Eitt og annað af því sem var hluti af lífi Jónínu langömmu minnar er hluti af lífi mínu í dag. Þrennt er mér kærast, búningurinn hennar, prjónatínan sem myndir er af og rósavettlingarnir.
Jónína Jónsdóttir, langamma mín fæddist 21. september 1879. Hún bjó að Skúmsstöðum á Eyrarbakka. Henni var margt til lista lagt. Hún var mikil saumkona, afbragðs prjónakona auk alls annars sem lék í höndum hennar. Hún dó áttræð að aldri, aðeins tveimur árum eftir að ég fæddist. Ég á því ekki lifandi minningar um hana en hlutir sem voru í hennar lífi eru nú orðnir hluti af mínu.
Já hún langamma var mikil prjónakona. Hún prjónaði margt fallegt en þeir sem muna eftir handavinnunni hennar muna líklega best eftir öllum vettlingunum sem hún prjónaði úr mjög fínu bandi. Þessi þrjú pör sem myndin er af eru allir prjónaðir af henni. Handbragðið er afbragð enda eru vettlingarnir vandaðir í alla staði, bæði á réttu sem og röngu.
En þetta eru ekki einu vettlingarnir sem ég hef haft í fórum mínum frá henni. Fyrstu vettlingarnir sem ég handlék frá henni voru mjög slitnir af notkun enda búið að nota þá ansi lengi. Ég gat þó teiknað upp munstrið á þeim og af og til hef ég prjónað slíka vettlinga. Á myndinni er eitt slíkt par og við hliðina á þeim eru sauðskinnsskór. Skórnir eru ekki frá henni heldur saumaði ég þá á námskeiði hjá Heimilisiðnaðarfélaginu í fyrra. En að öllum líkindum hefur langamma gengið í svona skóm enda var íslenskur búningur daglegur klæðnaður hennar.
Enn eitt sem tengir langömmu við mig er forláta sporöskjulagaður tréstokkur, svokölluð prjónatína, sem ég held mikið uppá vegna þess að þetta var stokkurinn sem hún notaði undir handavinnuna sína. Oft þegar ég handleik þennan falleg grip hugsa ég til hennar og íhuga hvað hún hafi hugsað við sömu skilyrði. Skyldi hún hafa hugsað líkt og ég?
Mikið vildi hefði verið gaman að kynnast þessari merkilegu konu á annan hátt en með því að skoða handvinnuna hennar, upphlutinn sem hún saumaði og alla fallegu vettlingana. Ég er viss um að við hefðum getað setið og spjallað um saumaskap, prjónaskap og velt fyrir okkur lífinu og tilverunni á heimspekilegan og uppbyggjandi hátt. Ég er þakklát í dag fyrir að hafa erft handlagni hennar og handavinnuáhuga.
Takk fyrir skemmtilega færslu, falleg orð um ömmu þína. Vettlingarnir hennar eru ótrúlega fallegir.
ReplyDeleteKveðja, Þorbjörg (laumulesari).
Þær voru flinkar að prjóna í "þá" daga. sérstaklega úr hárfínu bandi.
ReplyDeleteÉg á alveg eins prjónastokk eins og þú kallar, í minni heimabyggð heitir þetta TÍNA. Takk fyrir að deila fallegri minningu um langömmu þína.
Tína, prjónatína, stokkur eða prjónastokkur; allt eru þetta víst gild nöfn. En gaman að heyra að þú eigir einnig tínu eins og ég.
DeleteGaman að sjá svona gamalt handverk.
ReplyDeletePrjónastokkana (boxin með íbrenndu myndunum) gerði Gunnar Rúnar Ólafsson, ljósmyndari.
ReplyDeleteTakk fyrir upplýsingarnar. Ég velti einmitt fyrir mér hver hafi gert þennan fallega stokk.
DeleteFróðleg og skemmtileg lesning og fallegir eru vettlingarnir ,bæði þeir sem eru prjónaðir af þér og ömmu þinni .Eins sauðskinnsskórnir og prjónatínan. Þakka þér fyrir.
ReplyDeleteTakk fyrir skemmtilegan pistil.
ReplyDeleteSérstök tilviljun sem ég rakst á við lesturinn. Amma mín hét líka Jónína Jónsdóttir, fædd 2. 8. 1880, og dó tveimur árum eftir að ég fæddist, og á ég ekki heldur lifandi minningu um hana.
ReplyDeleteGaman að lesa þessa fæslu og sjá myndir af þessum fallegu útprjónuðu vettlingum og leppum - takk fyrir mig
ReplyDeleteGaman að lesa þessa færslu, fallegir leppar og vetlingar
ReplyDeleteMikið eru þetta fallegir leppar og vettlingar sem hún langamma þín hefur prjónað.
ReplyDeleteVettlingarnir sem eru þrír saman á myndinni prjónaði langamma en leppana og vettlingana sem eru hjá sauðskinnsskónum prjónaði ég. Lepparnir eru mín samsetning en munstrið sótti ég í Sjónabókina
DeleteFalleg skrif um ÖMMU þína...formæður okkar voru flestar listakonur á svo mörgum sviðum og mér finnst órtúlegt hvað þær áorkuðu í sínum aðstæðum, sem voru oft mjög kröpp kjör.En listamaðurinn var til staðar og þá varð bara að skapa...
ReplyDeleteGaman að lesa þetta um ömmu þína, vettlingarnir eru yndislega fallegir og vel gerðir.
ReplyDeleteÞað var ótrúlegt hvað þær gátu gert við þær aðstæður sem margar bjuggu við.
Takk fyrir að deila þessari fallegu minningu um hana Jónínu ömmu Dóra mín og ég samgleðst þér svo sannarlega að hafa erft handavinnugenin hennar. Ekki vissi ég að hún hafi gengið á milli heimila og saumað fyrir fólk. Við nútíma fólkið höfum kannski gott af því að setja okkur í sporin hennar, þar sem hún byrjar á því að spretta gömlu flíkinni, þvo og pressa og vendir henni svo, því oft var rangan mun fallegri en réttan eftir mikla notkun.... Kærar þakkir.... Dússý frænka .
ReplyDelete