Wednesday, 29 January 2014

Löður

Um daginn rakst ég á skemmtilega síðu á netráfi mínu sem innihélt fullt af flottum munstrum. Eitt þeirra vakti sérstaka athygli mína þar sem það skar sig frá öllum hinum. Munstrið var kallað See foam. Það var þó ekki þetta hefðbundna sem maður rekst oftast á með þessu nafni heldur allt öðruvísi. Mér fannst það svo skemmtilegt að ég bara varð að gera mér prufu og athuga hvernig væri að prjóna það. Ef þú vilt prófa það líka finnur þú það hér. Ef þú skilur ekki tákning getur þú skoðað þessar skýringarmyndir.

Ég prjónaði munstrið með bómullargarni. Það er líklega ekki heppilegasta bandið en allt í lagi þó. Hér sérðu útkomuna.





Munstrið fannst mér sæmilega fljótprjónað um leið og ég áttaði mig á hvernig ætti að fara að. Ég sá þó að það var auðvelt að gleyma sér og gera vitleysu þar sem umferðir nr. 4 og 8 byrja ekki eins. En eftir að hafa prjónað nokkrar umferðir af prufunni var takturinn kominn. 

Eins og þú sérð ef þú skoðar munstrið þá byggir það á tvisvar sinnum fjórum umferðum sem látnar eru skarast. Fyrst er prjónaður einn garður. Þá er prjónuð umferð þar sem allar lykkjur eru prjónaðar þannig að prjóninum er stungið í lykkjuna, bandinu vafið þrisvar um prjóninn og síðan er prjónninn dreginn í gegnum lykkjuna. Í síðustu umferð munstursins eru löngu lykkjurnar prjónaðar á skemmtilegan hátt. Hér getur þú séð hvernig á að prjóna munstrið. Láttu það ekki trufla þig að myndbandið er á rússnesku. Lækkaðu bara í talinu og láttu þér duga að horfa á myndbandið.

Ef þér líkar að fá að sjá svona munstur þá endilega segðu mér frá því með ,,kommenti" hér með færslunni.


3 comments:

  1. skemmtilegt prjón

    ReplyDelete
  2. Frábær síða og alltaf eitthvað spennandi. Mjög gaman að fá svona munstur

    ReplyDelete
  3. Solveig Pétursdóttir11 February 2014 at 08:52

    Þetta er skemmtilegt munstur maður gæti haldið að þetta væri heklað en ekki prjónað, verð að prófa við tækifæri.

    ReplyDelete


Það er alltaf gaman að lesa athugasemdir ykkar við færslurnar mínar svo endilega skrifið smá skilaboð til mín.