Monday, 21 July 2014

Eldborg - peysa úr fjórföldum plötulopa




Einhvern tímann fyrir löngu síðan prjónaði útbjó ég uppskrift að kvenpeysu úr fjórföldum lopa. Ég hafði aldei áður prjónað úr svo grófum lopa og þess vegna fannst mér þetta skemmtileg áskorun. Uppskriftina gerði ég í fjórum stærðum S-XL. Peysan er afskaplega fljótprjónuð enda eru lykkjurnar á bolnum langt innan við 100 í öllum stærðunum.  Þeir sem vilja geta prjónað eftir þessari uppskrift.

Kvenpeysa í stærðum S (M) L (XL)

Yfirvídd: 94 (98) 101 (105) cm.

Peysan er prjónuð úr fjórföldum plötulopa. Varast ber að prjóna peysuna of litla. Peysa úr fjórföldum lopa ber sig best ef hún er rúm.

Prjónfesta í sléttu prjóni, 8 lykkjur = 10 cm.
Nauðsynlegt er að kanna prjónfestuna til að mál standist. Ef á 10 cm eru færri lykkjur minnkar þú prjónana en stækkar ef þær eru fleiri.

Efni:   7  (8) 9 (9) plötur rauður lopi nr. 1430
Sokkaprjónar og 80 cm hringprjónn númer 12

Kaðlaprjón:
·         1. umferð: Prjónaðu tvær sléttar lykkjur og eina brugðna til skiptis út umferðina.
·        2. umferð: Sléttu lykkjurnar mynda kaðlana en þær brugðnu skilja þá að. Þú byrjar á að prjóna innri sléttu lykkjuna með því að fara aftan í hana en tekur hana ekki af prjóninum. Prjónaðu síðan framan í fremri sléttu lykkjuna og dragðu svo báðar lykkjurnar sem þú varst að prjóna af prjóninum. Prjónaðu að lokum eina brugðna lykkju. Endurtaktu þetta út umferðina.
·         Umferðir 1 og 2 eru síðan endurteknar þar til réttri lengd er náð.

Bolur
Fitjaðu upp með fjórföldum lopa á hringprjón nr. 12,  75  (78)  81 (84) lykkjur. Tengdu saman í hring og prjónaðu kaðlaprjón þar til bolurinn er orðinn 16 cm. Prjónaðu að því loknu slétt prjón þar til bolurinn mælist 48 (50) 52 (54) cm. Ekki prjóna síðustu 3 lykkjurnar. Geymdu stykkið og prjónaðu ermarnar.
                                     
Ermar
Fitjaðu upp með fjórföldum lopa á sokkaprjóna nr. 12,  24  (27) 27 (27) lykkjur. Tengdu saman í hring og prjónaðu kaðlaprjón þar til lengdin á erminni er orðin 16 cm. Prjónaðu þá slétt prjón næstu 6 umferðir. Auktu þá út undir miðermi um tvær lykkjur, eina í byrjun umferðar og aðra í lok umferðar. Endurtaktu þetta 3 (3) 4 (4) sinnum með 6 umferða millibili. Nú eiga að vera á prjónunum 30 (33) 35 (35) lykkjur. Prjónaðu nú áfram þar til heildarlengd erminnar með stroffi er orðin 45 (46) 47 (48) cm. Ekki prjóna síðustu 3 lykkjur umferðarinnar.  Settu 6 lykkjur á hjálparband (lykkjurnar sem eru undir hendi). Prjónaðu hina ermina eins.

Axlastykki 
Sameinaðu bol og ermar. Prjónaðu fyrri ermina 24 (27) 29 (29) lykkjur, settu fyrstu 6 lykkjur bolsins á hjálparband og prjónaðu síðan bakhlið bolsins 31 (33) 34 (36) lykkjur, settu næstu 6 lykkjur bolsins á hjálparband, prjónaðu seinni ermina 24 (27) 29 (29) lykkjur og framhlið bolsins 32 (33) 35 (36) lykkjur. Þá eru á prjóninum 111 (120) 127 (130) lykkjur. Eftir að þú hefur sameinað bol og ermar skaltu prjóna eina umferð til viðbótar og setja prjónamerki á skilum erma og bols, alls fjögur merki. Fyrsta og síðasta lykkja á hvorri ermi eiga að vera miðjulykkjur laskanna. Lykkjurnar þrjár sem eru sitt hvorum megin við þessar miðjulykkjur eru lykkjurnar sem úrtakan er gerð á. Tekið er út í annarri hverri umferð og prjónuð ein slétt umferð á milli. Svona ferð þú að við úrtökurnar:

Laskaúrtaka
·    Hægra megin við miðjulykkjuna á laskanum: Þegar þrjár lykkjur eru eftir að merkinu tekur þú lykkjuna sem er við merkið og dregur yfir hinar tvær (lykkjan lengst til vinstri fer yfir þær tvær sem eru til hægri). Prjónaðu síðan lykkjurnar.

