Sunday, 25 May 2014

Blönduós, þar sem handavinnan á heima

Það er ekki á hverjum degi sem ég legg land undir fót eða ætti ég kannski að segja veg undir bíldekk því það er ekki eins og maður sé að ganga mikið þótt maður bregði sér bæjarleið. Jæja, en hvað um það. í gær fór ég ásamt tveimur konum í skemmtiferð norður á Blönduós. Tilefnið var þríþætt, ein okkar ætlaði að hitta vinkonu sína, listakonuna og handverkssnillinginn Lisbeth Tolstrup, allar ætluðum við að skoða sýningar á opnu húsi í Kvennaskólanum og svo ætlaði ég að skoða fágætan grip á Heimilisiðnaðarsafninu.

Það tók okkur dágóðan tíma að keyra alla leið frá Selfossi á Blönduós. Með stoppum urðu þetta rétt um fjórar klukkustundir. En það var allt í lagi því ánægjan af ferðinn var mjög mikil. 

Eftir að hafa skellt í okkur einhverri næringu á N1 sjoppu fórum við sem leið lá á opna húsið. Þar tók á móti okkur fullorðin og sérlega glæsileg kona sem leiddi okkur um Kvennaskólann og sagði okkur sögu hans. Einnig fræddi hún okkur um ýmsa muni sem þar var að sjá. Ekki veit ég nafnið á þessari ágætu konu en við kunnum henni bestu þakkir fyrir sérlega ánægjulega stund. 


Næst lá leið okkar til Lisbeth Tolstrup og manns henna Lars. Lars Pryds er myndlistamaður og var með nokkur verk á staðnum sem hann var nýlega búinn að gera úr alls konar hlutum sem fólk hafði hent, bréfaúrklippum og ýmsu öður. Það vakti áhuga íslenskukennarans að Lars fannst skemmtilegt að skoða sérlíslensku stafina þ, ð og nokkra kommustafi. Myndirnar hans voru ekki stórar en sérlega áhugaverðar. Þeir sem vilja geta skoðað þær hér. Lisbeth aftur á móti var með ýmsilegt sem hún er að fást þessa dagana s.s. listaverk úr íslenskri ull og skratgripi sem hún er að búa til úr ýmiskonar bandi. Lisbeth er ein af þessum snillingum sem kemur víða við, heldur námskeið, gefur út bækur, vinnur að listsköpun, er aðili að Fiber fiber hópnum,  skipuleggur handavinnukenslu og svo ótal margt annað. Hún er með heimasíðu sem má sjá hér.



Á efstu hæð hússins hittum við svo tvær áhugaverðar konur. Judie-Ann Moule er veflistakona. Hún sýndi okkur hvernig ætti að gera tyrkneskt teppi. Hver veit nema maður prófi það einhvern daginn. Hin konan á hæðinni var Liz Pead er einnig veflistakona og einstakur fjörkálfur. Þeir sem vilja sjá eitthvað af því sem hún fæst við geta kíkt hér.


Ekki var hægt annað en að kíkja á Vatnsdælarefilinn og fræðast um hann. Við gátum reyndar ekki gefið okkur tíma til að sauma í hann að þessu sinni en það kemur vonandi að því að það verði hægt. En Jóhanna E. Pálmadóttir fræddi okkur um tilurð hans og vinnuna við hann. Og mikið óskaplega má konan vera stolt af því sem hún hefur komið til leiðar með þessum refli. 

Þótt allt hafi verið bæði skemmtilegt og áhugavert þennan dag á Blönduósi verð ég að viðurkenna að það sem ég beið spenntust eftir áður en lagt var í ferðina var að skoða prjónaða stokkapeysu eða ætti ég heldur að segja peysufatapeysu sem finna má á Textilsafninu þar. Og ég varð ekki fyrir vonbrigðum.


Elín S. Sigurðardóttir forstöðumaður safnsins var svo elskuleg að leyfa okkur að skoða stokkapeysuna þó svo að ekki væri búið að opna safnið formlega þetta árið. 

Peysan var dásamleg, prjónuð úr mjög fínu garni og þæfð svolítið. Það vakti athygli að sjá hvernig bætt hafði verið inn í kvenpeysuna til að víkka hana og svo var búið að prjóna önnur stroff á ermarnar á karlmannspeysunni. Já, þær voru nýtnar í gamla daga konurnar og kunnu að gera mikið úr litlu. 

En það fylgja því ákveðnir töfrar að skoða svona gamla handavinnu og hugleiða aðstæðurnar fólksins á öldum áður. Þvílík vinna sem lögð hefur verið í eina peysu. Mér finnst með ólíkindum að konur fyrr á öldum hafi getað prjónað svona flíkur við þau birtuskilyrði sem þær bjuggu við. Ég er hrædd um að ég ætti að minnsta kosti ansi erfitt með að prjóna við sömu aðstæður enda nota ég lampa með ljósi og stækkunargleri þegar ég prjóna svona fínt prjón. En hvað um það, ég er ákveðin í að prjóna mér svona peysu einhvern tímann. Garnið er ég búin að velja og prjónfestuprufurnar hafa þegar verið gerðar. Í sumar ætla ég að reikna út lykkjufjölda í peysuna þannig að hún passi á mig sjálfa og auðvitað þarf ég að taka mið af þæfingunni. Það er ýmislegt í peysunni sem er öðruvísi en í peysum sem konur prjóna í dag svo þetta á eftir að verða skemmtileg og fróðleg vinna. Í haust verð ég vonandi komin með uppskrift sem ég get farið eftir til að prjóna og þannig verði tilbúin til að byrja verkið næstkomandi vetur.

Í október mun Lisbeth Tolstrup koma til Íslands og vera með prjóna workshop-námskeið í skartgripagerð og prjónatækni á Selfossi. Áhugasamir geta haft samband á facebooksíðu Prjónakistunnar og tryggt sér pláss.

4 comments:

  1. Frábær pistill! Les oft það sem þú skrifar, en skil ekki eftir skilaboð þar sem ég er ekki á Facebook sjálf og skoða hjá kallinum. Það er einhver sérviska hjá mér að vilja ekki vera á Feisinu. Takk fyrir pistlana og þínar góðu uppskriftir á Prjónakistunni.
    kveðja
    Anna Jóna

    ReplyDelete
  2. Anna Jóna Kristjánsdóttir26 May 2014 at 11:09

    Gleymdi að taka það fram að ég hef mikinn áhuga á ísl. búningum og mun örugglega skoða peysufatapeysuna næst þegar ég fer norður.

    ReplyDelete
  3. Anna Jóna Kristjánsdóttir26 May 2014 at 11:10

    Gleymdi að taka það fram að ég hef mikinn áhuga á ísl. búningum og mun örugglega skoða peysufatapeysuna næst þegar ég fer norður.

    ReplyDelete
  4. Búin að lesa mér til ánægju og fróðleiks. Þetta var gert í gamla daga að prjóna sér peysufatapeysu. Ég á einhverstaðar mynd af
    ömmu mannsins míns í svona heimaprjónaðri peysu og sú var með garðaprjóni.

    ReplyDelete


Það er alltaf gaman að lesa athugasemdir ykkar við færslurnar mínar svo endilega skrifið smá skilaboð til mín.