Perla er fyrsta peysan mín sem birtist í prjónabók. Það er auðvitað mjög gaman að fá slíka uppskrift birta þegar maður er bara að byrja að hanna flíkur.
Perla var byggð á annarri peysu sem ég hafði gert og fannst koma mjög vel út. Sú peysa var kölluð Brák. Nafngift hennar kom frá ambátt Egils Skallgrímssonar. Mér fannst nefnilega að peysa sem búin væri til úr einföldum lopa væri svo ódýr að það væri bara á henni ambáttarverð.
Á peysunni Brák er keltneskt munstur í miðjunni sem vitnar til keltnesks upprunar ambáttarinnar. Og þá er grænn litur á henni sem minnti á Írland, landið sem Brák kom frá.
Þegar ég prjóna úr einföldum lopa er mjög misjafnt hvaða prjónfestu ég vel mér. Stundum vil ég prjóna þétt en stundum vil ég hafa allt laust í sér og létt. Þessar tvær peysur prjónaði ég á prjóna nr. 5 og fékk þá út 16 lykkur á 10 cm. Það er prjónfesta sem ég nota líka oft þegar ég prjóna úr Léttlopa. Mér finnst einfaldlega að peysurnar verði svo einstaklega mjúkar þegar ég prjóna þær svona.
Brák
Prjónfesta 16 lykkjur = 10 cm í sléttu prjóni
Áætluð garnþörf í peysuna
2 (3) 3 plötur svart - Litanr. 0059
1 (1) 1 plata ljósgræn samkemba - Litanr. 1423
1/2 (1/2) 1/2 plata ljósmóleitur - Litanr. 1038
Prjónar
60 cm hringprjónn nr. 4,5
40 og 60/80 cm hringprjónn nr. 5,0
40 og 60/80 cm hringprjónn nr. 5,0
Sokkaprjónar nr. 4,5
Yfirvídd
92 (95) 99 cm
Lengd á bol að handvegi
36 (38) 40 cm
Ermalengd
43 (44) 45 cm
Bolur
Fitjaðu upp með aðallit á hringprjón nr. 4,5, 148 (152) 156 lykkjur. Tengdu í hring og prjónaðu 6 umferðir af tvöföldu perluprjóni eins og sýnt er á myndinni. X táknar brugðna lykkju en tómur kassi slétta. Þegar þú hefur lokið við að prjóna stroffið skiptir þú yfir á prjónastærð 5. Settu prjónamerki í báðar hliðar og hafðu 74 (76) 78 L milli merkja. Prjónaðu slétt prjón með aðallit þar til bolurinn mælist 6 cm frá uppfiti. Þá tekur þú út eina lykkju báðum megin við bæði prjónamerkin. Við það fækkar lykkjum í umferð um 4. Endurtaktu úrtökuna þegar bolur mælist 11 (13) 15 cm og aftur er hann mælist 16 (18) 20 cm. Prjónaðu áfram þar til bolurinn mælist 21 (23) 25 cm. Þá skaltu auka út eina lykkju báðum megin við merkið. Auktu aftur út er bolurinn mælist 26 (28) 30 cm og enn aftur er hann mælist 31 (33) 35 cm. Nú eiga að vera á prjóninum jafnmargar lykkjur og í upphafi eða 148 (152) 156 . Prjónaðu áfram þar til bolurinn mælist 36 (38) 40 cm. Settu þá 10 (10) 11 lykkjur á hjálparband/nælu undir hendi (helming hvorum megin við prjónamerkin).
Ermar
Fitjaðu upp með aðallit á sokkaprjóna nr. 4,5, 30 (32) 34 lykkjur. Prjónaðu tvöfalt perluprjón eins og er á bolnum næstu 14 umferðir. Skiptu yfir á prjóna nr. 5 og prjónaðu slétt prjón. Auktu í fyrstu sléttu umferðinni út um 6 lykkjur jafnt yfir umferðina. Þá eru á prjónunum 36 (38) 40 lykkjur. Settu prjónamerki á miðju þ.e. milli síðustu og fyrstu lykkju umferðarinnar. Prjónaðu áfram þar til ermin mælist 8 cm. Auktu þá út um tvær lykkjur við prjónamerkið (eina hvorum megin við merkið). Prjónaðu áfram og auktu út um tvær lykkjur undir miðermi í 8. (8.) 7. hverri umferð þar til á prjóninum eru 54 (56) 60 lykkjur. Prjónaðu þá áfram þar til ermin mælist 43 (44) 45 cm. Settu þá 10 (10) 11 lykkjur á hjálparband/nælu (helming hvorum megin við merkið). Prjónaðu hina ermina eins.
