Thursday, 4 July 2013

Prjónaferðalag 3. júlí

Fátt er meira gefandi en fá að eyða deginum í góðra vina hópi.  Það fékk ég sko virkilega að upplifa í vikunni. Við í prjónaklúbbnum mínum fórum nefnilega í skemmtilega dagsferð um Bogarfjörðinn og komu við á ýmsum stöðum og hittum fjölmargt skemmtileg fólk.

Ferðin var löngu ákveðin og því vorum við langt frá því að vera öruggar um gott veður. Rigningartíðin í sumar benti svo sem ekki til þess að veðurguðirnir yrðu með okkur. En annað kom á daginn. Það var sól og blíða  og landið skartaði sínu fegursta þegar við lögðum af stað í morgun frá Selfossi og þannig hélst veðrið allan daginn.

Fyrsta stoppið var í Álafosskvosinni. Þar hittist allur hópurinn, þær sem komu úr Reykjavík og við hinar sem komum frá Selfossi. Við vorum sex skruddur sem fórum á tveimur bílum í Borgarfjörðinn. Auðvitað laumuðumst við svolítið inn í Álafossbúðina og keypum smá garn, hvað annað? Þið vitið, það er nefnilega aldrei nóg af því, eða þannig sko. En við stoppuðum þó ekki lengi þarna því við áttum stefnumót við merkilega konu í Borgarfirðinum.


Hálftíma áður en Guðrún í Hespuhúsinu ætlaði að taka á móti okkur vorum við mættar. Hún var búin að vera að undirbúa komu okkar frá því eldsnemma um morguninn. Eftir að hafa heilsað Guðrúnu og Káti fengum við að snæða nestið okkar á stéttinni fyrir framan Hespuhúsið hennar meðan hún lauk undirbúningnum.

Á meðan við borðuðum lagði seiðandi ilminn að vitum okkar. Þvílík dásemd. Þetta var eiginlega göldrum líkast og ekki laust við að maður hugleiddi hvernig pottarnir hafi verið hjá seiðkonum á öldum áður. 


En svo var komið að því að ganga inn í "helgidóminn". Guðrún er einstaklega skemmtileg kona og hafsjór fróðleiks. Hún leiddi okkur í sannleikann um ýmislegt í kringum jurtalitunina og sagði okkur frá jurtunum og efnunum sem hún notar. Aðferðirnar útskýrði hún einnig fyrir okkur. Við vorum alsælar og ákaflega forvitanar og hún var dugleg við að svala þessari forvitni okkar. 


Á eftir fórum við að skoða garnið hennar. Við vorum eiginlega eins og krakkar í dótabúð hjá henni. Garnið sem hún hefur litað er eitthvað það fallegast sem ég hef séð. Litirnir ótrúlegir. Þótt við værum sex prjónakerlur, hver með sinn smekk fundum við allar óteljandi liti sem hentuðu okkur. 


 Já, ég gleymdi að segja ykkur það, að með okkur í ferð voru sex frábærar litlar vinkonur sem auðvitað tóku þátt í öllu með okkur. Þær biðu reyndar rólegar á meðan við hlustuðum á Guðrúnu en fengu að koma inn á eftir til að láta mynda sig. Vinkonur okkar eru prjónaðar eftir uppskrift frá Helene Magnússon. Þið sjáið þær þar sem þær hafa stillt sér upp í hillunum hjá hluta af fallega garninu.

Það var erfitt að slíta sig frá Guðrúnu og öruggt að maður á eftir að gera sér ferð til hennar aftur. En áfram þurfti að halda, við vorum jú rétt að byrja og dagurinn næstum hálfnaður. Það má segja að við höfum verið í hálfgerðri leiðslu þegar við fórum burt með ilminn í vitunum því við keyrðum framhjá afleggjaranum að Hvanneyri og tókum ekkert eftir því fyrr en við okkur blasti forláta brú sem alls ekki átti að vera á leiðinni. Það var því ekki um annað að ræða en snúa við og horfa betur í kringum sig. 

Á Hvanneyri skoðuðum við meira af garni en einnig fullt af flottu handverki. Meðan við mynduðum ferðafélagana okkar var ekki laust við að tveir reffilegir karlar sem sátu fyrir utan og biðu eftir konunum sínum sem voru inni að versla litu á okkur svolítið hissa enda sjálfsagt ekki á hverjum degi sem þeir hitta fyrir miðaldra konur með heimgerðar brúður. Þeir sögðu þó ekkert enda auðsjáanlega kurteisir menn.



Eftir að Matthildur hafði látið mynda sig á póstkassanum og í traktornum við Ullarselið á Hvanneyri var haldið að  Háafelli í Hvítársíðu þar sem geitasetrið er. Við skoðuðum geitur og fengum að knúsa þær eins og við vildum. 


Eitt kiðið var sérlega forvitið um ferðafélagana okkar og skoðaði þær sérlega vel.



Á litlu kaffihúsi á geitasetrinu skoðuðum við ýmsar vörur sem þar er hægt að fá þar. Henni er nefnilega margt til lista lagt sú sem öllu stýrir þar. Hún býr til sápur og krem úr geitafitu og alls konar jurtum. Á eftir fengum við okkur kaffisopa og spjölluðum við eiganda staðarins og fræddumst um geitina og leyndardóma hennar.


En dagurinn var ekki búinn. Við fórum nú að koma okkur nær Borgarnesi. Á leiðinni þangað komum fórum við til Rítu og Páls, danskra hjóna sem bæði reka garðyrkjustöð og vinna alls kyns flott skart úr horni og hrosshári. Það var eiginlega eins og að vera kominn til útlanda að fara til þeirra enda umhverfið þar einstakt.

Þegar við komum í Borgarnes var búið að loka prjónabúðinni, en það var líka allt í lagi því við vorum nú eiginlega komnar með svo mikið af garni að við höfðum ekki þörf fyrir meira í bili. Við fórum því beina leið í Skallagrímsgarðinn og settumst þar í glampandi sól og logni, því ekki blés vindur inni í þessum frábæra garði þeirra Borgnesinga þótt fyrir utan væri svolítil gjóla. Ferðafélagarnir okkar litlu settust upp í tré og viðruðu sig meðan við fengum okkur kvöldmat úr pikknikktöskunum okkar góðu.


Og auðvitað vöktu ferðafelagarnir forvitni ungs fólks sem var þarna í garðinum og fylgdist með úr fjarlægð en þorði ekki að koma of nálægt. Kannski fannst þeim líka skrítnar kerlurnar sem sem sumar hverjar drógu upp myndavél og tóku myndir af fyrirsætunum í trénu. Já þeir eru misjafnir gjörningarnir og stundum skilja kynslóðirnar ekki hver aðra.



Og svo var dagurinn liðinn og við héldum heim á leið. Sælar og glaðar kvöddumst við vinkonur með þeirri vissu að þetta yrði ekki síðasta ferðalagið okkar í sumar, fleiri ævintýri biðu okkar handan við hornið.

1 comment:


Það er alltaf gaman að lesa athugasemdir ykkar við færslurnar mínar svo endilega skrifið smá skilaboð til mín.