Sunday, 7 June 2015

Að prjóna línulegt munstur í hringprjóni

Í dag ákvað ég að láta loksins verða að því að prjóna eftir prjónatækni sem ég lærði fyrir löngu. Þessi tækni felur það í sér að maður getur prjónað munsturbekk í hringprjóni sem ekki nær allan hringinn heldur nær aðeins yfir tiltölulega fáar lykkjur á framhlið t.d. sokks eða vettlings, liggur s.s. eins og lína eftri endilöngu prjóninu.

Fyrst var að prjóna stroffið og síðan bætti ég við tveimur einlitum sléttum umferðum. Og þá var komið að munsturprjóninu. 

Fyrst prjónar maður eina umferð af munstrinu með hefðbundnu tvíbandamunstri.



Svo snýr maður við og prjónar til baka og nú eingögnu þær lykkjur sem eru í munsturlit en tekur hinar óprjónaðar. Og auðvitað prjónar maður þær brugðnar til að þær verði sléttar á réttunni. Mér fannst best að hafa bara fáar lykkjur á prjóninum sem var með munstrinu svo maður væri ekki alltaf að færa til óprjónaðar lykkjur sitt hvorum megin við munstrið.



Svo þegar maður er búinn að prjóna þessar tvær umferðir af munstrinu, fyrri með báðum litum og þá seinn með munsturlitnum snýr maður aftur við og prjónar frá réttu með aðallitnum það sem eftir er af hringnum. Aukaliturinn liggur bara og bíður eftir að maður klári umferðirnar. 

Þegar fyrri umferðin er búin og maður kemur að munstrinu aftur prjónar maður þær lykkjur sem ekki voru prjónaðar brugðnar til baka, þ.e. þær sem eiga að vera í aðallit og tekur hinar óprjónaðar. Svo kárar maður seinni umferðina.

Þessar tvær umferðir prjónar maður síðan alltaf eins nema hvað maður fylgir munstrinu. Þegar komið er að þeim stað þar sem munstur í þriðju umferð byrjar tekur maður upp munsturbandið og bætir á fingurinn og prjónar með tveimur böndum, munsturlit og aðallit. Svo er bara að muna að alltaf eru tveir prjónar af munstri prjónaðir í einu, sá fyrri á réttu með tveimur litum en sá seinni á röngu með munsturlitnum eingöngu.

Eftir að hafa prjónað nokkrar umferðir var munstrið farið að koma þokkalega í ljós.



Og svo er að gera eins og sönn prjónakona, snúa herlegheitunum við og athuga hvort rangan sé ekki í lagi.

Og svei mér þá ef þetta er ekki bara ágætt og ég því nokkuð sátt með útkomuna. Nú er bara að halda áfram og athuga hvort þetta endi ekki sem ágætis vettlingar. Ég er að minnsta kosti búin að tileinka mér tækni sem ég mun án efa nota oft í framtíðinni.

 Og hér er svo fyrri vettlingurinn tilbúinn. 






3 comments:

  1. Þetta er skemmtilegt hjá þér frænka :-)

    ReplyDelete
  2. Þetta er ótrúlega spennandi, en ég er samt ekki alveg að ná þessu, væri til í fleiri myndir eða jafnvel myndband! :-)

    ReplyDelete
  3. Þetta er sniðugt!! Verð að prófa þetta. :)

    ReplyDelete


Það er alltaf gaman að lesa athugasemdir ykkar við færslurnar mínar svo endilega skrifið smá skilaboð til mín.