Nú er röndótt sokkaþema hjá Prjónakistunni og því fannst mér tilvalið að sameina tvennt, prjóna sokka sem eitt barnabarnið mitt bað um og að prjóna röndótt.
Ég ákvað að fitja upp 42 lykkjur og nota prjóna nr. 3,5. Það taldi ég að hentaði garninu sem ég er með. Kannski hefði ég mátt vera með hálfu númeri minni prjóna til að fá sokkana ennþá fastari. Ég ákvað þó að rekja ekki upp heldur halda ótrauð áfram þegar þetta kom í ljós.
Eftir að hafa prjónað 10 umferðir af stroffi jók ég út, prjónaði fáeinar rendur og fór svo beint í munsturprjón. Ég hafði rekist á fuglamunstur fyrir nokkru sem mér kom til hugar að nota, en það passaði ekki. Ég breytti því munstrinu svo ég gæti nýtt það. Einnig setti ég doppur á milli fuglanna til að þurfa ekki að vefja eins mikið.
Í fyrstu ætlaði ég að hafa reglulegar rendur en hætti við það og ákvað að prjóna rendurnar bara algjörlega út í loftið svo þær yrðu ekki leiðigjarnar í prjóni.
Ég valdi mér franskan hæl með styrkingu á hælbaki til að gera hann ennþá sterkari. Svona hæl geri ég mjög oft. Ástæðan er svo sem ekki nein sérstök, nema að mér finnst frekar skemmtilegt að prjóna slíkan hæl. Styrkinguna geri ég með því að prjóna allar lykkjurnar í sléttu umferðinni en bara aðrahverja lykku í brugnu umferðinni. Þannig fæ ég bönd sem lykkja yfir lykkjurnar á röngunni og styrkja hana. Uppskriftin að frönskum hæl er hér en hann er þó í sinni einföldustu mynd þ.e. án styrkingar.
Þegar hælprjóninu lauk tók ég upp slatta af lykkjum í hvorri hlið. Í næstu umferðum fækkaði ég lykkjum um eina í hvorri hlið þar til ég var komin með jafnmargar lykkjur og áður en ég byrjaði að prjóna hælinn.
Nú hélt ég áfram með óreglulegu rendurnar þar til ég kom að tá. Hún var gerð á hefðbundinn hátt með fáeinum umferðum á milli úrtaka til að byrja með en síðan var úrtaka í hverri umferð þar til aðeins 8 lykkjur voru eftir. Þá sleit ég frá og dró bandið í gengum lykkjurnar.
Í dag fór ég í fjöruferð í Stokkseyrarfjöru. Þar sem prjónarnir lágu í veskinu mínu og annar sokkurinn var tilbúinn ákvað ég að taka myndir af honum til að sýna ykkur. Þegar ég skoðaði myndirnar kom í huga minn að flottasta nafnið á sokkana væri Fuglinn í fjörunni.
fallegir sokkar
ReplyDeleteÞeir eru dásamlegir hjá þér frænka :-)
ReplyDeleteFallegir þessir og litirnir :)
ReplyDelete