Það er svo gaman að leika sér jafnvel þótt maður sé fullorðinn. Um daginn brá ég á leik á facebooksíðu Prjónakistunnar og bað fólk um að setja inn nafn á einum lit. Sjálf setti ég tölur á blað og stakk þeim í umslag. Ég var ákveðin að prjóna úr þeim litum sem væru að baki tölunum og finna út úr því í Prjónakistunni á miðvikudagskvöldi.
Á Prjónakistusíðunni var einnig kosning í gangi um hvað ég ætti að prjóna úr þeim litum sem upp kæmu. Ég gaf upp nokkra möguleika og þeir sem kusu merktu flestir við sjalið.
Á miðvikudagskvöldinu var heilmikill spenningur í gangi í Prjónakistunni, ekki síst hjá mér sjálfri. Ég vissi að það gat verið erfitt að prjóna úr sumum litasamsetningum þannig að vel færi. En ég leit þó á það sem skemmtilega áskorun. Litirnir sem voru svo að baki tölunum (við töldum einfaldleg kommentin þar til komið var að þeim tölum sem voru á blaðinu) voru grænt, rautt, bleikt og svart.
Sá fyrsti var grænn og ég var búin að gefa það upp að sá sem væri að baki fyrstu tölunni yrði aðalliturinn. Allir sem þekkja mig vita að grænt er ekki minn litur þannig að ljóst er frá upphafi að ég get ekki notað sjalið sjálf. Ákveðin vonbrigði auðvitað, en ég á marga vini sem örugglega vilja þiggja sjal af mér.
Svo var mér vandi á höndum. Rautt og bleikt er nú ekki alltaf talið passa vel saman og grænt og bleikt getur orðið mjög ljótt í samsetningu. Ég varð því að vanda verulega vel litbrigðin sem ég myndi nota. Eftir að hafa horft í kringum mig um stund komst ég að því að kambgarnið væri líklegast til árangurs í litasamsetningunni.
Svo ákvað ég að prjóna nú einu sinni eitthvað annað en eigin hönnun. Það er jú svo svakalega gaman að prjóna án þess að þurfa að teikna, reikna, spá og spekúlera endalaust. Minnug þess að ég hefði séð flott sjal á netinu fyrir nokkru ákvað ég að finna það aftur og kaupa mér uppskriftina. Og það gekk eftir. Sjalið sem ég valdi heitir Leftie og ég fann það á ravelry.com. Þá var bara að hefjast handa.
Í gærkvöldi (25. október) byrjaði ég svo á sjalinu. Og mikið var þetta skemmtilegt. Ég fitjaði upp örfáar lykkjur eins og stóð í uppskriftinni og ætlaði svona rétt að byrja, bara til að sjá hvernig litirnir kæmu út. Og svo byrjaði ég. Þetta leit nú frekar undarlega út í byrjun.
En það var svo spennandi að prjóna þetta að ég gat hreint ekki hætt fyrr en vel var farið að líða á kvöldið - og þá meina ég mjög vel því það voru allir komnir í fasta svefn þegar ég skreið loksins í bólið. Í morgun myndaði ég síðan dýrðina. Ég er sem sagt komin vel af stað en ekki nærri búin ennþá.
lofar góðu :) flott litasamsetning.
ReplyDeletesýnist þetta verða glæsilegt hjá þér og ótrúlegt hvað litirnir koma vel saman. Hvaðan er uppskriftin?
ReplyDeleteÞessi dásamlega uppskrift heitir Leftie og er keypt af ravelry.com
ReplyDeleteBara æðislegt hjá þér frænka og kemur svona ljómandi vel út. Klæjar í puttana að gera eins :-)
ReplyDeleteÞetta er rosalega flott! Ég verð sko að prófa þessa og mér finnst litirnir koma mjög vel út enda er grænn minn litur ;)
ReplyDelete