Ég er framhaldsskólakennari og sit því heima í verkfalli þessa dagana. Og svo skrítið sem það er þá var til að byrja með rétt eins og ég hefði farið í verkfall í prjónaskapnum líka því það var svo ótrúlega og óvenjulega lítið sem ég prjónaði í upphafi verkfallsins.
Þegar verkfallið hafði staðið í viku settist ég niður með nokkra Léttlopaafganga sem ég átti og fór að dunda mér við að skoða nokkrara leiðir í uppfiti á tvöföldu prjóni. Þegar ég hafði fundið það fit sem mér fannst hentugast fyrir prjónið hætti ég að rekja upp og ákvað að prufa munstur sem ég átti. Ég dró upp úr körfunni nokkra liti sem mér fannst ágætir saman og byrjaði að prjóna. Auðvitað valdi ég blátt enda er það uppáhaldsliturinn minn. Fyrr en varði var ég komin með svolítið stykki sem mér fannst bara ljómandi fallegt. Á annarri hliðinni var munstrið svart í grunninn en á hinni blágrátt.
Ég sá strax að þetta gæti orðið fallegur kantur á vettlingum eða ágæt ermabyrjun. Þar sem ég átti einar átta dokkur af svörtum Léttlopa hélt ég því áfram og ákvað að prjóna mér peysu í verkfallinu enda ekki líkur á að það yrði mjög stutt. Ég notaði ekki uppskrift heldur mátaði bara ermina við og við og athugaði hvernig hún passaði mér. Það er nefnilega viss áskorun að prjóna algjörlega út í loftið.
Þegar ermarnar voru búnar fitjaði ég upp á bolnum. Þar vildi ég að kanturinn tónaði við ermarnar en vildi þó ekki hafa neitt munstur þar. Ég hafði því uppá brotinn kant og prjónaði saman endana til að fá fallegan frágang.
Peysuna hafði ég vel aðsniðna. Til að auka á áhrif aðsniðsins hafði ég línur upp alla peysuna
sem minna á sauma. Þær gera peysuna enn kvenlegri og virka líka grennandi, sem er auðvitað bara kostur fyrir mig.
Þegar ég var komin upp að axlastykkinu vissi ég svo sem ekki hvernig ég ætlaði að hafa það. Ég var reyndar ákveðin á að hafa munsturbekkinn sem ég hafði prjónað neðan á ermunum en þar með var það upp talið. Á endanum ákvað ég að leyfa honum bara að njóta sín og vera ekki að troða neinu öðru með honum. Hann er líka fallegur einn og sér og litirnir njóta sín mjög vel þegar engu er bætt við. Svo var ég líka með mikið af styttum umferðum í axlastykkinu til að hækka peysuna upp að aftan og fá hálsmálið neðar að framan og því kannski ekki hentugt að hafa allt of mikið munstur.
Ríkjandi og víkjandi litir ráða auðvitað útkomunni á munstrinu þar sem lykkjur verða misstórar eftir því hvort þær eru prjónaðar með ríkjandi eða víkjandi lit. Einnig gera ríkjandi og víkjandi litir rönguna fallega ef skipulagi er haldið. Ég passa mig því alltaf að litirnir ruglist ekki.
Uppáhalds hluti peysuprjóns hjá mér er frágangurinn því þar kemur endanleg útkoma í ljós. Í þeim hluta reyni ég að vanda ég mig og ana ekki áfram. Ég ákvað að að hafa snúrukanta á peysunni minni. Bæði var það vegna þess að mér finnst hálsmál með slíkum kanti mjög falleg en einnig vegna þess að með því að prjóna slíkan kant framan á peysunni myndi ég fela saumana inni í kantinum.
Að endingu er ég að hugsa um að setja krækjur á peysuna að innanveðu. Finnist mér það ekki koma vel út get ég alltaf sett í hana rennilás.
Svo krossa ég fingur og vona að verkfall fari nú senn að leysast. En ef ekki er bara að skella sér í næstu peysu.
Gaman væri að fá að vita hvað þér finnst um peysuna svo endilega skildu eftir ummæli.
Mér finnst þessi peysa rosalega fín, ég væri alveg til í að eiga svona flotta peysu :)
ReplyDeletemjööög falleg peysa.
ReplyDeleteÞessi peysa er algjör snilld hjá þér. Eg er náttúrlega búin að berja þetta aðeins augum, og mynstrið framan á ermunum er æði sem og ,,saumurinn" upp peysuna, en það gerir peysuna einmitt svo kvenlega. Hlakka til að sjá lokaplaggið á þér.
ReplyDeleteÞessi er mjög flott væri alveg til í að eiga hana :)
ReplyDeleteRosalega falleg peysa ,finnst þær svo flottar bara með einum svona fínum bekk, stundum er mynstrið á berustykkinu alt og mikið :)
ReplyDeleteVirkilega falleg peysa og alltaf gaman að skoða bloggið hjá þér
ReplyDeleteMjög falleg hjá þér :)
ReplyDeleteAlltaf svo fínt hjá þér Guðbjörg Dóra
ReplyDeleteGaman að sjá þessa flottu vinnu
ReplyDeletePeysan er dásamleg og gaman að fylgjast með pælingunum við vinnsluna.
ReplyDeleteMjög falleg peysa. Ætlar þú að búa til uppskrift? Ýmislegt sem ég myndi gjarnan vilja læra af þér. Hvernig gerir þú þessar línur? Og hvernig gerir þú snúrukant? :)
ReplyDelete