Saturday, 29 September 2012

Kaðlar, ekki minna en eins báðum megin!



2+2 með sléttum lykkjum á milli.


Þær sem koma í Prjónakistuna taka flestar eftir fallegum kaðlatrefli sem oft er á gínunni við útidyrnar. Það er alltaf jafn gaman að fylgjast með þeim sem skoða hann nánar og taka eftir að hann er eins báðum megin. Flestar snúa honum fram og til baka til að fullvissa sig um að þær  séu að taka rétt eftir. Venjan er nefnilega sú að kaðlaprjón er ekki fallegt á röngunni þótt þessi trefill sé það. 
                 
  -                             - Hvernig er þetta eiginlega hægt? segja þær og stara undrandi á okkur og kaðlana til skiptis.
-                             -   Þetta er nú ótrúlega auðvelt, svara ég auðvitað að bragði og bæti svo við að það sé nú reyndar allt auðvelt sem maður kunni.

Ég hef haldið fjölmörg námskeið og leitt konur (ekki karla því þeir láta
ennþá ekki sjá sig á námskeiðum hjá mér) í allan sannleikann um það hvernig kaðlarnir eru prjónaðir. En nú er svo komið að ég hef ákveðið að hafa ekki fleiri námskeið í þessu kaðlaprjóni. Ekki er það þó svo að ég vilji ekki að fleiri læri þetta. Nei - síður en svo. Nú ætla ég bara að leiða alla þá sem vilja heyra (eða réttara sagt sjá á prenti a.m.k.) í sannleikann um það hvernig þessir dásamlegu kaðlar eru prjónaðir. 
2+2 til vinstri & 1+1 til hægri.
Hugsaðu þér eitthvert einfalt  prjón sem er eins báðum megin. Hvað sérðu? Sjálfsagt datt þér fyrst í hug stroff. Það er jú alltaf eins á framhlið og bakhlið. Galdurinn á bak við kaðlana er í rauninni jafn einfaldur. Þú prjónar kaðalinn sjálfan með sléttum og brugðnum lykkjum eins og stroff og svo getur þú haft perluprjón eða garðaprjón á endunum, allt eftir smekk og aðstæðum. 

Hverjar tvær lykkjur  sem þú prjónar, þ.e. ein slétt og ein brugðin mynda pör sem líta verður á sem eina heild.  Ef þú fitjar upp 8 lykkjur í kaðal og prjónar  eina slétta og eina brugðna til skiptist skaltu víxla 4 lykkjum (1 sétt, 1 brugðin, 1 slétt, 1 brugðin). Á þann hátt verður kaðallinn eins báðum megin.
Ýmsar snúningsleiðir eru færar.

Svo er líka hægt að gera nokkur önnur afbriðgi af köðlum sem eru fallegir báðum megin.  Kaðall með  einni sléttri og annari brugðinni lykkju verður frekar flatur. Ef þú prjónar aftur á móti tvær sléttar og tvær brugðnar verður kaðallinn upphleyptari. Enn önnur útkoma fæst síðan ef þú notar klukkuprjón eða hálfklukkuprjón í kaðalinn. En svo er bara um að gera að prófa sig áfram og finna út hvað manni finnst flottast hverju sinni.
Klukkuprjónskaðall til vinstri & 2+2 kaðall til hægri.



Einfaldur trefill með tveimur köðlum og garðaprjónskanti

Kaðallinn í uppskriftinni er mjög svipaður þeim á myndinni.
1
Fitjaðu upp 28 lykkjur.

1. umferð: 4 sléttar lykkjur, [1 slétt, 1 brugðin] 4 sinnum, 4 sléttar lykkjur, [1 slétt, 1 brugðin] 4 sinnum, 4 sléttar.

2.-7. umferð: Eins og umferð 1.

8. umferð: Umferðin er prjónuð eins og allar hinar umferðirnar að undanskildu því að þú gerir kaðalsnúning í strofflykkjunum (sléttu og brugðnu). *Prjónaðu fyrstu 4 lykkjurnar sléttar. Taktu síðan næstu 4 lykkjur og settu á hjálparprjón og leggðu hann fram fyrir. Prjónaðu nú næstu 4 lykkjur sléttar og brugðnar eins og áður og síðan lykkjurnar 4 sem þú settir á hjálparprjóninn.* Endurtaktu frá * til * einu sinni.  Endaðu síðan á að prjóna síðustu 4 lykkjurnar sléttar.


Endurtaktu umferðir 1-8 þar til þeirri lengd er náð sem þú vilt hafa á treflinum. 




Sunday, 23 September 2012

Eistnesk uppfit

Þegar ég lærði að prjóna hélt ég að það fitjuðu allir upp á sama hátt og aðeins ein aðferð væri til. Það er auðvitað langt síðan þetta var og í þá daga var heimurinn frekar svarthvítur hjá mér, a.m.k. miðað við það sem nú er. Svolítið seinna komst ég að því að tvær aðferðir voru notaðar, húsgangsfitin sem ég lærði og gullfitin sem sumar konur sem ég þekkti notuðu. En hvað um það, núna mörgum árum seinna, veit ég að fitin eru fjölmörg og að ég kann aðeins lítið brot af þeim sem til eru (og kann ég þó ekkert sérlega fá).

Um daginn kynntist ég svo nýrri aðferð við að fitja upp. Aðferðin  er ættuð frá Eistlandi. Þar er á ferðinni sérlega áhugaverð fit þar sem hún er svo teygjanleg og svo er hún líka svo falleg. Og ekki skemmir fyrir að það er einstaklega einfalt að gera hana. Já, og svo smellpassar hún í sokkaprjónið hjá mér. En þessa dagana er ég auðvitað að prjóna sokka fyrir veturinn.

Í rauninni má segja að eistneska uppfitin sé blanda af tvenns konar uppfitjum, húsgangsfit og annarri sem er mjög svipuð henni.

Svona ferðu að þegar þú fitjar upp:

Búðu til lykkju á prjóninn og hafðu langan enda á prjóninum.  Smeigðu síðan bandinu milli vísifingurs og þumalfingurs.
Dragðu bandið út og þá sérðu að lykkja myndast við þumalfingurinn. Stingdu prjónaoddinum inn í hana neðan frá og sæktu bandið sem er  um vísifingur (venjulegt húsgangsfit/einfalt fit)
Þegar þú gerir næstu lykkju hefur þú bandið vafið á sama hátt um vísifingur en vefur því hina leiðina um þumalfingur (nú lætur þú það koma innan frá og út en ekki öfugt eins og áður). Prjónaðu síðan inn í lykkjuna (undir bandið sem er innan við þumalinn).
Taktu eftir að lykkjurnar mynda einhvers kona pör.
 Svo er bara að prófa sig áfram. Hver veit nema þetta verði uppáhaldsfitin þín þegar þú hefur tileinkað þér hana.