Tuesday, 10 July 2012

Muffins - prjónað


Mér finnst gaman að skoða uppskriftir. Stundum kíki ég á netið og sé hvað aðrir baka. En mér finnst líka gaman að baka og finnst kökur mjög góðar, allt of góðar reyndar enda er ég algjör nammigrís. En ég baka sjaldan - nema þá helst vandræði. Það er þó ekki endilega tímaskortur sem gerir það að verkum að ég baka ekki heldur frekar hitt að ég veit að kökur eru ekki sérlega hollar fyrir mig. Þær eru líka svo ansi fitandi, að minnsta kosti ef þær eru snæddar í því magni sem mig langar helst til. En þar sem kökur geta verið fallegar á borði ákvað ég að útbúa eina sem sem ég gæti borið á borð fyrir mig sjálfa í hvert skipti sem mig langaði í köku. Já, eina svona sem geymist vel því ég ætlaði ekki að borða hana heldur bara að horfa á hana og kallað fram bragðið án þess að fitna. Skynsamlegt, ekki satt?

Eins og ég sagði áðan hef ég oft skoðað alls konar muffins á netinu og margt af því er svo ofboðslega flott og örugglega eftir því gott. Innan um og saman við hef ég stundum séð prjónað muffins sem einnig lítur vel út. Ég gat ekki betur séð en það væri ekkert mál að útbúa svoleiðis kökur. Eitt kvöldið þegar ég hafði ekkert að gera ákvað ég að slá til og prufa prjónabakstur. Ég  greip bara það garn sem hendi var næst og því varð litavalið kannski ekki það flottasta hjá mér.

Athugaðu að uppskriftin er aðeins grunnuppskrift og það má vel útfæra hana og gera miklu flottari.

Muffins 
 
Garn og prjónar
Sokkaprjónar nr. 4
Léttlopi eða garn sem hæfir prjónastærðinni.

Skýringar á táknum
S = Slétt
2 Ss = 2 lykkjur prjónaðar sléttar saman

Kökuformið
Þú byrjar á að prjóna kökuformið. Veldu fallegan lit fyrir formið og fitjaðu upp 9 lykkjur. Prjónaðu garðaprjón 56 umferðir, þ.e. 28 garða og felldu svo af. Ekki slíta frá og hafðu lokalykkjuna kyrra á prjóninum

Botninn er prjónaðu á sokkaprjóna í hring.
Taktu upp 27 lykkjur á öðrum endanum til viðbótar við þessa einu sem er á prjóninum .  ( = 28 lykkjur í lok umf.)
1.umf:Slétt                                                                                                                                                                          2. umf: (4 S, 2 Ss) 4 sinnum, 4 S ( = 24 lykkjur)
3. umf: Slétt
4. umf: (2 S, 2 Ss) út umferðina ( = 18 lykkjur)
5. umf: Slétt
6. umf: (2 Ss) út umferðina ( = 9 lykkjur)
Dragðu bandið í gegnum lykkjurnar og hertu að. Saumaðu síðan hliðina á forminu saman, gakktu frá endanum og prjónaðu síðan kökuna í það.

Kaka
Byrjaðu  á kökulitnum (brún fyrir súkkulaðikökur en drapplitt fyrir ljósa köku).
Taktu upp 28 lykkjur næst við brúnina á kökuforminu að innanverðu. Það merkir að þú ert að taka upp lykkju nr. 2 en ekki þá sem er á brúninni (kantlykkjuna). Ef þú vilt getur þú líka tekið upp lykkjur efst á kantinum.
1.umf: Slétt út umferðina og auktu út með jöfnu millibili um 7 lykkjur. Mér finnst best að auka út með því að prjóna aftan og framan í lykkju. (= 35 lykkjur). Svo er gott að ganga frá endanum  um leið og umferðin er prjónuð svo þú sért laus við það seinna.
2.- 3.umf: Slétt

Skiptu um lit því hér endar kakan sjálf og kremið tekur við.
4.-5. umf: Slétt
6. umf: (8 S, 2 Ss) 3 sinnum, 5 S  ( = 32 lykkjur)     
7. umf. Slétt         
8. umf. 4 S, 2 Ss) 5 sinnum, 2 S  ( = 27 lykkjur)
9. umf: Slétt         
10. umf: (2 Ss) 13 sinnum, 1 S ( = 14 lykkjur) 
11. umf: (2 Ss) út umferð ( = 7 lykkjur)
Dragðu bandið í gegnum lykkjurnar. Fylltu muffinsið af vatti, hertu vel að og gakktu frá endunum.

Kokteilber á toppinn
Fitjaðu upp 6-7 lykkjur. Prjónaðu 14-16 umferðir garðaprjón (7-8 garða) allt eftir því hversu stórt þú vilt hafa berið. Þú getur líka prjónað aðra umferðina slétta og hina brugðna ef þú vilt hafa aðra áferð á berinu. Slíttu frá og dragðu garnið í gegnum lykkjurnar þegar þú hefur prjónað þessar umferðir. Þræddu síðan allan hringinn á jaðrinum og hertu að. Þá myndast kúla. Þú getur sett örlítið vatt inn í kúlun áður en þú herðir að og lokar gatinu.
Búðu til skrautsykur á kökuna með því að sauma fræhnúta eða bein strik á víð og dreif. Gakktu svo frá endum.

Þessi litla stelpa á myndinni eignaðist muffins og dundar sér við að baka það og bjóða dúkkunum sínum. Það er auðvitað frábær afmælisgjafahugmynd handa litlum stelpum að gefa þeim kökur í dúkkuleikina. Um leið er hægt að losa sig við garnafganga sem vilja hlaðast upp hjá þeim sem prjóna mikið.

1 comment:

  1. VÁ !!! æði kærar þakkir fyrir að deila þessari uppskrift ég ætla að prufa að gera svona :D

    ReplyDelete


Það er alltaf gaman að lesa athugasemdir ykkar við færslurnar mínar svo endilega skrifið smá skilaboð til mín.