Friday, 6 April 2012

Þá er ég komin með eigið blogg

Hæ, ég heiti Guðbjörg Dóra og hef um langt skeið verið forfallin í prjónadellunni. Ég hanna og prjóna af hjartans list nánast alla daga ársins, fátt veitir mér meiri ánægju en prjónaskapurinn. En mér finnst líka gaman að deila áhugamálinu með öðrum. Því hef ég ákveðið að byrja að blogga og deila þannig prjónadellunni með þeim sem vilja lesa þessi skrif mín.
 
Ég ákvað að kalla bloggið Krunkið á Klakanum enda verð ég eins og hrafninn, safna (prjóna)glingri inn á síðuna og krunka svo eitthvað um herlegheitin. Klakinn er annað nafn á Íslandi, einhvers konar gælunafn. Undirtitillinn, Knit on Ice eða Prjónað á Klakanum er settur til gamans og er eins og hinn hluti titilsins bara skemmtilegur orðaleikur.

Í blogginu mínu muntu sem sagt finna uppskriftir og hugleiðingar um prjónaskap. Smám saman mun  verða hér safn uppskrifta og leiðbeininga um eitt og annað sem viðkemur prjónaskap.
 
Uppskriftin sem ég set hér inn í dag er af húfu sem ég gerði upphaflega fyrir Dagskrána á Selfossi. Margir hafa að undanförnu beðið mig um þessa uppskrift og þar sem hún er ekki ein af þeim sem komið hafa út hjá Prjónakistunni, þar sem flestar mínar uppskriftir hafa fengist þá ákvað ég að setja hana hér.

Húfa

Efni og upplýsingar
Mitu garn  50% ull og 50% alpaka

2 dökkbrúnar (SFN 35)
1 gulbrún (7255)
1 gul (6240)
Einnig má nota hvaða annað garn sem gefur sömu prjónfestu - um 100 metrar eru í 50 gramma dokku


Prjónafesta 22 lykkjur = 10 cm
40 cm hringprjónar nr. 3,5 og 4, sokkaprjónar nr. 4. Skiptu um prjónastærð ef þessir gefa ekki rétta prjónfestu.

Húfa
Fitjaðu upp 120 lykkjur á prjón nr. 3,5 með dökkbrúnu Mitu garni. Prjónaðu stroff, 2 lykkjur sléttar og 2 brugðnar til skiptis næstu 4 umferðir. Prjónaðu þá þrjár rendur í húfuna. Hver rönd er 2 umferðir af gulbrúnu og svo hefur þú 2 umferðir af brúnu á milli. Þegar rendurnar þrjár eru komnar prjónar þú með dökkbrúnu þar til stroffið mælist 8 cm. Prjónaðu þá eina umferð til viðbótar og auktu út um 12 lykkjur jafnt yfir umferðina.

Skiptu því næst yfir á prjón nr. 4 og prjónaðu hér eftir eingöngu slétt prjón. Byrjaðu á 2 dökkbrúnun umferðum. Prjónaðu því næst munstrið. Þegar því er lokið prjónar þú eingöngu með dökkbrúnu. Prjónaðu þar til  húfan mælist 21 cm frá uppfiti. Í síðustu umferðinni skaltu taka út 4 lykkjur jafnt yfir umferðina til að jafna lykkjufjölda fyrir úrtöku, þá verða á prjóninum 128 lykkjur.

Úrtaka
Úrtakan myndar stjörnu á kollinum og tekið er út í annarri hverri umferð. Prjónaðu 14 lykkjur og síðan næstu 2 lykkjur saman til skiptis út umferðina. Prjónaðu eina umferð án úrtöku. Í næstu umferð fækkar þú um eina lykkju á milli úrtaka og prjónar 13 lykkjur og síðan 2 saman til skiptis út umferðina og síðan aðra umferð án úrtöku. Haltu síðan úrt ökunni áfram á sama  hátt og fækkaðu sléttu lykkjunum á milli úrtaka um eina  í hverri munsturumferð. Notaðu sokkaprjóna þegar lykkurnar eru orðnar of fáar fyrir hringprjón. Þegar 16 lykkjur eru eftir skaltu prjóna 2 og 2 lykkjur saman út umferðina. Dragðu síðan bandið í gegnum lykkjurnar 8 sem eftir eru, hertu að og gakktu frá endum.

Munstur






4 comments:


Það er alltaf gaman að lesa athugasemdir ykkar við færslurnar mínar svo endilega skrifið smá skilaboð til mín.