Það rignir úti þessa dagana. Ég sit inni og svei mér ef samviskubitið er ekki minna en þegar ég geri slíkt hið sama í sólskini.
Síðustu daga hef ég verið að prjóna rósavettlinga, eða það stóð að minnsta kosti til að einbeita sér að þeim. Annar er kominn en það er svo margt sem truflar að ég kemst bara ekkert áfram.
T.d. kom Ása Hildur frænka mín í heimsókn um daginn og færði mér tvær uppskriftir sem hún hafði hannað. Já, ég er sko ekki sú eina í ættinni sem hannar peysur og aðrar flíkur, hún hannar nefnilega líka. Og þegar maður er kominn með svona flottar uppskriftir er ekki laust við að mann langi til að prjóna þær. Og auðvitað sló ég til.
Ég brá mér í búð og keypti garn í peysu. Þar sem ekki fæst það garn á Selfossi sem gefið var upp í uppskriftinni, þ.e. Vital garnið sem hún notaði, þá ákvað ég að prjóna úr kambgarni sem örugglega er fínna garn. Fyrir valinu urðu þrír fallegir litir, turkis, dökk blár og ljós grár.
Og svo var bara að byrja að prjóna. Ég vissi svo sem að ef ég notaði nákvæmlega sömu prjónastærð og gefin var upp þá yrði peysan svolítið laust prjónuð.En ákvað samt að láta slag standa og notaði prjóna nr. 4 en ekki 3,5 eins og ég er þó vön þegar ég prjóna eitthvað annað en vettlinga eða sokka úr kambgarni. Það er svo nauðsynlegt að prófa allt mögulegt.
Peysuprjónið gekk vel og útkoman var góð. Þetta er lipur og létt peysa sem án efa er mjög gott að vera í.
En þetta er ekki það eina sem kom í veg fyrir að mér tækist að prjóna rósavettlingana. Ég var líka að prjóna vettlinga og húfu í stíl við peysu sem ég hannaði fyrir nokkru og sýndi á síðu Prjónakistunnar um daginn. Mér finnst nefnilega svo sætt að hafa allt í stíl.
Takk fyrir góð orð í minn garð forréttindi að eiga svona flotta frænku. Og peysusettið þitt ekkert smá flott.
ReplyDeleteSama vandamál hér það er svo margt í gangi að lítið miðar með fallega rósavettlinginn en það hefst á endanum enda sérlega fallegur og skemmtilegt að taka þátt í svona sumarsamprjóni