Friday, 28 June 2013

Salómonshnútur

Ég var að taka til í tölvunni minni og fann þá þessar myndir af Salómonshekli. Það er orðið nokkuð langt síðan ég tók myndirnar og skrifaði uppskriftirnar. Í rauninni var þetta bara gleymt. En þegar ég rakst á það datt mér í hug að einhver vildi nýta sér þetta og því set ég það inn í bloggfærslu í dag.

Salómonshekl, er líka kallað Salómonshnútur. Einnig ber heklið nafnið Hnútur elskendanna þar sem hann er svo fallega tengdur saman. Hægt er að hekla þetta hekl í ferhyrntum flötum en einnig í þríhyrning. Það er tiltölulega auðvelt að hekla eftir þessari aðferð.


Salómonshnútur




1. Dragðu lykkjuna sem er á nálinni upp í þá lengd sem þú vilt hafa á henni (t.d. 2 cm).
2. Sæktu bandið.
3.  Dragðu bandið í gegnum lykkjuna.
4.    Stingdu heklunálinni á milli löngu lykkjunnar og bandsins fyrir aftan. Sæktu bandið.
 6. Sæktu bandið aftur og dragðu það í gegnum báðar lykkjurnar. Nú hefur myndast fastapinni í lykkjunni. 
7. Endurtaktu þar til réttum fjölda er náð 

8.  Þegar þú heklar til baka stingur þú nálinni inn í litla hnútinn sem er milli löngu lykkjanna og gerir þar fastapinna. Teldu 3 langar lykkjur og gerðu síðan fastapinna í hnútinn á milli 3 og 4 löngu lykkju. 


Langsjal/trefill




Fitjaðu upp 2 loftlykkjur. Gerðu fastapinna í 1. loftykkjuna. Heklaðu síðan salómonshnútakeðju. Fylgdu leiðbeiningum 1-7 þar til þú ert búin að endurtaka munstrið 21 sinni. Þá ertu komin með 21 langa lykkju og 22 hnúta (hnútar eru bæði í upphafi og enda keðjunnar og því einum fleiri en lykkjurnar). Ef þú vilt hafa sjalið breiðara bætir þú við tveimur munstrum eða fjölda sem er margfeldi af tveimur. Snúðu við.



Heklaðu fastapinna í 4. hnútinn, talið frá heklunálinni (sjá leiðbeiningar 8). *Heklaðu tvö munstur í viðbót með því að endurtaka leiðbeiningar 1-7 tvisvar sinnum. Hoppaðu yfir 2 munstur (1 hnút og tvær langar lykkjur) og gerðu fastapinna í næsta hnút.* Endurtaktu frá * til *  þar til þú ert komin út á enda. Síðasti fastapinninn kemur í hnútinn sem myndaðist þegar þú gerðir fyrsta fastapinnann upphafi umferðarinnar. Snúðu við.



Heklaðu 3 munstur með því að endurtaka leiðbeiningar 1-7 þrisvar sinnum. Heklaðu fastapinna í fyrsta hnút umferðarinna. *Heklaðu 2 munstur, hoppaðu yfir tvö munstur og heklaðu fastapinna í næsta hnút.*  Endurtaktu frá * til *  þar til þú ert komin út á enda.



Endurtaktu síðustu umferð þar til réttri lengd er náð á treflinum/sjalinu.




Hyrna 

1. umf. Byrjaðu á 2 loftlykkjum og einum fastapinna í fremri loftlykkjuna. Gerðu þá salómonshnútakeðju, alls fjögur munstur og tengdu í hring með fastapinna. (Snúðu við)

2. umf. Gerðu 3 munstur og tengdu með fastapinna í 3. hnút frá uppfiti. *Gerðu 2 munstur og tengdu með fastapinna* í 2. hnút frá uppfiti. Gerðu eitt munstur og tengdu með fastapinna í lykkjuna sem er samsíða þessari. (Snúðu við).

3. umf. og áfram: Gerðu 3 munstur og tengdu með fastapinna í fyrsta hnút umferðarinnar (sá sem skagar fyrst upp). *Gerðu 2 munstur og tengdu með fastapinna.* Endurtaktu frá * til * þar til þú ert komin út á enda.  Gerðu þá þrjú munstur og tengdu. Gerðu eitt munstur og tengdu með fastapinna í lykkjuna sem er samsíða þessari. (Snúðu við).





Þú getur fundið myndband sem sýnir þér heklið hér.
Svo finnur þú sýnikennslu í kjólahekli með Salómonshnút hér.

3 comments:

  1. flott lærdi tetta af yndisegri konu tegar eg var i endurhæfingu eftir bilslis

    ReplyDelete
  2. Rosa gaman að hekla þetta.
    Mig minnir að á norskunni sé þetta kallað englahekl....

    Kv. Eybjörg.

    ReplyDelete
  3. Frábær kennsla í þessu hekli, ætla að prófa þetta við fyrsta tækifæri...takk, takk fyrir ,kv Ditta.

    ReplyDelete


Það er alltaf gaman að lesa athugasemdir ykkar við færslurnar mínar svo endilega skrifið smá skilaboð til mín.