Friday, 15 June 2012

Að tengja saman lopaþræði

Þegar ég var lítil sat ég oft við eldhúsborðið hennar ömmu og hlustaði á hana og þá sem voru í heimsókn ræða um allt milli himins og jarðar. Margt af því sem þar var sagt man ég ennþá þótt annað hafi fallið í gleymskunnar dá. 

Einu sinni var vinkona hennar í heimsókn. Þær sátu með prjónana sína við borðið, töluðu, reyktu, drukku kaffi og prjónuðu, allt í senn. Svo kláraðist lopinn hjá vinkonunni og hún tók fram nýjan hnykil og batt endana saman með venjulegum hnút. Amma átti ekki orð. 
      - Hvað ertu eiginlega búin að prjóna lengi, sagði hún svo og var auðheyranlega ekki sátt við það sem hún sá. Svona fer engin prjónakona að, bætti hún við og var alvarleg á svipinn. Í fyrsta lagi á aldrei nokkurn tímann að hnýta lopa sama og í öðru lagi á aldrei að nota venjulegan hnút þegar prjónaband er sett saman því það kemur alltaf til með að sjást.

Skrítið að muna svona eftir alla þessa áratugi.

En hvernig á þá að fara að? Samkvæmt skoðunum ömmu minnar og sjálfsagt flestra reyndra prjónara er lopi tengdur saman með því að þæfa hann saman. Þegar prjónað er úr einföldum lopa eru endarnir einfaldlega lagðir saman, tungan sett í lófann til að væta hann örlítið og svo eru endarnir nuddaðir  saman þar til þeir eru vel fastir saman.



Ef prjónað er úr tvöföldum lopa (tveimur þráðum af lopa) á að hafa endana mislanga svo þykktin komi ekki öll á einum stað. Gott er að hafa a.m.k.  5-10 cm mun á endunum. Svo eru tveir þræðir þæfðir saman í einu en ekki allir fjórir.


Svipað er farið að þegar léttlopi er setur saman, þá er lopinn klofinn í báðum endum og annar þráðurinn styttur. Þannig  sést ekki að lopinn hafi verið settur saman og þykktin verður passleg.


Þegar ég aftur á móti set saman garn er misjafnt hvernig ég fer að. Stundum klíf ég endana á nokkuð löngum kafla, nálægt 10 cm. Svo legg ég endana bara saman og held áfram að prjóna. Oft hætti ég líka bara að prjóna með öðrum endanum og byrja á þeim nýja og geng svo frá þeim þegar ég er búin með flíkina.

Fleiri aðferðir eru auðvitað til, s.s. að splæsa garnið saman með því að þræða annan endann inn í hinn en þær hef ég ekki tileinkað mér og ætla því ekki að reyna að útskýra þá aðferð eða aðrar ámóta hér.

No comments:

Post a Comment


Það er alltaf gaman að lesa athugasemdir ykkar við færslurnar mínar svo endilega skrifið smá skilaboð til mín.