·    Vinstra megin við miðjulykkjuna á laskanum: Taktu fyrstu lykkjuna óprjónaða fram af, prjónaðu næstu tvær lykkjur og dragðu síðan óprjónuðu lykkjuna yfir hinar sem þú varst að prjóna.

Prjónaðu nú slétta umferð og úrtökuumferð til skiptis þar til  þú ert búin að gera úrtöku í 8 (9) 9 (10) umferðum.  Þá eiga að vera á prjóninum 47 (48) 55 (50) lykkjur.

Kragi
Nú prjónar þú kragann. Hann er prjónaður með kaðlaprjóni frá röngunni þar sem kraginn brettist út. Það gerir þú með því að snúa við og prjóna í hina áttina, þ.e. innan frá. Ef þú vilt getur þú líka snúið peysunni við áður en þú byrjar að prjóna kragann. Prjónaðu sams konar kaðla og eru neðan á peysunni. Í fyrstu umferð skaltu auka út um 1 lykkju í stærð S, um 3 lykkjur í stærð M en taka út 4 lykkjur í stærð L og auka við 1 lykkju í stærð XL. Þá eru á prjóninum  48 (51) 51 (51) lykkjur. Prjónaðu kaðlaprjóna næstu 20 cm. Felldu laust af.

Húfa   45 (49) 53 cm. Athugaðu þó að húfan teygist mjög vel.
Fitjaðu upp 36 (39) 42 lykkjur með fjórföldum plötulopa á prjóna nr. 12. Tengdu saman í hring. Prjónaðu kaðlaprjón þar til húfa mælist 21 (22) 23) cm. Endaðu á snúningsumferð (umf. 2 í kaðlaprjóninu). Prjónaðu þá eina umferð slétta og taktu út allar brugðnu lykkjurnar með því að prjóna saman aðra og þriðju hverja lykkju þ.e. slétta og  brugðna lykkju. Prjónaðu þá snúningsumferð. Í næstu umferð fækkar þú lykkjunum um helming með því að prjóna ávallt saman tvær lykkur út umferðina. Slíttu frá og dragðu bandið í gegn.

Ef þú vilt getur þú haft tvo garða framan á ermunum og neðan á peysunni. Það setur ákveðinn svip á peysuna.

Saturday, 19 July 2014

Kragi úr Ævintýraprjóni Prjónakistunnar





Einu sinni var ég með leyniprjón á síðu Prjónakistunnar. Á hverjum degi í nokkra dag gaf ég upp lítinn bút af því sem var verið að prjóna. En svo líður tíminn og hlutirnir gleymast. Áðan rakst ég á uppskriftina í tölvunni hjá mér og finnst tilvalið að skella henni hér svo hún gleymist ekki alveg. Ég læt dagana fylgja hér með ef einhver hefur áhuga á að prjóna þetta í litlum skömmtum.
Ævintýraprjón nr. 2

Prjónar
Hringprjónn 4 , 40 cm langur       

Prjónfesta
22 lykkjur = 10 cm

 
Garn og áætluð garnþörf
Margs konar milligróft garn er hægt að nota s.s. Coast, Smart, Karisma o.fl.

Litir:
A – ljósgrátt
B – Rautt
C – dökkgrátt
D – svart
E – hvítt

Undirbúingur
4 litir af garni fara í verkefni en hægt er að nota fleiri ef vill.
Þegar valdir eru litir skiptir miklu máli að þeir greini sig vel hver frá öðrum.

Dagur 1
Fitjaðu upp 108 lykkjur með lit A (aðallit) og tengdu saman í hring.
  • Prjónaðu 3 brugðnar umferðir með lit A.  En athugaðu samt áður að  ef þú  nennir ekki að prjóna brugðið áttu að fara að eins og ég er vön að gera, þ.e. að prjóna slétt prjón þessar þrjár umferðir og snúa svo prjóninu við þannig að það slétta snúi inn (rangan) en það brugðna út (réttan). Þegar því er lokið skaltu passa að garnendinn sé á röngunni. Ekki slíta frá.
  • Prjónaðu 3 sléttar umferðir með lit B (1.aukalit)

Dagur 2
  • Prjónaðu 1 slétta og 3 brugðnar umferðir með lit C. (Mundu að þú getur losnað við að prjóna brugðið með því að snúa við eftir 1. umferðina. Þú prjónar þá slétt á rögunni og færð þannig. Þannig brugðið á réttunni).
  • Prjónaðu 3 sléttar umferðir með með lit B

