
Ef þú kannt ekki þessa aðferð mæli ég með að þú prufir hana á þessu einfalda og þægilega munstri. Munstrið byggir á 9 + 2 lykkjum og 10 umferðum. Það merkir að þú fitjar upp 9 lykkjur eða margfeldi af 9, þ.e. 18, 27, 36... og bætir svo 2 lykkjum við svo kanturinn verði eins báðum megin. Fyrstu umferðina gerir þú frá réttunni. Í prufunni á myndinni bætti ég einnig við garðaprjónskanti til að prufan rúllaðist ekki upp.
Gaman væri að þú kvittaðir að lestri loknum svo ég sjái að þú hafir kíkt á þetta. Til að geta það þarftu þó að velja í litla flipanum fyrir neðan kommentið og skrá þig. Og endilega deildu þessu líka á facebook fyrir mig.
þetta er einmitt það sem ég hef verið að gera en farið frekar leynt með þar sem "það á að gera" einhvernvegin öðruvísi. Ég semsé leitast við að einfalda hlutina (að mínu mati) til að gera þá fljótlegri til að fóðra óþolinmæði mína.
ReplyDeleteJá Harpa, það er einmitt það sem við reynum allar, að einfalda hlutina og gera þá auðveldari eða fljótlegri.
ReplyDeleteSpennandi að fylgjast með síðuni þinni. Ég nota alltaf þessa aðferðsem þú nefnir þega úrtaka hallar tilvinstri.
ReplyDeleteÉg læt ekki lykkjurnar á hægri prjón heldur fer fyrir aftan tvær lykkjurnar á vinstri prjón með hægri prjón. Mun fljótari. Reyndar er ég farin að taka óprjónaða lykkju og steypa síðan yfir, finnst að það komi fallegra út.
ReplyDelete