Axlastykki
Sameinaðu bol og ermar í fyrstu umferð. Prjónaðu fyrri ermina 44 (46) 49 lykkjur. Prjónaðu því næst afturstykki bolsins 64 (66) 67 lykkjur og seinni ermina 44 (46) 49 lykkjur. Prjónaðu að síðustu framstykkið 64 (66) 67 lykkjur. Nú eiga að vera á prjóninum 216 (224) 232 lykkjur. Prjónaðu nú munstrið og taktu út eins og teikningin sýnir. Í fyrstu úrtökuumferð tekur þú út lykkjur með því að prjóna tvær lykkjur saman en í næstu úrtökuumferð með því að taka eina lykkju óprjónaða fram af, prjóna þá næstu og steyptu síðan óprjónuðu lykkjunni yfir hana. Þessar tvær úrtökuaðferðir notar þú til skiptis upp bolinn. (Ef þú vilt getur þú tekið út með því að prjóna alltaf tvær lykkju saman en þá þarftu að hnika þeim svolítið til þannig að úrtakan sé ekki alltaf yfir sömu lykkjunum svo ekki myndist skárönd). Í síðustu umferðinni tekur þú út 13 (14) 15 lykkjur jafnt yfir umferðina. Þá eru á prjóninum 68 (70) 72 lykkjur. Prjónaðu perluprjón eins og er neðan á peysunni 4 umferðir og felldu hæfilega laust af svo hálsmálið verði ekki of þröngt.
Frágangur
Gakktu frá lausum endum. Lykkjaðu saman undir höndum. Þvoðu peysuna og þurrkaðu á stykki.
Gaman væri að þú kvittaðir að lestri loknum svo ég sjái að þú hafir kíkt á þetta. Til að geta það þarftu þó að velja í litla flipanum fyrir neðan kommentið og skrá þig. Og endilega deildu þessu líka á facebook fyrir mig.
Gaman að fá að sjá blogg frá þér, ég er svo sem ekki mikið í prjóni en mér finnst gaman að sjá ný munstur verða til :)
ReplyDeletekær kv. Helga
Kvitt... á eftir að kíkja reglulega á krunkið þitt :)
ReplyDeleteFlott hjá þér og frábært að setja hana hér inn ég á örugglega eftir að prjóna þessa einhvern daginn.
ReplyDeleteknús knús Ása Hildur
Á eftir að kíkja reglulega hér inn.
ReplyDeleteKveðja
Á eftir að líta hér inn reglulega...er búin að bókamerkja síðuna ;o)
ReplyDeletekveðja, Kristjana
Takk fyrir þetta. Skemmtilegt og fróðlegt. Vel upp sett og skýrt.
ReplyDeleteFallegar peysur hjá þér. Flott stílhrein bloggsíða.
ReplyDeleteFallegar peysur. Vel útfærð uppskrift.
ReplyDeleteÞakka þér fyrir.
Kveðja Kristrún
falleg peysa, takk fyrir..
ReplyDeleteTakk fyrir uppskriftina, falleg peysa.
ReplyDeleteTakk fyrir uppskriftina
ReplyDeleteTakk fyrir uppskriftina.
ReplyDeleteFalleg peysa :D mun örugglega reyna við hana við tækifæri þar sem ég hef ekki prjónað úr einföldum lopa og kannski komin tími til.
ReplyDeleteSæl rakst á þessa fallegu peysu, Brák, í leit að prjónaverkefni í sumarfríinu. Nú segist þú hafa prjónað hana á prjóna nr. 5 en í uppskriftinni eru gefnir upp prjónar nr.. 5,5. Var bara að velta fyrir mér uppgefnum stærðum: hvort þær miðist við 5 eða 5,5 eða hvort ég verði bara að treysta á prjónfestuprufuna?
ReplyDeletetakk fyrir
Soffía
Soffía ég búin að laga þetta misræmi núna, þökk sé þér. En ég notaði prjónastærð 5 til að fá þessa prjónfestu sem er í peysunni.
ReplyDeleteTakk fyrir, kláraði peysu áðan þar sem ég notaði grunnuppskriftina en breytti munstri. Smellpassar
ReplyDelete