Dagur 3
  • Prjónaðu 1 slétta og 3 brugðnar umferðir með lit D
  • Prjónaðu 3 sléttar umferðir með með lit B

Dagur 4
Í dag er prjónað munstur samkvæmt teikningunni, allt með sléttu prjóni. Ef þér hættir til að prjóna tvíbandamunstur fastar en slétt prjón væri ekki úr vegi að skipta um prjónastærð og fara í hálfu númeri stærri.
  • Prjónaðu munstrið á myndinni. Auður reitur táknar lit A (aðallit) en reitur með X táknar munsturlit C sem er seinni munsturliturinn ef þú ætlar að nota tvo munsturliti í verkefninu. Ef þú hins vegar er með marga liti skaltu byrja á nýjum munsturlit og skipta svo aftur um mynsturlit þegar þú hefur prjónað fjórar umferðir.


Dagur 5
  • Prjónaðu munstrið á myndinni eins og í gær. X táknar lit D en auði flöturinn lit E.

Dagur 6
  • Prjónaðu 1 slétta umferð með lit A (aðallit).
  • Prjónaðu 3 sléttar umferðir með lit B (fyrri aukalitnum ef tveir eru notaðir)
  • Prjónaðu 3 sléttar umferðir með lit A.
  • Prjónaður 3 sléttar umferðir með lit B
  • Prjónaðu 1 slétta umferð með lit A
  • Prjónaðu fyrstu fjórar umferðirnar af munstrinu sem þú prjónaðir í gær. Ef þú ert með tvo munsturliti prjónar þú eins og síðast þegar þú prjónaðir munstrið með lit C og aðallit.


Dagur 7
  • Prjónaðu 12 umferðir af munstrinu (já einmitt þú endurtekur umf. 1-4 þrisvar sinnum og þetta er framhald frá því í gær). Þá ertu sem sagt komin með 4 munsturendurtekningar eins og í munsturkaflanum sem þú prjónaði á degi 4 og 5. Ef þú ert með tvo munsturliti prjónar þú eins og síðast þegar þú prjónaðir munstrið með lit C og aðallit. Annars skiptir þú um liti eftir hverjar 4 umf. eða lætur hugmyndarflugið ráða skiptingunni.
  • Prjónaðu 1 slétta umferð með lit A (aðallit).

Dagur 8
  • Prjónaðu 3 sléttar umferðir með lit B.
  • Prjónaðu 1 slétta og 3 brugðnar umferðir með lit A.
  • Prjónaðu 3 sléttar umferðir með lit B.

Dagur 9
  • Prjónaðu 1 slétta og 3 brugðnar umferðir með lit A.
  • Prjónaðu 3 sléttar umferðir með lit B.
  • Prjónaðu 1 slétta og 3 brugðnar með lit A.
  • Felldu af.

Hér er svo að lokum slóðin á viðburðinn þar sem sjá má ýmsara útgáfur af kraganum. - Ævintýraprjónið sjálft.

Tuesday, 15 July 2014

Litað með Kool Aid

Að lita garn getur verið skemmtilegt. Í morgun rakst ég á nokkur Kool Aid bréf uppi í skáp hja mér sem ég keypti einhvern tímann fyrir löngu. Og þar sem ég átti hespu af einbandi ákvað ég að nú væri kominn tími til að prófa að búa til marglitt band.


Ég skellti hespunni í pott á eldavélina og bætti við vatni svo það svona rétt flaut yfir hespuna. Svo kveikti ég undir og beið þar til suðan var við það að koma upp. Á meðan ég beið sótti ég litlar krukkur og setti litina fjóra sem ég ætlaði að nota í þær. Svo setti ég svolítið vatn í krukkurnar og hitaði þær í örbylgjunni. 


Þegar sauð í pottinum tók ég hann af hellunni og hellti litunum útí, einum í einu og passaði að hreyfa pottinn ekki né hræra í vatninu. Svo beið ég þar til vatnið var orðið nokkuð tært. Það var ekki langur tími, kannski 5 mínútur. Þá setti ég hespuna í plastílát og hitaði um stund í örbylgjunni. Útkoman var skemmtileg og litirnir í garninu miklu fleiri en ég hafði sett útí þar sem að hluta til blönduðust þeir.


Grænir litir.

Orange litir og út í brúnt.

Rauðleitir og fljólubláir litir.

Nú þegar garnið er tilbúið þarf ég að finna mér skemmtilega sjalauppskrift til að prjóna. 

Ég velti því líka fyrir mér hvernig við fólk lítur út að innan þegar það drekkur þessa litsterku drykki sem eru jú fyrst og fremst ætlað til drykkjar en ekki litunar.