Thursday, 26 December 2013

Afgangsgarnið

Eins og gengur og gerist hjá fólki sem hefur í mörgu að snúast í desember var ég ekki búin að öllu fyrr en það var farið að nálgast jólin verulega. Fyrst þurfti að ljúka kennslu, prófum, semja kennsluefni og undirbúa næstu önn. Þegar því var lokið voru fyrstu þrjár vikur mánaðarins liðnar. Þá var kominn tími til að skúra og skrúbba á heimilinu, baka og skreyta. Ég þeyttist um húsið eins og hvítur stormsveipur, neitaði mér algjörlega um að koma nálægt prjónum og lauk því verkinu bæði fljótt og vel. 

Í tiltektarmaníunni fann ég garnafganga á ýmsum stöðum ásamt ónotuðum dokkum sem ég flokkaði skipulega til seinni tíma nota. Sumt lagði ég til hliðar aftur en garn sem var 210 m pr. 50 gr fór saman í kassa. Þetta garn var frá ýmsum fyrirtækjum en átti það sameiginlegt að vera 75% ull og 25 % styrktarþráður. Sem sagt sterkt og gott garn.
 

Ég er eins og aðrar prjónakonur og fór strax að hugsa um hvað ég gæti gert við þessa afganga. Þarna var t.d. það sem varð eftir þegar ég gerði rósavettlinga handa dóttur minni og föðursystur. Líka það sem varð eftir þegar ég gerði alla gataprjónssokkana sem ég laumaði til vina á árinu. Kannski ég gæti gert sjal hugsaði ég, en sló því frá mér því mig langaði ekki í sjal úr þessum litum. 

En þar sem mig var farið að klæja í puttana eftir að hafa látið prjónana eiga sig i tvo daga og enn aðrir tveir til jóla ákvað ég að fitja upp á sokkum. Ég vissi hversu margar lykkjur ég þyrfti en ákvað í annan stað ekki hvernig sokkarnir yrðu. Stundum er bara svo gaman að prjóna eitthvað út í loftið og láta það bara koma í ljós hvað úr því verður.



 En þegar prjónað er svona út í loftið rekur maður oftar upp en annars. En það er allt í lagi, svolítið seinlegra reyndar, en hvað um það. Á aðfangadag var ég búin að prjóna fyrri sokkinn og þá var kominn tími til að skella honum ásamt garninu í kassa aftur og halda jól.





.

3 comments:

  1. mjög flottur sokkur hjá þér frænka

    ReplyDelete
  2. Flottur sokkur,mér finnst oft gaman að prjóna bara út í loftið,oftast verða húfur eða vettlingar fyrir valinu,

    ReplyDelete
  3. Rosalega fallegir. Sérstaklega falleg litasamsetning. Féll alveg fyrir þeim og myndi vilja prjóna þá. Gleðileg jól. Kveðja, Díana.

    ReplyDelete


Það er alltaf gaman að lesa athugasemdir ykkar við færslurnar mínar svo endilega skrifið smá skilaboð til mín.