Guli liturinn kemur úr lúpínu, sá rauðbrúni úr möðrurót en í marglitu hespunni eru báðar jurtirnar notaðar og yfirlitað að hluta með indígó.
Það er auðvitað dásamlegt að handleika garnið í svona hespum og minnir mann á gamla daga. Þegar ég var lítil hafði ég það á tilfinningunni að allt garn sem mamma keypti væri í hespum. Ansi oft var ég látin halda hespunum meðan mamma vatt upp hnykla. Mér fannst það ekki gaman. Seinna þegar ég fór að kaupa garn sjálf og prjóna skellti ég hespunum á stólbak og vatt þær upp þannig. Þá þurfti engan "þræl" til að halda þeim. Í dag notast maður auðvitað ekki við svona fornaldar vinnubrögð ef maður kemst hjá því, heldur skellir herlegheitunum á hesputré og vindur upp með garnvindu. Dokkurnar verða þá bæði fallegar og auðvelt er að vinna úr þeim.
Ég ákvað að gera eitthvað handa sjálfri mér úr þessu fallega garni. Fyrst hugleiddi ég að nota garnið í munstur á peysu en féll frá því og ákvað að gera mér sjal eftir eigin uppskrift og nota þegar ég væri svartklædd, sem ég er ansi oft. Þannig myndu þessir fallegu litir lífga upp klæðnaðinn minn.
Á meðan verið er að hekla sjalið virðist það þétt og ekki mjög ásjálegt. En það breytist þó þegar það er þvegið og strekkt.
Hér er sjalið komið út á snúru. Reyndar er það ekki þarna til að þurrka það heldur eingöngu til að taka þessa mynd. Litirnir koma kannski ekki nógu vel í ljós þar sem umhverfið á bakvið stelur svo mikilli athygli. Eiginlega er litla prufan með betri og réttari litum.
Til samanburðar tók ég svo þessa mynd af sjali sem ég heklaði eftir sömu uppskrift úr einbandi frá Ístex. Græni liturinn í kanti sjalsins er svo líkur grasinu og gróðrinum að hann hreinlega sést varla.
Uppskriftin að sjalinu kalla ég Blæ. Þeir sem vilja geta fengið hana hjá mér. Uppskriftin er rafræn og kostar 500 krónur. Bara þar fað senda mér póst á prjonauppskriftir@gmail.com
Á síðu Prjónakistunnar á facebook má svo sjá sjalið einlitt prjónað úr kambgarni. Þar eru líka fjölmargar aðrar uppskriftir.
Eg las bloggfærsluna , skoðaði myndirnar og mér finnt þú hugmyndarík og flott. Sé í andda þetta líflega sjal lífga upp á svartan klæðnað.
ReplyDelete